132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Brottfall úr framhaldsskólum.

369. mál
[12:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þingmönnum þátttöku í umræðunni. Það er rétt að það kom fram í fyrri ræðu minni að rót fyrirspurnar minnar var akkúrat hvort það væri námsleiði sem gripi krakkana þegar líða tekur á námið. Það er náttúrlega það sem ég vildi skoða í tengslum þá við þessar hugmyndir um styttingu náms til stúdentsprófs.

En ég benti líka á í fyrri ræðu minni að Ísland er eina landið innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem almennt bóknám í framhaldsskóla til stúdentsprófs er fjögur ár en ekki þrjú ár. Það er ljóst að brottfall úr framhaldsskólum er meira hér á landi en annars staðar. Það blasir við að það er meiri hætta á að nemendur hætti námi eða geri hlé á því eftir því sem námið er lengra og námslok eru lengra undan.

En það voru mjög ánægjuleg svör sem ég fékk frá hæstv. ráðherra og margt af því skýrði umræðuna, m.a. það sem ég hafði ekki alveg gert mér grein fyrir að þrátt fyrir mýtuna um að brottfall sé mest á fyrsta ári þá kemur í ljós að brottfall er minnst meðal 16 ára nemenda. Þannig að þetta passar ekki alveg saman. Spurning er hvort þessi gamla mýta sé eitthvað að breytast.

En það sem athyglisverðast í þessu er að hversu algengt það er að framhaldsskólanemendur geri hlé á námi sínu tímabundið. Í framhaldi af því má líka velta fyrir sér tengingunni við að krakkar eru fimm ár að ljúka námi til stúdentsprófs.

Tilgangur minn með að koma hingað upp var m.a. að benda á að stór hluti ungra krakka sem hætta námi koma til náms á ný, rúmlega 60%. En mér fannst full ástæða til að draga þetta inn (Forseti hringir.) í umræðuna varðandi styttingu náms til stúdentsprófs.