132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Jafn réttur til tónlistarnáms.

264. mál
[12:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin sem gefa auðvitað til kynna að þetta mál er ekki í forgangi innan menntamálaráðuneytisins og það er afar miður. Auðvitað er það svo að ástæðu þess ástands sem nú ríkir má að hluta til rekja til þeirra aðstæðna sem Reykjavíkurborg hefur gripið til til þess að knýja fram endurskoðun laganna á fjárhagslegri skiptingu, eða með fjárhagslegum stuðningi við tónlistarskóla og þær aðgerðir hafa valdið nemendum verulegum baga, bæði nemendum sem eiga lögheimili í Reykjavíkurborg sem og nemendum sem eiga lögheimili úti á landi. Það skiptir máli að ekki sé farið á svig við ákvæði laga um einkakennslu í aðalnámsgrein. Þetta er eitt af því sem hæstv. menntamálaráðherra ber ábyrgð á og svaraði ekki áðan.

Það tíðkast orðið í auknum mæli að sveitarfélög knýi tónlistarskólana til að breyta kennslutilhögun í sparnaðarskyni úr einkatímum í hóptíma. Þetta á t.d. við um kennslu á hljóðfæri þar sem dæmi eru um að nokkrir nemendur séu saman í tíma en greiði námsgjöld eins og um einkatíma væri að ræða. Mismunurinn er þá notaður til launagreiðslna en það er andstætt 10. gr. laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Ofan í þetta atriði verður hæstv. menntamálaráðherra að fara og það er gríðarlega mikilvægt að tónlistarskólunum úti um allt land sé gerð grein fyrir því hver hugur hæstv. menntamálaráðherra er í þessum efnum. Til þess að það komi í ljós þarf hæstv. menntamálaráðherra að setja kraft í þá vinnu sem er í gangi og sjá til þess að jafnrétti fólks til tónlistarnáms verði tryggt.

Síðan vil ég segja varðandi framhaldsskólamálin: Ég er ekki sátt við það að menntamálaráðherra eða ríkið greiði eingöngu fyrir þreyttar einingar þeirra barna sem eru ... (Menntmrh.: Á framhaldsstiginu.) Nú? Hæstv. ráðherra grípur fram í og ef það er vilji hæstv. ráðherra að greiða allt framhaldsstigið í tónlist þá fagna ég, ef það er yfirlýsing ráðherrans hér í þessum sal, þá eru það tíðindi því það þýðir þá að sveitarfélögin verða eingöngu ábyrg fyrir grunnstiginu og miðstiginu og það er veruleg framför frá því sem verið hefur.