132. löggjafarþing — 80. fundur,  8. mars 2006.

Boðun þingfundar.

[18:07]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að jafnan þegar ágreiningur kemur upp í einhverjum tilteknum málum og umræða dregst eitthvað þá skal ætíð sett á einhvers konar vakta- eða vertíðarstemmning til þess að ljúka málum, eins og hér sé mikil vá fyrir dyrum sökum þess að tekist sé á málefnalega í þinginu og þá grípi yfirstjórn þingsins til þeirra ráða að setja á fundi í þinginu hvenær sem er til þess eins að ljúka umræðu, til þess eins að geta keyrt málin áfram. Þetta eru afar óheppileg vinnubrögð og afar óvönduð.

Ég hlýt að spyrja eins og margir, sökum þess að hér er verið að hverfa frá áætlun sem lá fyrir á mánudag: Hvert er vandamálið? Hvað er það í lagasetningu sem þarf að breyta? Nú hafa vatnalög, sem nú eru undir, staðið í rúmlega 80 ár. Þarf að setja á einhverja sérstaka kvöldfundi til þess að ljúka eða reyna að ljúka umræðu um þessi tilteknu mál?

Ef váin er svo stórkostleg að það kalli á að menn þurfi að haga skipulagi þingsins með þessum hætti væri þá ekki a.m.k. lágmark að hæstv. iðnaðarráðherra væri þá á vettvangi til þess eins að upplýsa okkur um það hvert vandamálið sé, í hverju váin er fólgin og hvernig eigi að greiða úr þeim mikla vanda sem uppi er. Í þinginu er hugsanlega málefnalegur ágreiningur um lagasetningu og þá er gripið til þess — ég verð að leyfa mér að kalla það svo, virðulegi forseti — ofbeldis að keyra fundi langt fram á nótt, sem er í engum takti eða í samræmi við þær áætlanir sem lágu fyrir í upphafi vikunnar. Ég vil því leyfa mér eins og aðrir hér (Forseti hringir.) að mótmæla þessum vinnubrögðum harðlega, virðulegur forseti.