132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til sjávarútvegs.

414. mál
[13:47]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ríkisstyrkir í sjávarútvegi eru víða mjög mikið vandamál og við Íslendingar höfum fengið að kenna á því í samkeppni við margar þjóðir sem styrkja sjávarútveg sinn með beinum hætti í ýmsu formi. Við þekkjum þetta bæði frá nágrannalöndum okkar og einnig víða annars staðar frá. Þetta veldur okkur vanda á samkeppnismörkuðum okkar. Við vitum líka að ríkisstyrkir af þessu taginu draga almennt talað úr hagkvæmni og við þekkjum fjölmörg dæmi um það, m.a. hafa Færeyingar vakið athygli mína á þessu að t.d. hafa ríkisstyrkir til sjávarútvegs í nágrannalöndum þeirrar eyþjóðar valdið óeðlilegri sókn í ýmsar sjávarauðlindir sem væri ekki hægt að stunda nema vegna þess að þau fyrirtæki sem hafa notið ríkisstyrks fengu þá meðgjöf frá hinu opinbera.

Það er ekki þannig á Íslandi, íslenskur sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur. Þvert á móti er sjávarútvegurinn burðarásinn í efnahagslífi okkar og hefur dregið vagninn í þeirri efnahagslegu sókn sem hefur átt sér stað alla síðustu öld og það sem af er þessari öld. Eitt af stóru verkefnunum okkar er að standa vörð um fiskveiðiauðlindina og það gerum við með ýmsum hætti. Við greiðum tiltekinn kostnað eins og við sjáum í fjárlögum ár hvert og mér hefur fundist og orðið var við að mikill stuðningur hefur verið við það hér á Alþingi að auka fremur þessar tilfærslur. Menn hafa kallað eftir frekari fjárframlögum til ýmissa ríkisstofnana sem má segja að séu hluti af innviðum sjávarútvegsins, þar á ég m.a. við stofnun á borð við Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og eflaust mætti áfram telja.

Ég tel að hér sé klárlega um að ræða eðlilega innviði samfélagsins og ekki eigi að líta á að þetta séu ríkisstyrkir. Við tökum þátt í að afla upplýsinga fyrir OECD sem reynir að halda utan um þessa hluti þar sem verið er að reyna að átta sig á hver eru framlög til einstakra atvinnugreina og hver kostnaðarþátttaka einstakra atvinnugreina er í rekstri innviða sinna. Samkvæmt þeim reglum sem þar gilda er t.d. tíundað hver upphæðin er vegna sjómannaafsláttarins. Ég hins vegar hafna því algjörlega að um sé að ræða ríkisstyrk til sjávarútvegsins, hér er bara eingöngu um að ræða eðlilegan hluta af skattkerfi okkar. Við greiðum dagpeninga til þeirra sem eru fjarri heimilum sínum og við greiðum sjómannaafslátt til sjómanna.

Sama er ég að segja varðandi ríkisstofnanir sem eru hluti af innviðum sjávarútvegsins. Það er mjög eðlilegt að hið opinbera taki verulegan þátt í þeim rekstri. Við innheimtum að vísu sértekjur líka í gegnum þennan rekstur sem greinin borgar sjálf. Síðan má ekki gleyma því að við vorum með veiðieftirlitsgjald og vorum með þróunarsjóð og ákváðum síðan, eins og menn vita, að taka upp svokallað veiðigjald sem rennur í ríkissjóð sem er sérstakur skattur sem eingöngu er innheimtur af sjávarútveginum en ekki öðrum atvinnugreinum í landinu.

Til viðbótar get ég líka nefnt að við höfum verið á undanförum árum að reyna að auka þróunar- og rannsóknarstarfsemi í landinu, t.d. með styrkjum til hins svokallaða AVS-sjóðs. Ég er alveg sannfærður um að það er mjög skynsamleg ráðstöfun og hef ekki orðið var við annað en að um það sé almenn samstaða í landinu.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á það í máli sínu að veiðirétturinn væri ígildi ríkisstyrks. Ég er ekki sammála því, ég lít ekki þannig á að veiðirétturinn sé ígildi ríkisstyrks. Þá gætum við alveg eins sagt sem svo að fullt frelsi til veiða væri líka ómetanlegt og mætti kannski reyna að reikna það líka til ríkisstyrks ef menn vilja á annað borð fara í slíkar æfingar. En ef menn vilja halda sig við þessa skilgreiningu, sem ég er einfaldlega ósammála, þá hljóta menn að líta ævinlega á í fyrsta lagi að veiðiréttur sé þá ríkisstyrkur og beri þá að líta á það sömu sugum hvort sem um er að ræða magnbundinn veiðirétt eða dagabundinn veiðirétt, svo við vísum til annars einstaklingsbundins veiðiréttar. Ég lít ekki þannig á að þetta sé ríkisstyrkur nema síður sé. Þetta er einfaldlega aðferð við að stjórna aðgangi að auðlind okkar og ekki er hægt að líta á það sem ríkisstyrk.

Við mundum líka líta þannig á að ef sú staða væri uppi í rauninni að við gætum leyft ótakmarkaða sókn í einhverja eða alla veiðistofna yrði að meta það líka til verðmætis því að frelsið til veiðanna væri þá jafnframt, séð út frá þeim sjónarhóli, verðmæti sem mætti reikna út upp á krónur og aura, en ég hafna sem sagt þeirri nálgun.