132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[18:39]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nákvæmlega þetta sem ég vísaði til áðan að ég geri þá kröfu til hv. þingmanna að þeir kynni sér málin áður en þeir fullyrða um þau í ræðustóli. Það er alveg ljóst, og um það hefur margoft verið skrifað og hv. þm. Jóhann Ársælsson getur lesið um það í fræðiskrifum og sömuleiðis í álitum minni hluta og meiri hluta fossanefndar, að meiri hlutinn taldi að öll vatnsréttindi ættu að vera ríkiseign en minni hlutinn taldi að vatnsréttindin skyldu vera háð eignarumráðum landeigenda.

Þetta er alveg ljóst. Þetta kemur meira að segja fram í grein Þorgeirs Örlygssonar, prófessors í eignarrétti, og dr. Gaukur Jörundsson fjallar líka um þetta í riti sínu um eignarrétt frá 1982. Um þetta hefur ekki verið neinn ágreiningur. Það þýðir ekki að vitna í einhverja eina ræðu sem haldin var á fundi Verkfræðingafélags Íslands um hver niðurstaðan var. Niðurstaðan var sú að meiri hlutinn vildi að vatnsréttindi væru ríkiseign. Minni hlutinn var ekki þeirrar skoðunar. Einar Arnórsson var fenginn til að semja frumvarpið sem varð að vatnalögum og þar, eins og Þorgeir Örlygsson benti á og ég fór nákvæmlega yfir í ræðu minni, urðu sjónarmið minni hlutans ofan á. Það var ekki fallist á að vatnsréttindi yrðu ríkiseign.

Sá málflutningur hv. þingmanns vekur líka furðu að ég sé að fara rangt með hvernig hann og flokkur hans vilji haga eignarréttindum á vatnsréttindum. Það er alveg ljóst að hv. þingmaður telur að þær eigi ekki að vera háðar einkaeignarrétti eins og allir fræðimenn telja að vatnalögin hafi kveðið á um. Það sem er furðulegt er að (Forseti hringir.) Samfylkingin telur að Íslendingar eigi ekki einu sinni vatnið.