132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Hrefnuveiðar.

512. mál
[14:43]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það var að heyra á hæstv. ráðherra að hann yrði seint leiður á að ræða þetta mál í þingsölum. En mér finnst kominn tími til aðgerða. Ég er á því að hæstv. ráðherra verði að gera sér grein fyrir því að það er ekki nóg að tala bara um hlutina. Hann verður að láta hendur standa fram úr ermum og gera eitthvað.

Við höfum séð það ítrekað að hann hefur alltaf rætt um að breyta hinu og þessu. Fyrir einhverjar kosningar sagðist hann ekki ætla að styðja ríkisstjórn sem hefði óbreytt kvótakerfi. Síðan sagðist hann ætla að standa vörð um þorskaflahámarkið. Allt þetta hefur verið svikið, og eins með því að afleggja sóknardagakerfið og fleira. Nú hefur hann margsinnis rætt um að taka upp hvalveiðar. Hvað ætlar maðurinn að gera? Ætlar hann bara að standa hér og blaðra?