132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Hrefnuveiðar.

512. mál
[14:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Málið er í okkar höndum, sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra og benti á að einmitt á þessu ári kynni að vera runnin upp stundin þar sem við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af neinum skuldbindingum, að núna gætum við hafið atvinnuveiðar á hrefnu eða á hvölum á nýjan leik. Þá eigum við að sjálfsögðu að gera það. Við eigum að sjálfsögðu að gera það. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Það er sannað mál að nóg er til af hrefnu. Í landinu er fyrir hendi veiðiþekking og annað, búnaður, til að stunda þessar veiðar. Ég veit ekki betur en að einnig sé fyrir hendi markaður, að hrefnukjöti hafi verið tekið vel af landsmönnum og vonandi er líka hægt að flytja afurðirnar út. Það bíður mjög stór markaður í Japan.

Ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða og ég tel heldur ekki neitt að óttast. Það er ekkert að óttast. Sjáum hvað Norðmenn, frændur okkar, hafa verið að gera. Þeir byrjuðu á vísindaveiðum en hófu síðan atvinnuveiðar. Núna veiða þeir 1000 dýr á ári á meðan við tökum 30–40, logandi hræddir um að einhverjir fari að mótmæla því. Það er ekkert að óttast. Norðmenn hafa ekki lent í vandræðum með sínar veiðar.

Það er mjög gaman að fylgjast með þeim dugnaði og því þori sem stjórnvöld Norðmanna, norska ríkisstjórnin á hverjum tíma, sýna við að tefla þessa skák af miklum klókindum. Þau hafa gert það mjög vel. Norðmenn sjálfir, sem stunda þessar veiðar, skammast sín ekki fyrir að stunda þær. Það er t.d. hægt að fara inn á netið núna, inn á vefsíðu Aftenposten í Noregi, stærsta dagblaðs Noregs. Þar eru auglýsingar sem blikka. Maður klikkar á þær og fær uppskriftir af því hvernig á að matreiða hrefnukjöt. Menn geta meira að segja horft á vídeóupptökur á netinu, í gegnum Aftenposten, af því hvernig Norðmenn stunda þessar veiðar, hvernig þeir verka hvalinn og annað þess háttar. Þetta þykir hið besta mál og enginn mótmælir.

Við hvað er íslenska ríkisstjórnin eiginlega svona hrædd? Við hvað er hún hrædd?