132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Malarnám í Ingólfsfjalli.

532. mál
[15:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Afskaplega fannst mér sorglegt að heyra einn þingmann Suðurkjördæmis, hv. þm. Kjartan Ólafsson, gera svo lítið úr því þegar ég var að tala um að upplýsingagjöf til almennings hefði mátt vera betri vegna jarðskjálftans sem varð í Krýsuvík. Þetta er þingmaður Suðurkjördæmis, kjördæmis sem varð mjög illa úti í jarðskjálftum árið 2000. Þeir jarðskjálftar sitja enn í mörgu fólki sem býr á þessu svæði, fólk varð fyrir mjög alvarlegum áföllum og mér finnst það hreinlega sorglegt þegar einn af þingmönnum Suðurkjördæmis kemur svo hér og hæðir mig fyrir að ég skuli hafa reynt að gæta þess að það yrði virt að fólk, sem hefur orðið fyrir slíkum náttúruhamförum eins og jarðskjálftum, fengi upplýsingar um hvað væri á seyði. Nóg um það, hv. þingmaður getur átt þetta við sjálfan sig.

Hann kom hins vegar hér upp til að gagnrýna að ég væri að spyrja um Ingólfsfjall. Já, já, hann má gagnrýna það, en ég vil minna á að hann er fyrrverandi steypustöðvarstjóri og á ítök í þessari steypustöð enn, að ég best veit, og að sjálfsögðu er hann að reyna að verja hagsmuni steypustöðvarinnar eða steypubransans í nágrenni Selfoss. Hann um það.

Svör hæstv. umhverfisráðherra voru afskaplega dapurleg og sýna í raun og veru hversu kerfið er svifaseint. Ég held að þegar afkomendur okkar líta á Ingólfsfjall og spyrja sig þeirrar spurningar hvernig þetta hafi getað gerst að fólk sem var uppi á fyrri hluta 21. aldar skuli hafa látið þetta viðgangast, þá muni þeir ekkert óska eftir svona svari, einhverri svona moðsuðu. Þá mun verða spurt: Hvers vegna var þetta ekki stöðvað? Hvers vegna í ósköpunum létu þau það viðgangast (Forseti hringir.) að eyðileggja landið með þessum hætti?