132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[18:43]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nánast vonlaust að ræða þetta mál við hv. þingmann. Ég reyndi að koma honum í skilning um að vatnið og vatnsréttindin væru háð einkaeignarrétti. Það er ekki bara mín skoðun. Sú fræðilega niðurstaða hefur komið fram í greiningu Ólafs Lárussonar, prófessors við Háskóla Íslands, Þorgeirs Örlygssonar, prófessors í eignarrétti og deildarforseta við Háskóla Íslands, dr. Gauks Jörundssonar og annarra fræðimanna sem um málið hafa fjallað.

Hv. þingmaður segir: Við viljum að eignarréttarhugtakið í núgildandi vatnalögum verði látið gilda. Gallinn er hins vegar sá að hv. þingmaður misskilur gjörsamlega inntak eignarréttarins eins og það hefur verið túlkað í vatnalögum. Hann er á algjörlega öndverðum meiði við þau sjónarmið sem hafa verið ríkjandi allt frá setningu vatnalaga frá 1923 og reyndar frá Grágásarlögunum og Jónsbókarlögunum og ég hef farið yfir. Þetta er enginn útúrsnúningur hv. þingmaður, en þingmaðurinn talar með þeim hætti að það er ekki hægt að ræða við hann. Rökræður við hv. þingmann (Gripið fram í.) eru með þeim hætti að hann væri tilbúinn til að gera ágreining um að himinninn væri blár, 2+2 væru 4 og jörðin kringlótt.

Ef hv. þingmaður er ekki tilbúinn til að fallast á þau sjónarmið sem ég hef reifað þá er þetta ekki til neins. Hann er gjörsamlega (Forseti hringir.) forfallinn. Misskilningurinn er hans.