132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Útræðisréttur strandjarða.

491. mál
[14:26]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Á leið minni til þings í morgun ók ég í gegnum jörðina þar sem ég ólst upp að stórum hluta, þar sem afi minn og amma bjuggu en frændfólk mitt byggir í dag. Þetta er Innri-Hólmur í Innri-Akraneshreppi við norðanverðan Hvalfjörð, jörðin þar sem Hvalfjarðargöngin koma upp. Í fjörusteinunum voru tvær trillur að veiða, stórar trillur, ein stór netatrilla og síðan ein línutrilla að mér sýndist. Þá varð mér hugsað til þess hvers vegna ættingjar mínir ættu ekki neinn rétt til að nýta þessa náttúruauðlind. Það hefur flætt fiskur inn í Hvalfjörð á undanförnum árum. Hvar er til að mynda frumbyggjarétturinn í þessu öllu saman? Af hverju má fólk sem á sjávarjarðir, jarðir sem liggja að sjó og þá jafnframt oft og tíðum að fiskimiðum, ekki fá rétt til að nýta þessar náttúruauðlindir?

Auðvitað var þetta ekkert annað en eignaupptaka og þjófnaður sem átti sér stað þegar kvótalögin voru samþykkt á sínum tíma. Þessi eignaupptaka og þjófnaður hefur verið færður í verk kerfisbundið allar götur síðan þá en að sjálfsögðu er kominn tími til að hnekkja þessu og virða hin fornu réttindi. Að sjálfsögðu. Og það verður gert um leið og við verðum búin að sparka núverandi ríkisstjórn frá völdum.