132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Jafn réttur til tónlistarnáms.

264. mál
[12:42]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Málefni tónlistarskólanna eru óviðunandi og við í Frjálslynda flokknum höfum verið að skoða þau mál og setja niður fyrir okkur hvað við viljum gera og í nýútkominni málefnahandbók okkar er sérstakur kafli um málefni tónlistarskóla, sem fólk getur lesið. Við teljum að ríkissjóður eigi að kosta tónlistarnám nemenda á framhaldsstigi í tónlistarskólum á sama hátt og annað nám sem er stundað í framhaldsskólum landsins og þeir fjármunir sem sveitarfélögin fá eða verja til niðurgreiðslu á tónlistarnámi barna og unglinga eiga að gagnast öllum jafnt og engum skal mismunað. Menntamálaráðuneytið á síðan að gera námskrá fyrir kennaramenntun í tónlist og setja reglur um réttindi og skyldur tónlistarkennara og síðan eiga lengra komnir nemendur í tónlist að fá námið að fullu metið sem einingar til stúdentsprófs. Það hlýtur að vera skylda stjórnvalda að sjá til þess að tónlistarnám á Íslandi sé metið eins og allt annað nám, það hlýtur að vera sjálfsögð og eðlileg krafa og það hlýtur að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að málefni tónlistarskólanna verði lagfærð ekki seinna en strax.