132. löggjafarþing — 78. fundur,  7. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[18:50]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér bauð í grun að svona mundi fara. Það er rétt að í nefndri grein Sigurðar Líndals bendir hann á annmarka á því að telja upp þau réttindi sem fylgi eign, að sú upptalning geti ekki orðið tæmandi. En það sýnir sig að eftir að vatnalögin hafa gilt í 82 ár, nærfellt heila öld, og gengið í gegnum gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar og þurft að skera úr um mikilvæg hagsmunamál á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins, m.a. á einhverjum erfiðustu og flóknustu sviðum þjóðlífsins sem lúta að orkuiðnaðinum og þeim hagsmunum sem þar eru, sameign manna á veiðiréttindum o.s.frv., þá hafa menn ekki fundið neitt það atriði sem á skorti í upptalningunni frá árinu 1923. Slík völundarsmíð voru vatnalögin að þau skilgreindu með jákvæðum hætti nýtingarrétt þann sem landeigendur hefðu af vatni án þess að gera vatnið að séreign þeirra um aldur og ævi og alla nýtingarmöguleika þess.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gat ekki tilfært eitt vandamál, eina ástæðu, til þess að gera breytingu á lagaskilgreiningu um eignarhald á vatni aðra en þá sem við öll þekkjum, þá bjargföstu pólitísku sannfæringu hægri mannanna í Sjálfstæðisflokknum að allt undir sólinni skuli vera séreign manna og ekkert sameign eða almannaeign. (Forseti hringir.) Hitt hlýtur að koma okkur á óvart að það sé Framsóknarflokkurinn sem gangi þeirra erinda (Forseti hringir.) fyrir unga sjálfstæðismenn á Alþingi í dag.