132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

510. mál
[13:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Samkvæmt 37. gr. laga um framhaldsskóla geta hvort heldur ríki eða sveitarfélög, eitt eða fleiri, haft frumkvæði að stofnun framhaldsskóla. Komi til stofnunar slíks skóla verður það einungis gert með samþykki Alþingis. Einstaklingar geta, samkvæmt 41. gr. sömu laga, stofnað framhaldsskóla án aðkomu löggjafarvaldsins. Slíkir skólar eiga þá ekki sjálfkrafa kröfu til slíks af almannafé.

Ég hef nýverið skipað starfshóp til þess að fara yfir og meta fýsileika þeirra kosta sem fyrir hendi eru varðandi byggingu nýrra framhaldsskóla. Ég tel mikilvægt að skoða þessi mál heildstætt en engu að síður, í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað að undanförnu, að líta til ákveðinna svæða eins og m.a. við utanverðan Eyjafjörð.

Að jafnaði liggja fyrir ráðuneytinu margar hugmyndir og óskir sveitarfélaga og annarra um nýja skóla eða stækkun þeirra sem fyrir eru. Skipan starfshópsins er til marks um minn vilja og ráðuneytisins til þess að meta fyrirliggjandi hugmyndir á hlutlægum og almennum forsendum sem ég tel afar brýnt áður en kemur að nýrri ákvörðun í þessum efnum. Þá er m.a. átt við íbúafjölda og íbúaþróun, dreifingu skóla sem fyrir eru, þróun kennsluhátta, svo sem fjarkennslu, byggðasjónarmið, rekstrarframlög samkvæmt núgildandi reglum auk hugsanlegra áhrifa nýrra skóla á námsframboð og rekstur þeirra skóla sem fyrir eru á svæðinu.

Öllum sem koma að þessum málaflokki er ljóst að stofnun og rekstur þeirra framhaldsskóla sem fyrir eru á landinu hefur verið viðkomandi byggðarlögum lyftistöng í margvíslegu tilliti. Margir hinna smærri skóla úti um allt land mundu þó ekki standast sem rekstrareiningar nema vegna þess að til þeirra er greitt uppbótarfé miðað við stærri einingar í þéttbýli. Hagkvæmni í rekstri skóla er að auki ekki eingöngu fólgin í eða mæld á fjárhagslega kvarða heldur ekki síður í faglegum burðum skóla til þess að halda uppi sérhæfðri kennslu sem stenst gæðakröfur. Þetta er að jafnaði þeim mun erfiðara sem færri kennslustundir falla til í hverri námsgrein. Hvort tveggja er gert með hagsmuni nemenda í huga, að þeim sé ekki mismunað hvað varðar möguleika á námi og í gæðum kennslunnar.

Víða um land er þegar hafið náið samstarf grunn- og framhaldsskóla á mörkum þessara skólastiga og vil ég sérstaklega geta þess samstarfs sem er á milli grunnskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri. Nálægð framhaldsskóla er þar með styrkur samfellu í skólastarfi og skólagöngu sem eftirsóknarvert er að aukist, m.a. með tilliti til þriggja ára framhaldsskóla. Ljóst er að forgangsröðun nýrra skóla með tilliti til þessara þátta og innan markmiða ríkisstjórnarinnar um framvindu málaflokksins er ekki einfalt mál. Þeim mun ríkari ástæða er til að vanda til verka og hafa náið samráð við heimamenn hvarvetna þegar kemur að nýjum ákvörðunum, hafa samráð við heimamenn.

Utanverður Eyjafjörður er sérstaklega nefndur meðal álitaefna starfshópsins sem tekið hefur til starfa og á að skila áliti fyrir 1. maí nk. Það er að sjálfsögðu til marks um að þar eru ýmsar forsendur fyrir framhaldsskóla, m.a. íbúafjöldi á hugsanlegu upptökusvæði og þá sérstaklega eftir göng, eins og hv. þingmaður bendir á.

Það mat sem felst í athugun ráðuneytisins væri hins vegar óþarft ef nú þegar væri unnt að svara spurningu hv. þingmanns til fulls eða hvenær nákvæmlega af einstökum skólastofnunum geti orðið. Hv. þingmaður verður því að sýna mér ákveðna þolinmæði og ég verð þá jafnframt að sýna vinnuhópnum ákveðna þolinmæði fram til 1. maí og bíða þess mats sem unnið er á vegum hópsins, tillagna byggðra á því og síðan ákvörðunar þingsins þegar þar að kemur.

Eftir að hafa m.a. farið yfir hvernig Fjölbrautaskóli Snæfellinga hefur þróast, hvernig hann hefur gjörbreytt því samfélagi sem þar er, hvernig við sjáum fram á þróun framhaldsskólans í framtíðinni með tilliti til ýmissa breytinga sem eru fram undan er alveg ljóst, það er mín persónulega skoðun, að kröfur munu aukast af hálfu sveitarfélaga um að stofnaður verði framhaldsskóli á ákveðnu upptökusvæði. Ég sé það fyrir mér að það upptökusvæði sem hv. þingmaður hefur sérstaklega í huga við utanverðan Eyjafjörð er ákjósanlegt og afar fýsilegt til þess að þar verði komið á fót framhaldsskóla. Að sjálfsögðu verður að taka tillit til þess sem verið er að undirstrika í æ ríkari mæli gæða náms og þeirra krafna sem gerðar eru til rekstrar skóla. Þá þætti verður að hafa í huga til þess að slíkir skólar verði samkeppnishæfir við það besta sem við viljum ávallt miða okkur við. Ég sé í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að við skoðum þennan kost gaumgæfilega en vil engu að síður veita hópnum sem er að fara heildstætt yfir hugsanlegar stofnanir á framhaldsskólum á landinu svigrúm og tækifæri til þess að fara vel yfir þau atriði sem skipta máli. Það eru fleiri svæði sem kalla á framhaldsskóla, ekki síst það fjölmenna svæði sem við erum stödd á hér í dag.