132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í prófkjörum.

551. mál
[12:29]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég vil nú hvetja fulltrúa stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi til að ræða við nefndarmenn viðkomandi flokka í þessari nefnd. Ég vil spyrja á móti: Er ekki mikilvægt að ná samstöðu um þessi mál? (JóhS: Ég hef rætt við fulltrúa flokksins og þess vegna hef ég áhyggjur.) Það getur vel verið að einhverjir þingmenn hér á hv. Alþingi séu ekki fulltrúar neins flokks. Það eru alveg nýjar fréttir fyrir mér.

En ég hef litið svo á að það væri nauðsynlegt að vinna að samstöðu í þessu máli. Ég hef sagt það mjög skýrt að ég tel nauðsynlegt að setja reglur í þessu sambandi. Að við setjum löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokkanna. En ég tel algjörlega nauðsynlegt að vinna að því með fulltrúum allra flokka á Alþingi.

Ef einhverjir hv. þingmenn vilja vinna það með einhverjum öðrum hætti þá er mikilvægt að fá það fram. Ef hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir telur ekki nauðsynlegt að Samfylkingin taki þátt í þessu máli og það sé hægt að vinna að málinu án Samfylkingarinnar, þá er það skoðun út af fyrir sig. Ég hef talið nauðsynlegt að það væri hægt að ná samstöðu líka með þeim flokki. Enda á hann marga fulltrúa hér á Alþingi. Ég hvet hv. þingmann til að ræða þetta innan síns flokks. Því ég veit ekki betur en hún starfi innan hans. Að hve miklu leyti hún ber ábyrgð á starfinu þar veit ég ekki. En ég hef haldið hingað til að hún starfaði að fullu innan flokksins.