132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Auglýsingar hins opinbera í héraðsfréttablöðum.

534. mál
[12:09]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Héraðsfréttablöð víða um land eru mikilvægur þáttur í lýðræðis- og mannlífskeðjunni, eru ákveðin kjölfesta og miðja í mörgum samfélaganna úti á landi, segja fréttir og flytja frásagnir af lífinu þar og mannlífinu, fréttir sem eðlilega birtast ekki í landsmálablöðunum. Þau blöð sinna öðrum hlutverkum og það er ekki pláss fyrir slíkar fréttir og ekki afl til að sinna þeim.

Ég er á þeirri skoðun að einhvers konar opinberir styrkir eigi að koma til, annaðhvort í formi auglýsinga eða með öðrum og beinum hætti til héraðsblaða sem þessara ef þau uppfylla tiltekin skilyrði sem við setjum, t.d. um hlutfall auglýsinga og efnis, um sölu eða frídreifingu o.s.frv., þannig að tryggt verði að ekki sé um einhverja auglýsingapésa að ræða heldur máttug héraðsfréttablöð sem bera uppi ákveðna frétta- og mannlífsfrásagnarþjónustu. Slík blöð eru mikilvægur þáttur í því að styrkja lýðræðið og fjölmiðlun í landinu.