132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Brottfall úr framhaldsskólum.

369. mál
[12:56]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að það er verið að vinna að því í menntamálaráðuneytinu að skoða brottfall nemenda og vinna bug á því. Og ánægjulegt að heyra að þrátt fyrir háar tölur um brottfall þá komi margir þeirra nemenda aftur.

Það sem mér fannst hins vegar dálítið einkennilegt í máli fyrirspyrjanda, hv. þm. Ástu Möller, var að það virtist skína í gegn að stytting framhaldsskólans, þ.e. að stytta hann úr fjórum árum í þrjú, yrði til þess að draga úr brottfalli þar sem nemendur væru komnir með einhvern námsleiða eftir þrjú ár í skólanum. Nú er það staðreynd að flestir nemendur hætta á fyrsta ári. Það er alveg út í hött að halda því fram, og það hafa einmitt verið færð góð rök fyrir því að brottfall muni einmitt aukast við skerðingu framhaldsskólans. (Forseti hringir.) Nemendur mótmæltu þessu kröftuglega á (Forseti hringir.) Austurvelli. Ég hefði óskað þess að hv. þingmenn hefðu verið þar og hlustað á mál nemenda.

(Forseti (SP): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutíma.)