132. löggjafarþing — 80. fundur,  8. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[22:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til vatnalaga sem er hér til 2. umr., frumvarp sem er eitt skrefið enn af hálfu þessarar ríkisstjórnar í einkavæðingu á auðlindum þjóðarinnar. Í þessu máli takast á grundvallarsjónarmið, annars vegar sjónarmið ríkisstjórnar einkavæðingar, ríkisstjórnar græðginnar, ríkisstjórnar sem vill gína yfir öllu á stundinni, ríkisstjórnar sem telur að hún beri enga ábyrgð gagnvart framtíðinni og hins vegar þau sjónarmið sem við stöndum fyrir, m.a. Vinstri hreyfingin — grænt framboð, að við séum aðeins tímabundnir gestir í umgengni við auðlindir okkar og höfum engan rétt til þess að framselja þær eða telja þær einstaklingum eða fyrirtækjum, og ekki einu sinni hverri kynslóð, til eignar.

Í þessu sambandi er hægt að vitna til góðs kvæðis, sem eitt af góðskáldum okkar, Tómas Guðmundsson, orti, og heitir Hótel Jörð. Ég vil vitna í upphafserindi þess, en þar stendur, með leyfi forseta:

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.

Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

Einir fara og aðrir koma í dag

því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Þannig er með okkar tilveru hér að við erum aðeins gestir. Þá skiptir máli hvernig við göngum um það hótel sem við gistum. Við vonumst til þess að við getum, og okkur ber skylda til þess, búið svo í haginn að aðrir gestir komi og enn aðrir um ókomin ár, aldir og þúsundir ára, fólk sem kemur og gistir þessa jörð. Við megum á engan hátt skerða möguleika þessara gesta né heldur dýnamikina eða þann lífskraft sem ber lífið áfram hér á jörðinni og reyndar í geimnum öllum, og þar er vatnið einmitt lykilatriði.

Þó svo að þessi ríkisstjórn og sérstaklega þeir málaflokkar sem heyra undir Framsóknarflokkinn — og það eru furðuleg örlög iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins að koma hér inn með hvert frumvarpið á fætur öðru sem lýtur að því að slá eign sinni á auðlindir þjóðarinnar, auðlindir heimsins, tímabundna eign, til þess að geta síðan einkavætt þær og gert þær að framseljanlegum gæðum. Það frumvarp sem við erum hér að fjalla um snýst einmitt um einkavæðingu á vatni, einkavæðingu á auðlindinni vatn, snýst um það að skilgreina hana sem framseljanlega eign sem hægt sé að einkavæða og láta ganga kaupum og sölum.

Þetta er að vísu liður í hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar og sérstaklega þá Framsóknarflokksins sem er látinn draga einkavæðingarvagninn. Við tókumst fyrr í vetur á um frumvarp sem laut að jarðrænum auðlindum þar sem ráðherra Framsóknarflokksins vildi fá að gera rannsóknar- og virkjunarleyfi í vötnum landsins framseljanleg. Hér liggur einnig fyrir þinginu frumvarp um að hlutafélagavæða Rarik, sem er undanfari þess að selja þau orkufyrirtæki, og áfram er það Framsóknarflokkurinn sem látinn er draga einkavæðingarvagninn.

Við vitum líka af fyrirætlunum og yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar, bæði hæstv. iðnaðarráðherra og reyndar fleiri ráðherra, um áhuga á því að einkavæða Landsvirkjun, sem sagt orkufyrirtækin. Einn liður í því til að geta látið þetta ganga sem best fyrir sig að þeirra mati er að geta einkavætt líka vatnsauðlindina þannig að þetta geti allt fylgt saman, orkuverin, vatnsauðlindin og síðan þá salan á rafmagninu. Þetta er liður í þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur og aftur er það Framsóknarflokkurinn sem dregur þann vagninn að hér skuli atvinnulífið byggjast á erlendri stóriðju, á álverum. Og til að tryggja að orkan fari nú til þeirra fyrirtækja er þetta einmitt liðurinn í því, að markaðsvæða auðlindina vatn.

Ég verð að segja, frú forseti, að þetta er mjög dapurt hlutskipti finnst mér fyrir stjórnmálaflokk eins og t.d. Framsóknarflokkinn sem sprottinn er upp úr félagshyggju og sprottinn upp úr því að bera virðingu fyrir samfélagi og náttúru landsins, að hann skuli umturnast svona með þessum hætti að nú skuli engu eirt, einkavæða á orkukerfið og vatnið, og þetta skuli vera þau mál sem sá flokkur berst hvað harðast fyrir á Alþingi. Maður veltir fyrir sér hvort það sé einhver þrýstingur, eins og við heyrðum í fréttum núna fyrir nokkrum dögum, frá einhverjum öðrum aðilum, erlendum aðilum, einhverjum stórrisum á íslenska ríkisstjórn sem geri það að verkum að hún sé að bogna fyrir tilteknum kröfum, eins og t.d. þegar álrisinn Alcan var með í hótunum við íslensk stjórnvöld að ef þeir fengju ekki að stækka álverið í Straumsvík mundu þeir bara fara. Ef þeir fengju ekki sinn hluta í orkuauðlindum landsins, ef þeir fengju ekki sinn hluta í svokölluðum mengunarkvóta sem landið hefur þá mundu þeir bara fara.

