132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Losunarkvóti á gróðurhúsalofttegundir.

570. mál
[15:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa lagt rétta merkingu í fyrirspurn mína. En mér fannst samt svör hæstv. ráðherra segja að þetta snúist um spenning hjá okkur þingmönnum fyrir því að fá þessi svör og þessa útreikninga. Það er kannski ekki málið. Og það að ekki sé búið að reikna þetta út eins og ráðherrann segir þá hef ég mínar heimildir fyrir því að Umhverfisstofnun hafi lokið þessum útreikningum og það væri þá fróðlegt ef hæstv. ráðherra ber það til baka að hún hafi fengið útreikningana frá Umhverfisstofnun. Mér finnst það allsérstakt, vegna þess að það var bæði að skilja á Stefáni Einarssyni, sérfræðingi Umhverfisstofnunar, og Huga Ólafssyni, að þessi gögn væru komin í ráðuneytið. Það væri ágætt að hæstv. ráðherra upplýsti um það.

En þetta leiðir hugann að stefnumótun. Lofa menn bara framkvæmdum út og suður án þess að það sé fyrirséð hvort menn hafi innstæðu til að lofa slíku? Leitt hefur verið getum að því að verði af bæði stækkun í Straumsvík og álveri á Húsavík sé þessi heimild sprungin og við komin fram yfir heimildir okkar til losunar á gróðurhúsalofttegundum. Þetta snýst ekki um einhvern spenning í þingmönnum, þetta hlýtur að snúast um stefnu stjórnvalda. Fara menn bara utan og lofa og skrifa undir samninga í Bandaríkjunum án þess að vita í rauninni hvort þeir hafa einhverja innstæðu fyrir þessum loforðum? Eða er þetta bara einhver skrautsýning, herra forseti?