132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til sjávarútvegs.

414. mál
[13:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það er náttúrlega athyglisvert að hlusta á hæstv. sjávarútvegsráðherra hafna algjörlega alþjóðlegum aðferðum til að bera saman styrki til sjávarútvegs og maður undrar sig á því hvernig hann ætli þá að bera saman styrki, sérstaklega í ljósi þess að Íslendingar eru alltaf að kvarta undan því að aðrar þjóðir styrki sjávarútveg.

Það sem er áhugavert við niðurstöðu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og þessarar skýrslu er að þetta eru gífurlega háar upphæðir og mikill kostnaður sem stjórnvöld hafa af þessu, 57 milljarðar kr. Þetta er eitthvað sem menn verða að ræða. Þessi ókeypis úthlutun er metin á 52 milljarða bara árið 2002, en hún gagnast greininni afar lítið samkvæmt þessu. Segja má að margir þeir sem starfa í greininni, eins og kom fram m.a. hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni, beri kostnað af þessu. Þetta er einfaldlega orðið greininni fjötur um fót og er farið að koma í veg fyrir alla nýliðun í atvinnugreininni og er ráðherra hæstv. til skammar að ætla að ýta því út af borðinu og segja að þetta sé ekki vert að ræða.

Þetta er vandamálið, sérstaklega fyrir vestan. Ungir menn komast ekki inn í greinina vegna þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks veitti greininni ekki svo mikinn stuðning heldur þeim aðilum sem voru á ákveðnum tíma starfandi í greininni þannig að engir aðrir komast inn í hana. Þetta er áhugavert. Menn verða að komast til botns í þessu vegna þess að ekki er hægt að búa við þetta lengur.

Þegar aðrar þjóðir eru að meta styrk sinn þá er allt talið með, t.d. kostnaður við að stýra veiðum. Í því kerfi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra stendur vörð um hvað fastast er kostnaðurinn alltaf að hækka og hækka við að fylgja eftir þessu ónýta kerfi. (Forseti hringir.) Ég held að það sé komið hátt í milljarð (Forseti hringir.) og það kallast styrkur erlendis við að framfylgja fiskveiðistjórn og atvinnugreininni, frú forseti.

(Forseti (DrH): Forseti áminnir hv. þingmann að virða ræðutíma.)