132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Malarnám í Ingólfsfjalli.

532. mál
[15:19]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Það sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson gleymdi í ræðu sinni hér rétt áðan var að skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélagsins og framkvæmdarleyfið er líka í höndum sveitarfélagsins. Hins vegar stendur nú yfir mat á umhverfisáhrifum í kjölfar úrskurðar umhverfisráðuneytisins og er það komið á lokastig. Það er miður að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson skuli ekki vera hér í salnum til þess að hlusta á þessi svör.

Ég vil líka geta þess að núna er til umfjöllunar í umhverfisnefndinni frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999 og þar er lagt til að um gamlar námur gildi sömu reglur og um nýjar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er því sannarlega verið að vinna að því á vettvangi umhverfisráðuneytisins að koma böndum á þessi mál þannig að þau verði í sem bestu lagi. Mér þykir því í raun og veru afskaplega undarlegt að þingmaðurinn skuli ekki hafa kynnt sér stöðu þessara mála betur en raun ber vitni.