132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

510. mál
[13:18]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það sem ég held að við verðum að hafa í huga er að auðvelda fólki aðgang að framhaldsskólum. Þess vegna vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég spái því að kröfur sveitarfélaga eigi eftir að verða ríkari í þá veru að fá framhaldsskóla inn á sín svæði. Það er því að mörgu leyti skiljanlegt þegar litið er til Fjölbrautaskóla Snæfellinga hvað sá skóli eða stofnun hans hefur haft gríðarlega jákvæðar breytingar á það samfélag.

Vissulega er það rétt að okkar björtustu vonir voru að mig minnir 120 nemendur en nú eru á þriðja hundrað nemendur í þeim ágæta skóla. Við erum að ná inn í skólakerfið, framhaldsskólastigið, ekki aðeins nýnemum heldur líka fólki sem ella hefði ekki farið í skóla. Það er afar mikilvægt.

Ég vil líka undirstrika þann kost sem að mínu mati sem felst í því að landið allt er eitt framhaldsskólasvæði. Við erum að sjá til að mynda fólk á norðaustanverðu landinu fara til Húsavíkur, að Laugum og til Egilsstaða af því að það hefur þessa valkosti. Ég tel ákjósanlegt að ríki og sveitarfélög hafi með sér þá ágætu samvinnu sem þau hafa haft fram til þessa, að sveitarfélögin sýna oft og tíðum frumkvæðið að stofnun og koma síðan að því með setu í skólanefndum að halda áfram rekstri skólans í samvinnu við ríkið.

Ég vil líka benda á menntaskóla sem fyrirhugaður er og mun að mínu mati stuðla að svipuðum áhrifum og Fjölbrautaskóli Snæfellinga. Það er menntaskóli Borgarfjarðar en heimamenn hafa lagt ríka áherslu á að stofnaður verði menntaskóli þar. Við munum væntanlega sjá til þess að hann verði stofnaður á næsta ári og munu bæði einkaaðilar og sveitarfélög standa að rekstri hans.

Engu að síður skiptir máli og ég tek undir það að sá vinnuhópur á vegum ráðuneytisins sem er að fara heildstætt yfir framhaldsskóla og stofnun þeirra hugsanlega víðs vegar um landið, hafi gott samráð við (Forseti hringir.) heimamenn, hvort heldur það er við utanverðan Eyjafjörð eða annars staðar.