132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Áhrif veiða á erfðagerð þorsksins.

184. mál
[14:03]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. þm. Reykv. n. fyrir ákaflega athyglisverðar og mikilvægar spurningar og enn fremur fyrir ræðuna þar sem hann fylgdi spurningum sínum úr hlaði. Ég held að ýmsar af þeim vangaveltum sem hv. þingmaður var hér með eigi mikið erindi inn í umræðuna, sem er svo mikilvæg og menn hafa verið að taka upp með ýmsum hætti nú nýlega m.a. í viðtali við Jónas Bjarnason í Morgunblaðinu fyrir skemmstu.

Það er hins vegar mjög erfitt að greina á milli áhrifa umhverfis og erfða á vöxt og kynþroska fiska. Á síðari árum benda rannsóknir til að erfðabreytingar í þorski hafi orðið vegna veiða í stofnum sem hafa verið ofnýttir og hrunið, eins og við austurströnd Kanada. Veiðiálag hefur mikið að segja um hvort og þá hversu hratt slíkar breytingar verða. Það er ljóst að við Ísland hefur veiðiálag verið mun minna en til að mynda við Kanada við Norðursjó og því minni líkur á að slíkar breytingar hafi átt sér stað. Samt sem áður hafa þess sést merki í stofnmælingu botnfiska undanfarin ár að þorskur verði kynþroska nokkru yngri en áður var en vöxtur virðist ekki hafa minnkað að sama skapi. Auk þess hafa erfðafræðirannsóknir bent til þess að íslenski þorskstofninn sé ekki eins einsleitur og áður var talið sem gerir erfiðara að draga alveg einhlítar ályktanir.

Hafrannsóknastofnun hefur hafið átaksverkefni þar sem ætlunin er að skoða söguleg gögn til að meta áhrif veiða á íslenska þorskstofninn. Auk þess er stofnunin að skoða áhrif loðnuframboðs á vöxt þorsks. Jafnframt er unnið að doktorsverkefni við Háskóla Íslands þar sem rannsakaðar eru breytingar í erfðaefni þorsks frá því um 1950. Niðurstöðu þessara verkefna er að vænta á næstu þremur árum og þá liggja væntanlega fyrir ítarlegri svör við ofangreindri spurningu.

Hv. þingmaður spurði enn fremur:

„Ef svo er, hvaða áhrif gæti það haft á afrakstur stofnanna til frambúðar?“

Ef veiðarnar hafa þau þróunarfræðilegu eða erfðafræðilegu áhrif að þorskur vaxi hægar og verði kynþroska fyrr gæti það leitt til minnkaðrar afrakstursgetu stofnsins. Hægari vöxtur leiðir til minni meðalþyngdar við gefinn aldur, sem þýðir að fleiri þorskar fari yfir hvert tonn vegna þess að það verður minnkandi afrakstur á hvern nýliða. Lækkun á kynþroskaaldri leiðir til þess að fleiri þorskar hrygna en áður miðað við sama veiðimynstur en líklega verður afrakstur þeirrar hrygningar minni en hjá stórvaxnari stofni sökum þess að rannsóknir Hafrannsóknastofnunar hafa sýnt að stærri hrygnur hrygna ekki einungis fleiri eggjum heldur einnig lífvænlegri afkvæmum. Þetta er það sem hv. þingmaður lagði einmitt áherslu á í ræðu sinni hér áðan og er algjört lykilatriði

Þannig má gera ráð fyrir að framangreind áhrif gætu einnig leitt til minni nýliðunar og á heildina litið gætu slíkar breytingar því leitt til minni afrakstursgetu þorskstofnsins. Ég undirstrika það að þetta mál og þetta samhengi skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli. Á undanförnum missirum og fáeinum árum hefur verið reynt að bregðast við þessu. Við sem höfum setið í sjávarútvegsnefnd Alþingis og fengið reglulega fyrirlestra um ýmis mál tengd þessu frá ýmsum aðilum, ekki síst frá Hafrannsóknastofnun, höfum séð það sem er algerlega óyggjandi: Hvaða skoðun sem menn hafa annars á því hvort eðlilegt hefði verið að auka eða minnka veiðiálagið frá því sem verið hefur undanfarin ár þá er alveg ljóst að við höfum gengið allt of nærri stærsta þorskinum. Það blasir við þegar við skoðum þetta í tiltölulega stuttu eða löngu sögulega samhengi, við höfum gengið of nærri stærsta þorskinum.

Menn hafa gripið til ýmissa ráða, bæði til hrygningarstopps eins og menn þekkja og ekki síst hefur reglunum um hámarksmöskvastærð verið breytt og hún minnkuð. Það hefur auðvitað dregið úr sókninni í stærsta þorskinn. Ég bendi á að formaður Sjómannasambands Íslands fjallar um þessi mál, reyndar af allt öðru tilefni og í öðru samhengi, í nýjustu Fiskifréttum og vekur einmitt athygli á því að sóknin í þennan stærsta þorsk hafi minnkað á undanförnum vertíðum, getum við sagt, einni eða tveimur vertíðum, vegna þessara ákvarðana sem þegar hafa verið teknar. Ég tel þetta skynsamlegt. Ég mun halda því áfram að beita þessum reglum um hámarksmöskvastærðina, m.a. sem lið í því að bregðast við þessu máli sem ég tel að skipti mjög miklu.

Það skiptir líka miklu fyrir okkur að við leggjum aukna áherslu á þessa erfðafræðilegu þætti. Við höfum verið að byggja upp í landinu mikla erfðafræðilega þekkingu, bæði innan Hafrannsóknastofnunar og síðan hjá ýmsum sjálfstæðum fyrirtækjum eins og t.d. Íslenskri erfðagreiningu og Procaria, svo ég nefni bara tvö dæmi um fyrirtæki sem hafa aflað sér mikillar þekkingar á þessu sviði. Það væri ekki óeðlilegt að við reyndum að kalla eftir viðhorfum þeirra til þessara mála og ég t.d. vænti þess að þær hugmyndir sem ég ætla að hrinda í framkvæmd á næstu vikum, um auknar rannsóknir utan Hafrannsóknastofnunar, geti m.a. beinst að þessu.