132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Brottfall úr framhaldsskólum.

369. mál
[12:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég varpa eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra: Hvert hefur verið hlutfallslegt brottfall nemenda úr framhaldsskólum að meðaltali síðustu fimm ár, skipt eftir skólaárum?

Rót þessarar fyrirspurnar er samtal sem ég átti fyrir nokkru við framhaldsskólakennara hér í borg. Þar kom fram að í umsjónarbekk hans hefði orðið mikil fækkun nemenda milli þriðja og fjórða skólaárs, mun meiri en milli fyrri ára í sama bekk. Að hans mati er það námsleiði sem grípur nemendur á þessu stigi í námi sem gerir að verkum að þeir falla brott úr námi.

Mér fannst þetta athyglisverð skýring og taldi rétt að afla upplýsinga sem annaðhvort renndi stoðum undir þessa kenningu eða hrekti hana. Þá hafði ég m.a. í huga þá umræðu sem átt hefur sér stað um endurskipulagningu á námi til stúdentsprófs sem m.a. getur falið í sér styttingu náms um eitt ár, úr fjórum í þrjú ár.

Margoft hefur verið rætt um brottfall úr framhaldsskólum hér á hinu háa Alþingi út frá ýmsum sjónarhornum. Ýmsar upplýsingar liggja þegar fyrir, m.a. að brottfall úr dagskóla er mun meira en meðal nemenda sem eru í hlutanámi utan skóla eða í fjarnámi. Þá er brottfall meðal karla ívið meira en kvenna og er meira í starfsnámi en bóknámi.

Í upplýsingahefti frá Hagstofu Íslands frá ágúst 2004 kemur fram að brottfall framhaldsskólanema hefur farið minnkandi á síðustu árum, en það er mest í upphafi náms. Á hinn bóginn er ekki mikill munur á brottfalli nemenda eftir aldri til 19 ára aldurs samkvæmt könnun sem náði til áranna 2002 og 2003, eða á bilinu 12–15% en hækkar verulega eftir það. Þar kemur jafnframt fram að rúmlega helmingur þeirra sem hætta námi hefur nám að nýju innan fimm ára og rúmlega fjórðungur hópsins tekur sér aðeins árs hlé.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að brottfall nemenda er meira og vinna með námi er algengari hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Þá liggur fyrir að Ísland er eina landið á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem almennt bóknám miðast við fjögur ár en ekki þrjú ár. Í þessu sambandi er einnig vert að hafa í huga þær upplýsingar sem komu nýverið fram í fyrirspurnatíma hér á hinu háa Alþingi, að framhaldsskólanemendur eru að meðaltali tæplega fimm ár að ljúka námi til stúdentsprófs þótt munur sé milli menntabrauta. Þess ber að geta að í þeim tölum er námshlé innifalið, sem hefur einhver áhrif til hækkunar.

Virðulegi forseti. Með hliðsjón af því sem ég hef hér sagt er eðlilegt að velta fyrir sér að hve miklu leyti skipulag náms til stúdentsprófs, eins og það er í dag, skýri meira brottfall úr framhaldsskólum hér á landi en annars staðar. Einnig hvort hátt hlutfall þeirra sem taka sér hlé frá námi bendi til hins sama, þ.e. námsleiða. Þá má velta fyrir sér hvort og þá hvaða áhrif stytting náms til stúdentsprófs hafi á ástundun náms og hvort það leiði til að nemendur ljúki fremur námi eftir samfellt nám en taki sér síðan ef til vill námshlé milli skólastiga. Slíkt fyrirkomulag nýtist bæði þeim betur og er hagkvæmara fyrir samfélagið í heild.