132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Útræðisréttur strandjarða.

491. mál
[14:31]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að útræðisrétturinn yrði bundinn við traktorana á jörðunum. En þessi umræða hefur að mínu mati varpað ljósi á það, þegar menn ræða málið án upphrópana og sleggjudóma, að jafnvel þeir sem tala um þennan útræðisrétt séu ekki alveg vissir í sinni sök þegar kemur að því að reyna að ræða þetta út í hörgul.

Fyrst töluðu menn þannig að þetta væri tiltölulega einfalt mál, útræðisrétt án hliðsjónar af því hvort við værum að tala um útræðisrétt innan netlaga eða hvort við værum að tala almennt um fiskveiðirétt út frá jörðum. Þannig gæti t.d. maður, sem ætti fyrirtækið Lífsval, keypt jörð sem lægi vel við sjó. Hann fengi þar með rétt til almennra fiskveiða í landinu. Auðvitað kom það í hug hv. þingmanna sem hér voru að tala að slíkt mundi ekki geta gengið heldur yrði að setja inn einhverjar aðrar reglur sem gerðu það að verkum að útræðisrétturinn yrði þegar í stað takmarkaður. Það sem hv. þingmenn voru að tala um var mjög takmarkaður fiskveiðiréttur, fiskveiðiréttur eins og hv. þm. Jón Bjarnason var að tala um, sem væri bundinn við búsetuna, bundinn við tiltekna sókn eða, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, bundinn við veiðarfæri eða aðra hluti.

Um leið og við fórum að ræða þessi mál af alvöru, sem við þurfum auðvitað að gera. Þegar til umfjöllunar eru stórmál sem lúta bæði að eignarréttinum og atvinnuréttinum og stöðu einstakra jarða þá verðum við að gera þær kröfur til hv. þingmanna að þeir leggi á sig að hugsa þessi mál til enda, þótt ég viti að stundum er það erfitt fyrir menn sem gera fyrst og fremst út á það í stjórnmálum, að tala með gaspurslegum hætti og vilja ekki koma að kjarna málsins.

En það sem blasir við og stendur upp úr (SigurjÞ: Þú vilt engu breyta.) er að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Sigurjón Þórðarson, Jón Bjarnason og Össur Skarphéðinsson hafa allir litið þannig á að (Forseti hringir.) fiskveiðiréttur sé eignarréttur. Það eru hin stóru pólitísku tíðindi í þessari umræðu. Ég tók hins vegar eftir því að hv. þm. Jóhann Ársælsson skautaði fram hjá því, sem von var.