132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Losunarkvóti á gróðurhúsalofttegundir.

570. mál
[15:24]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Í fyrirspurninni er spurt hvort ráðuneytið reikni út losunarkvóta á gróðurhúsalofttegundir og hver sú niðurstaða sé, liggi hún fyrir. Því er til að svara að ekki hefur verið sett upp slíkt kvótakerfi fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi en ég reikna hins vegar með að fyrirspyrjandi vilji vita eða vilji fá upplýsingar um hver losun gróðurhúsalofttegunda muni verða á Íslandi í nánustu framtíð og hvort væntanleg losun rúmist þá innan þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur tekið á sig samkvæmt Kyoto-bókuninni. Ég hef þess vegna undirbúið svar mitt samkvæmt þeim skilningi á fyrirspurninni.

Umhverfisstofnun annast útstreymisspá fyrir Ísland og nú er verið að leggja lokahönd á nýja útstreymisspá í stað þeirrar sem gerð var árið 2002. Þessi spá verður birt í fjórðu skýrslu Íslands til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem fljótlega verður send skrifstofunni. Nú þegar hefur verið gengið frá þeim hluta útstreymisspár sem byggir á eldsneytisspá en ný eldsneytisspá sem unnin er undir umsjá Orkustofnunar var gerð fyrir skömmu. Ofan á þetta þarf svo að bæta upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðjuverkefnum sem nú er verið að vinna að eða eru líkleg til að hafa áhrif á næstu árum. Við teljum að rétt sé að gefa út fleiri en eina spá með mismunandi forsendum um umfang og tímasetningu stóriðjuverkefna því þau eru mjög mislangt á veg komin. Sum eru í framkvæmd eins og Fjarðarál á Reyðarfirði, önnur hafa starfsleyfi en framkvæmdir eru ekki hafnar og óvíst með tímasetningar í því samhengi svo sem um stækkun álversins í Straumsvík. Enn önnur eru á könnunar- og viðræðustigi. Sum þessara mála hafa verið að skýrast á allra síðustu dögum eins og alþjóð veit en óvissan er engu að síður mjög mikil.

Umhverfisstofnun er nú að vinna að útreikningum samkvæmt nýjustu upplýsingum með það að leiðarljósi að gefa nákvæmar og áreiðanlegar upplýsingar eins og unnt er til skrifstofu loftslagssamningsins. Ég hef ekki enn þá fengið þessar upplýsingar frá Umhverfisstofnun í hendur. Það þarf að vanda til slíkra útreikninga og setja tölurnar í samhengi við ákvæði Kyoto-bókunarinnar en útreikningarnir eru flóknari en kann að virðast við fyrstu sýn. Það er tiltölulega einfalt að reikna út losun koltvíoxíðs frá álverum en það er sú losun sem fellur undir sérstakt heimildarákvæði innan Kyoto-bókunarinnar og tekur til nýrra álvera. Það er hins vegar flóknara að reikna út losun flúorkolefna sem eru gróðurhúsalofttegundir sem myndast við álvinnslu og falla undir almennar losunarheimildir. Þessi losun er yfirleitt mest í upphafi starfstíma álvera, minnkar svo hratt og kemst í jafnvægi en það er hægt að hafa töluverð áhrif á losunina með tækni og starfsaðferðum. Hér á Íslandi hefur náðst ágætur árangur við að lágmarka útstreymi flúorkolefna í álverunum í Straumsvík og á Grundartanga og það skiptir miklu máli að það takist einnig í nýjum verkefnum. Nú er verið að reikna út útstreymi þessara efna út frá nýjum upplýsingum um líklega losun frá nýju álveri Fjarðaráls í Reyðarfirði.

Annað atriði sem taka þarf tillit til er að nýjum framkvæmdum fylgir aukin losun gróðurhúsalofttegunda vegna vinnuvéla og samgangna sem er merkjanleg aukning í litlu samfélagi eins og Íslandi. Það hefur því verið óskað eftir útreikningum sem taka tillit til aukinna framkvæmda sem mundu fylgja nýjum hugsanlegum stóriðjuverkefnum. Ég á von á því að ný útstreymisspá Umhverfisstofnunar, sem tekur tillit til þessara atriða og sýnir mismunandi sviðsmyndir út frá mismunandi forsendum, líti dagsins ljós á allra næstu dögum og ég mun kynna hana þegar hún liggur fyrir og við höfum farið yfir alla útreikninga að baki hennar svo að það sé tryggt að hún sé eins nákvæm og áreiðanleg og völ er á þannig að þingmenn þurfa ekki að bíða lengi eftir því að fá þessar upplýsingar í hendur.