132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Útræðisréttur strandjarða.

491. mál
[14:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég hreyfi hér við máli sem skiptir landsbyggðina og bændur landsins mjög miklu og ég hef áður spurt hæstv. landbúnaðarráðherra þessara spurninga. Hann brást hinn versti við og vildi vísa málinu frá sér, vísaði m.a. á hæstv. sjávarútvegsráðherra og jafnvel fjármálaráðherra. Svo heit kartafla var þetta að hann vildi alls ekki koma nálægt henni.

Þetta er spurning sem varðar hvort virða ætti útræðisrétt strandjarða. Ef allt væri með felldu þá væri þetta spurning sem sjálfstæðismönnum væri annt um að svara, þ.e. hvort virða ætti eignarréttinn. Það er verið að böðlast við að færa eignarrétt á hinum og þessum hlutum, m.a. á vatni og meira að segja í föstu og fljótandi formi, en ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hyggst hann virða útræðisrétt, beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný? Ef þessari spurningu yrði svarað játandi yrði það örugglega lyftistöng fyrir margar byggðir landsins og ég tala ekki um í okkar ágæta kjördæmi, Norðvesturkjördæminu og menn mundu taka því fagnandi ef svarið yrði já. Ég býst ekkert endilega við að fá skýrt svar. Það verður örugglega út og suður eins og hæstv. ráðherra er oft tamt að svara. Það koma sjaldnast skýr svör þegar verið er að ræða um erfðafræðina eða styrki, samanber umræðu sem fram fór í dag. En það má reyna hvaða svör við fáum.

Það mátti lesa athyglisverða grein um málið á síðum eins dagblaðanna í vikunni, á sunnudaginn eftir Ómar Antonsson, þar sem hann líkti þessu ástandi sem nú ríkir við algera eignaupptöku, að með kvótalögunum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um hafi eignarrétturinn verið tekinn af bændum. Ég vil fá skýr svör um hvort menn ætla að láta hér við sitja eða hvort virða eigi eignarrétt bænda í þessum málum. Mér finnst að menn ættu að sjá sóma sinn í því.

Ég er á því að þetta sé ekki mál sem mundi raska kvótakerfinu svo mjög, þessu kerfi sem kvótaflokkunum er svo annt um, en þó virðast þeir vera hræddir við einhverjar glufur ef menn fái að sækja þorsk eða hrognkelsi í fjöruborðið hjá sér þá geti það mögulega orðið sú þúfa sem velti úr sessi þessu óréttláta kerfi. Ég segi bara að farið hefur fé betra, ef sú verður raunin.