132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Malarnám í Ingólfsfjalli.

532. mál
[15:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að bera upp spurningu sem mér finnst að hæstv. umhverfisráðherra ætti að gefa okkur öllum svar við og þó fyrr hefði verið. Þetta er fyrirspurn um malarnám í Ingólfsfjalli. Þetta er í raun og veru mjög einföld spurning sem ég held að flestir, bæði Íslendingar og líka erlendir ferðamenn, sem eiga leið um þjóðveginn fram hjá Ingólfsfjalli og hafa átt leið þar um um margra missira skeið, hljóti að spyrja sig þegar þeir sjá hvernig búið er að fara með fjallið með stórvirkum vinnuvélum.

Spurningin er þessi:

Hafa stjórnvöld einhver úrræði til að stöðva malarnám í Ingólfsfjalli eða sjá til þess að það fari þannig fram að ásýnd fjallsins verði ekki eyðilögð frekar?

Er ekki hægt að stöðva þessa vitleysu? Er ekki hægt að stöðva þennan hernað gegn landinu? Ég er hérna með ágæta samantekt sem Guðmundur Kristinsson, ágætur heiðursmaður, rithöfundur á Selfossi, tók saman og sendi okkur þingmönnum, að ég held öllum þingmönnum Suðurkjördæmis, með ljósmyndum og greinum um þetta. Þar kemur fram með mjög skýrum hætti hvernig fjallið hefur hreinlega verið heflað niður svo allt of lengi, hvernig fjallið lítur út í dag. Hér eru litljósmyndir sem sýna hvernig það lítur út í dag, sárið á fjallinu blasir við langa vegu.

Það er eins og stjórnvöld hafi nánast staðið ráðþrota og horft á þetta gerast. Þetta er svo sem ekki eini staðurinn því að ég veit líka um annað malarnám sem er mjög slæmt en það er malarnámið í Esjubergi við Kollafjörð sem stendur þar rétt við þjóðveginn og hefur margoft valdið miklu tjóni á bílum og er enn þá opið. Það er að sjálfsögðu efni í aðra fyrirspurn hvort ekki sé kominn tími til að því malarnámi verði hreinlega lokað áður en meiri slysahætta hlýst af því. Það er ekki að sjá að sú náma sé neitt notuð, ég ek þar fram hjá tvisvar á hverjum einasta degi.

Áfram um malarnámið í Ingólfsfjalli. Eins og ég sagði áðan: Hvernig í ósköpunum stendur á því að það er ekki hægt að stoppa þennan hroðalega gjörning?