132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til kjörforeldra ættleiddra barna.

522. mál
[13:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Hlynur Hallsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og tek undir með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að það væri auðvitað óskandi að fleiri þingmannamál hefðu þau áhrif að ríkisstjórnin tæki góðar ákvarðanir, sérstaklega á sviði félagsmála sem ekki veitir af að taka aðeins til í. Öldrunarmálin eru þar t.d. eitt af mjög brýnum málum.

Því miður er það svo að tillögur stjórnarandstöðuþingmanna ná ekki alltaf eyrum stjórnarflokkanna eða hæstvirtra ráðherra en þetta mál er sem betur fer jákvæð undantekning. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir það hversu mikið réttlætis- og jafnréttismál það er fyrir foreldra ættleiddra barna að njóta einhverra styrkja vegna þess að á sama tíma er verið að spara upphæðir í heilbrigðiskerfinu. Það kostar heilbrigðiskerfið heilmikið að koma með nýjan einstakling í heiminn. Það má til sanns vegar færa að þær upphæðir sparist hér, en auðvitað snýst þetta ekki um tölur, þetta snýst miklu meira um tilfinningar og mannlega hluti og þess vegna er ánægjulegt að þetta mál skuli vera komið í höfn. Ég fagna því og fagna því sérstaklega að tillögur eigi að vera komnar fyrir 1. maí og við getum þá séð fram á bjartari tíma fyrir foreldra ættleiddra barna hér á landi.