132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Ástand Þjóðleikhússins.

533. mál
[13:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um ástand Þjóðleikhússins. Ég tel að ástand Þjóðleikhússins sé okkur öllum sem þjóð hreinlega til háborinnar skammar. Við getum ekki látið það viðgangast lengur að þetta merka hús, sem var byggt af miklum metnaði á sínum tíma, skuli vera látið drabbast svona niður ár eftir ár.

Ég sit í menntamálanefnd Alþingis sem áheyrnarfulltrúi fyrir hönd míns flokks, Frjálslynda flokksins, og ég man vel þegar Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri kom á fund nefndarinnar í haust þegar við ræddum fjárlögin fyrir árið 2006, þ.e. þá þætti fjárlaganna sem viðkoma þeim málaflokkum sem heyra undir menntamálanefnd, eins og nefndir þingsins gera oft. Á fundi nefndarinnar lýsti hún ástandi hússins fyrir okkur og gerði okkur skýrt og skilmerkilega grein fyrir því að þarna væri í raun og veru að skapast mjög alvarlegt ástand.

Maður þarf raunar ekki annað en að ganga í kringum húsið og virða það fyrir sér til að sjá að það er orðið mjög illa farið. Maður sér líka þegar maður kemur inn í húsið að þar er kominn tími á viðhald í ansi mörgu þó að eflaust sjái maður aðeins toppinn á ísjakanum, bæði þegar maður skoðar húsið að utan og kemur inn í það.

Ég kem því upp, virðulegi forseti, eins og ég sagði áðan til að bera fram eftirfarandi þrjár spurningar til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hefur verið gerð úttekt á ástandi Þjóðleikhússbyggingarinnar? Ef svo er væri gott að fá að vita hvenær sú úttekt var gerð?

2. Hver er áætlaður kostnaður við viðgerð hússins eins og það er núna?

3. Eru áform um að húsið verði lagfært þannig að fullur sómi verði að.

Ég held að þetta sé aðeins spurning um vilja. Það eru til peningar til að gera þetta. Það voru til peningar til að lagfæra Þjóðminjasafnið. Það voru til peningar í Þjóðmenningarhúsið. Og ef við lítum hér til lofts og til veggja sjáum við að í Alþingishúsinu hefur nánast verið gert kraftaverk á örfáum árum. Ég man hvernig húsið var þegar ég kom hingað fyrst sem þingmaður árið 2003. Þá var pússningin að hrynja hér úr loftinu en núna er húsið eins og nýtt, bæði að innan og utan. Eins og ég segi, vilji er allt sem þarf, og ég spyr: Er þessi vilji fyrir hendi hjá ríkisstjórninni?