132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Auglýsingar hins opinbera í héraðsfréttablöðum.

534. mál
[12:11]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna umræðunni sem hér fer fram og árétta mikilvægi héraðsfréttablaða í landinu. Við höfum rætt þetta mál ítrekað, m.a. í fjárlaganefnd Alþingis, hvernig hægt sé að koma til móts við þá útgáfu sem þarna um ræðir. Við vitum að þau 23 héraðsfréttablöð sem hv. fyrirspyrjandi nefndi í upphafi máls síns berjast mörg hver í bökkum og rekstrarskilyrði þeirra eru misgóð. Mér hefur fundist koma til greina að koma til móts við til að mynda flutningskostnað og dreifingu þessara blaða sem er íþyngjandi í rekstri en ég legg mikla áherslu á þau byggða- og menningarsjónarmið sem fylgja útgáfu þessara blaða. Ég tel að stofnun eins og Byggðastofnun eða aðrar slíkar stofnanir, sem hafa um að sýsla byggðamál í landinu, ættu að láta sig þessi mál varða og skoða hvort koma ætti til móts við rekstrarsjónarmið þessara útgáfufyrirtækja.