132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Ákvörðun loðnukvóta.

525. mál
[15:00]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Auðvitað voru það vonbrigði hvað loðnustofninn mældist lítill í ár en það er rétt sem kemur fram hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að í tillögum Hafró eru 400 þús. tonn skilin eftir til hrygningar og það er líka rétt að það eru 530 þús. tonn sem hafa staðið eftir sl. fimm ár.

Hvað varðar þorskinn þá er alveg ljóst að göngumunstur sl. ára hefur verið með öðrum hætti, en vonandi fer að draga til tíðinda og loðnan að skila sér aftur á sömu slóðir. Þetta hefur eðlilega mikil áhrif á þorskinn.

Hvað varðar flottrollið þá er mjög gott að taka umræðu um það, eins og við höfum oft gert hér í þessum sal, og ég tel að það eigi ekki að leyfa flottrollsveiðarnar aftur fyrr en rannsóknir liggi fyrir. Þær eru í gangi og það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir því að það eru margir sem halda því fram að þær hafi mikil áhrif á þorskinn.

Í áranna rás hafa loðnuveiðar dottið alfarið niður í eitt ár — á tíu til ellefu ára fresti — en stofninn hefur alltaf komið upp aftur.