132. löggjafarþing — 80. fundur,  8. mars 2006.

Boðun þingfundar.

[18:15]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega sammála því sem hæstv. forseti sagði hér áðan, þetta er mjög mikilvægt mál og á auðvitað að ræða hér að degi til. Það er fráleitt að málið sé tekið á dagskrá bara sisvona. Þetta mál var ekki á dagskrá þessa dags og þeir sem hafa ætlað að fylgjast hér með eða taka þátt í umræðunni hafa þess vegna ekki gert ráð fyrir því að málið yrði hér rætt á þessum degi.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst hæstv. forseti ekkert geta kvartað undan því þó að þingflokksformenn hafi ekki treyst sér til að semja um einhver endalok í þessu máli. Það er ekkert hægt að semja fyrir þingmenn um það vegna þess að fjölmargir þingmenn eiga eftir að tjá sig um þetta mál og eiga örugglega eftir að tala um það mjög lengi. Þingið verður bara að gefa sér tíma til að fara yfir málið því að því tengjast svo mörg og mikilvæg atriði að það er að mínu viti ekki neitt annað meira aðkallandi í störfum Alþingis en að ræða þetta mál. Það eru svo fjölmörg atriði sem menn þurfa að fara yfir í sambandi við nýtingu á auðlindum, um það hvernig við lítum á vatnið, eignarhald í þeim skilningi sem hér er sett fram, nýja skilgreiningu á eignarhaldi vatns, það er ekkert minna, og síðan alla auðlindapólitíkina sem hangir saman við þetta mál og þá lagasetningu sem ætti að fylgjast að í gegnum Alþingi.

Til þessa þurfa menn bara að gefa sér tíma og ég tel að hæstv. forseti muni auðvitað gefa þingmönnum allan þann tíma sem þeir kjósa að taka sér til þess og muni ekki þrengja að þingflokksformönnum með einhverjum samningatilboðum (Forseti hringir.) um það að menn hætti hér umræðum.