132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Áhrif veiða á erfðagerð þorsksins.

184. mál
[13:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Lengi hafa verið kenningar um að mikið fiskveiðiálag, sem beinist sérstaklega að fiskum af ákveðinni stærð, geti haft óheillavænleg áhrif á arfgerð þeirra fiska sem verið er að nytja. Þessi kenning byggir á þeirri staðreynd að þegar t.d. Íslendingar veiða þorsk hefur í áranna rás veiðinni fyrst og fremst verið beint að þeim þorski sem er dýrastur og það er sá þorskur sem er stærstur. Það er hins vegar líka sá þorskur sem býr yfir genum sem stýra síðbúnum kynþroska og háum aldri og nokkuð hröðum vexti. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að fyrir utan að þessi fiskur er langverðmætastur í aflanum er hann einnig gríðarlega mikilvægur fyrir nýliðun stofnsins. Stórar hrygnur og gamlar framleiða stærri hrogn og lífvænleiki þeirra er meiri. Rannsóknir hafa sýnt það á öðrum tegundum að stórar hrygnur fæða af sér afsprengi sem eru 3,5 sinnum líklegri til að lifa af og vaxa þrisvar sinnum meira en smærri. Þetta liggur fyrir í vísindalegum textum.

Nú er margt sem bendir til þess að hugsanlega hafi veiðar áhrif á erfðasamsetningu þorsksins. Veiðarnar hafa á síðustu áratugum orðið miklu þyngri en áður og fiskveiðiálagið, sérstaklega á stærri hluta þorsksins, hefur orðið meira en ella. Í þessu felst í reynd að það á sér stað ákveðið val. Flotinn er í reynd að fjarlægja með veiðum sínum hlutfallslega meira magn af fiski sem býr yfir genum sem leiða til síðbúins kynþroska og stórra fiska en eftir er skilinn fiskur sem hefur samkvæmt genasamsetningu eðli til þess að verða smærri og líka til að fæða af sér smærri hrogn og þar með ungviði sem er ekki eins líklegt til þess að komist á legg. Ef rétt er, ef þessi þróun er í gangi eru áhrifin á afrakstur stofnanna líkleg til þess að verða með tvenns konar hætti neikvæð.

Í fyrsta lagi, þegar fram í sækir munum við veiða fisk sem er smærri og verður kynþroska fyrr og lifir skemur. Jafnframt erum við að fjarlægja þann stóra fisk sem hefur lengt hrygningartímabilið og þar af leiðandi gert það líklegra að hrygningin nái árangri. Í þriðja lagi erum við að framleiða fisk sem býr til lélegri undanælingja.

Því hef ég spurt hæstv. ráðherra hvort hann telji að vísbendingar séu (Forseti hringir.) um að veiðarnar á þorski hafi hugsanlega breytt erfðum stofnanna þannig að fiskur verði kynþroska fyrr en áður (Forseti hringir.) og vaxi hægar. Ef svo er, hvort hann telji að það hafi áhrif á afrakstur stofnanna til frambúðar.