132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Auglýsingar hins opinbera í héraðsfréttablöðum.

534. mál
[12:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Samkvæmt 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er skylt að auglýsa opinberlega laus störf í þjónustu ríkisins. Þetta ákvæði er nánar útskýrt í reglugerð um auglýsingar á lausum störfum, nr. 464/1996, með síðari breytingum. Það er í valdi hvers ráðuneytis og ríkisstofnunar að móta nánari stefnu um auglýsingar ef ástæða þykir til.

Með bréfi dagsettu 21. febrúar sl. óskaði forsætisráðuneytið eftir upplýsingum frá öllum ráðuneytum um það hvort ráðuneytin hafi sett sér stefnu um birtingar á auglýsingum, þar með talið í héraðsfréttablöðum. Af svörunum má ráða að ekkert þeirra hefur sett sér stefnu um birtingar auglýsinga umfram það sem kveðið er á um í lögum og reglugerðum. Hins vegar er það metið í hverju tilviki fyrir sig hvort ráðuneytið auglýsi í héraðsfréttablöðum eða ekki og er þá m.a. farið eftir því hvort um er að ræða mál sem tengjast sérstaklega viðkomandi svæði eða byggðarlagi, svo sem vegna funda eða fyrirlestra á viðkomandi svæði.

Ráðuneyti og ríkisstofnanir auglýsa nær undantekningarlaust laus störf á vefsvæðinu starfatorg.is og flestallar aðrar auglýsingar eru birtar á vefsvæðum þeirra. Samkvæmt þessu er reynt að tryggja sem best að mikilvægar upplýsingar frá ráðuneytum og ríkisstofnunum berist þeim sem málið varðar hverju sinni. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir um mikilvægi héraðsfréttablaðanna. Mér hefur alltaf fundist þau vera mjög mikilvæg. Það var sú tíð að þau hlutu ákveðinn stuðning, a.m.k. þau héraðsfréttablöð sem voru gefin út á vegum stjórnmálaflokkanna en það var síðan lagt af. Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að ráðuneytin auglýsi í þessum blöðum ef um er að ræða mál sem varða sérstaklega þessi svæði enda er ég viss um að það er besta leiðin til að koma upplýsingum á framfæri því að í flestum tilvikum eru þessi blöð mikið lesin og útbreidd á þeim stöðum þar sem þau eru gefin út.