132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til sjávarútvegs.

414. mál
[13:52]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Oft er talað um að íslenskur sjávarútvegur njóti ekki ríkisstyrkja. Já, er það? Ég held nú að íslenskur sjávarútvegur eða mörg íslensk sjávarútvegsfyrirtæki njóti mjög mikilla styrkja, kannski ekki beint úr ríkissjóði. Þessir styrkir eru hirtir af fátækum leiguliðum sem róa víða um land, mönnum sem búa við fátækt en þurfa að greiða stóran part af tekjum sínum til þeirra sem eiga veiðiheimildirnar. Þessir menn þurfa að hætta lífi, limum, eignum sínum, bátum, veiðarfærum og öðru, oft til að standa skil á skuldbindingum, til að mynda við bankastofnanir, ráða til sín menn, en í landi sitja hinir sem eiga kvótana og hirða af þeim aurinn um leið og þeir koma í land.

Þetta eru ríkisstyrkirnir í íslenskum sjávarútvegi og þetta er stóri smánarbletturinn á íslenskum sjávarútvegi. Þetta er ekkert annað en glæpur.