132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til kjörforeldra ættleiddra barna.

522. mál
[13:33]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa frumkvæði að því að taka þetta mál upp. Fyrirspurnin er tvíþætt og lýtur annars vegar að því hver sé afstaða félagsmálaráðherra til þess hvort styrkja beri kjörforeldra ættleiddra barna frá útlöndum líkt og gert er annars staðar á Norðurlöndum og hins vegar hvort athugun og undirbúningsvinna hafi farið fram í félagsmálaráðuneytinu um málið.

Ég kýs að svara í einu lagi og greina frá því eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda að ríkisstjórnin samþykkti það á fundi sínum þann 17. febrúar sl. að hefja undirbúning að útfærslu greiðslna til foreldra barna sem ættleitt hafa börn erlendis frá. Fráfarandi félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, lagði tillögu þess efnis fram í ríkisstjórn eftir að farið hafði verið yfir málið og menn höfðu komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að vista það í félagsmálaráðuneytinu.

Ég vil jafnframt geta þess að ég eins og aðrir hv. alþingismenn hef að sjálfsögðu kynnt mér fyrirliggjandi tillögu til þingsályktunar um styrki til foreldra til að ættleiða börn frá útlöndum sem þingmenn margra flokka standa sameiginlega að. Við getum verið sammála um að hér er um mikið réttlætismál að ræða. Það snýst um grundvallaratriði í samfélagi okkar, einkum að tvennu leyti: Annars vegar að því sem varðar jöfnuð milli foreldra og barna á Íslandi og hins vegar að því sem varðar réttinn til fjölskyldulífs.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni voru á árunum 1996–2004 alls frumættleidd 180 börn eða að meðaltali um 20 börn árlega. Eins og fram hefur komið, m.a. í greinargerð með fyrirliggjandi þingsályktunartillögu, má áætla að það kosti hverja fjölskyldu eða einstakling um 1 millj. kr. að ættleiða barn frá útlöndum. Fyrir liggur að önnur Norðurlönd hafa til lengri eða skemmri tíma greitt styrki vegna slíkra ættleiðinga og hefur nýlega verið farið yfir það með hvaða hætti þær greiðslur eru. Samkvæmt þeim upplýsingum eru styrkirnir mismunandi á milli landa, allt frá því að vera 144 þús. kr. til þess að nema um 474 þús. kr. vegna einnar ættleiðingar.

Áætlað hefur verið hver kostnaður ríkissjóðs gæti orðið á ársgrundvelli miðað við að árlega yrðu greiddir styrkir vegna ættleiðingar 20 barna frá útlöndum en leiða má líkum að því að ættleiðingum fjölgaði ef væntanlegir kjörforeldrar ættu kost á styrkjum. Það liggur fyrir ef við miðum við hæsta og lægsta styrk á öðrum Norðurlöndum að þá gæti kostnaður ríkissjóðs numið allt frá 2 til tæplega 10 millj. kr. árlega.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, hæstv. forseti, heldur lýsa því yfir að ég tel það mikið réttlætismál að við fylgjum öðrum Norðurlöndum í þessu efni og ríkissjóður greiði árlega ættleiðingarstyrk eins og ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að gert verði. Ég hef þegar undirbúið skipun fimm manna starfshóps er útfæri í lögum eða reglugerð reglur um styrkina. Starfshópurinn skal fyrir 1. maí nk. leggja fyrir mig tillögu um með hvaða hætti slíkar reglur verði útfærðar, hver verði skilyrði greiðslna og hvar framkvæmd verkefnisins verði best fyrirkomið. Eitt af því sem til skoðunar gæti komið í því sambandi er hvort rétt sé að sams konar reglur gildi um stjórnsýsluna og gilda nú um fæðingarstyrki samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Er miðað við að greiðslur hefjist frá 1. janúar 2007.

Ég mun leggja áherslu á að starfshópurinn líti við útfærslu á framkvæmd m.a. til niðurstöðu fjölskyldunefndar forsætisráðuneytisins sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar.

Ég vil ljúka máli mínu með því að ítreka að mér finnst þetta réttlætismál sem varðar jöfnun á rétti til fjölskyldulífs. Hér á meðal okkar á hv. Alþingi og um allt land eru foreldrar og börn sem hafa notið mikillar gleði í kjölfar þeirrar stóru ákvörðunar sem liggur að baki því að leggja land undir fót um langan veg til að ættleiða börn. Við megum ekki gleyma því að við erum jafnframt að færa þessum börnum mjög gott líf til frambúðar. Það finnst mér skipta máli í umræðu um þessi mál þar sem við Íslendingar erum fulltrúar í samfélagi þjóða. Við höfum sýnt það og við viljum sýna það með margvíslegum hætti.