132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til kjörforeldra ættleiddra barna.

522. mál
[13:41]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem verið hefur um þetta mál og hef í rauninni ekki miklu við svar mitt að bæta. Það var ljóst að höggva þurfti á þann hnút hvar þetta mál ætti að vistast í stjórnkerfinu. Það var gert með góðu samkomulagi ráðherra að vista það undir félagsmálaráðuneytinu og þegar sú ákvörðun var tekin var málið borið fram í ríkisstjórn.

Það er sem betur fer ekkert einsdæmi að ríkisstjórnin taki góðar ákvarðanir og þetta er ein af þeim. Sannleikurinn er sá að það er alltaf verið að taka ákvarðanir á vettvangi ríkisstjórnarinnar sem miða að betra velferðarkerfi í landinu en það er það sem við viljum hafa. Ég veit að í þeim tveimur ráðuneytum sem ég hef verið í, þó að ég hafi ekki verið í öðru þeirra nema einn dag, er stöðugt verið að vinna að tillögum til að bæta það velferðarkerfi sem við búum við og það er vel.