Fyrir ráðherra sem hefur svo ofboðslega gaman af því að fara út að borða með þessum mönnum, eins og hæstv. iðnaðarráðherra sagði á síðu sinni varðandi stjórnarmenn og eigendur Alcoa, það væri svo gaman að fara út að borða með þeim og heimsækja þá jafnvel til New York til að borða með þeim, þá gerir maður sér grein fyrir hvers konar tak erlendir aðilar eru búnir að fá á íslenskum stjórnvöldum. Er það kannski að birtast núna í þessum nýjum vatnalögum sem hér liggja fyrir þinginu? Það er a.m.k. skrýtið og sérkennilegt að þetta mál skuli vera borið fram af iðnaðarráðherra en ekki umhverfisráðherra. Margur mundi nú halda að vatn sem auðlind ætti frekar að heyra undir umhverfisráðherra sem ætti þá að fara með hina umhverfislegu þætti auðlindarinnar til lengri tíma. Undir iðnaðarráðherra ætti kannski fyrst og fremst að heyra tímabundin notkun og ráðstöfun á ákveðnum þáttum auðlindarinnar til einstakra atvinnugreina. En hér virðist það vera iðnaðarráðherra sem sest á umhverfisráðherrann og hér er keyrt fram frumvarp til vatnalaga án þess að liggi fyrir t.d. frumvarp um vatnsvernd sem þó hefur verið boðað að sé væntanlegt og var boðað meira að segja á síðasta ári að væri væntanlegt en bólar ekkert á enn. Því er augljóst hver ræður þarna ferð varðandi þessi mál.

Í 1. gr. frumvarpsins er mjög furðulegt orðalag og væri fróðlegt að heyra lögskýringu á því.

Hér stendur, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Skynsamleg vatnsnýting, já. Það eru aldeilis mjög skýr orð í lagatexta. Við vitum sem þekkjum áhuga og áherslur ríkisstjórnarinnar, ég tala nú ekki um áherslur iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, hvað er skynsamleg vatnsnýting í huga hennar, það eru bara virkjanir og aftur virkjanir. Stíflun áa og fljóta, virkjanir og aftur virkjanir. Það er það sem sá hæstv. ráðherra hefur lagt í og kallar vafalaust þetta sem hér stendur skynsamlegt, sem ég er þó algjörlega ósammála. En að setja í lagatexta orð sem hefur enga í rauninni lagatæknilega þýðingu eins og „skynsamleg vatnsnýting“, finnst mér vera með ólíkindum og sýnir hvers konar vinnubrögð eru hér að baki.

Þarna stendur áfram:

„Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi“ — og svo kemur, frú forseti: „umfram það sem nauðsynlegt er.“

Drottinn minn dýri, þvílíkt orðalag, svona fullkomlega matskennt orðalag á meginmarkmiðum uppsettra laga. Þó að ég sé ekki lögfróður hlýtur maður að velta því fyrir sér að ef upp kemur lagalegur ágreiningur um túlkun þessara laga, um einhver atriði sem koma upp varðandi meðferð á lögunum, þá á að koma með úrskurð á grundvelli einhvers matskennds orðalags eins og hér er, „skynsamleg vatnsnýting“, eða að ekki megi raska „vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“ Að mati hverra? Og hver setur saman svona lagatexta? Ég er alveg hissa á því að ekki skuli þá bara standa hérna berum orðum, eins og þetta þýðir í munni eða í verki hjá núverandi ríkisstjórn og þá sérstaklega af hálfu Framsóknarflokksins, að það standi bara: Það skal virkja allt sem hægt er að virkja. Það er í rauninni það sem verið er að segja. Þetta matskennda orðalag er alveg furðulegt í lagatexta.

Við skulum segja að ef væri nú búið að skipta um iðnaðarráðherra, sem við vonum að verði sem allra fyrst, og það kæmi iðnaðarráðherra úr flokki Vinstri grænna. (VF: Ætlarðu að bjóða þig fram?) Já, það er hárrétt hjá hv. þm. Valdimari Friðrikssyni, ég væri alveg reiðubúinn að taka við iðnaðarráðuneytinu af núverandi iðnaðarráðherra og því fyrr því betra. En dettur einhverjum í hug að ég mundi leggja sama skilning í hvað væri skynsamleg vatnsnýting og núverandi hæstv. iðnaðarráðherra? Nei, ég get bara alveg fullvissað ykkur um það að þar væri alveg himinn og haf á milli. En við ættum að fara eftir þessum sama lagatexta ef þetta yrði að lögum. Bara þessi upphafsgrein lagafrumvarpsins er alveg með ólíkindum lagatæknilegt klúður, finnst mér.

Eins og komið hefur ítarlega fram í umræðunni um lagafrumvarpið er verið að breyta lagaákvæðum núgildandi vatnalaga þannig að hægt er að eignfæra auðlindina og gera hana framseljanlega. Þetta er alveg þveröfugt við það sem margur annar er að berjast fyrir. Áður en ég kem að nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar um málið — en hv. þm. Hlynur Hallsson hefur hina síðari viku setið sem fulltrúi Vinstri grænna í iðnaðarnefnd og þótt hann sé áheyrnarfulltrúi er hann aðili að því nefndaráliti sem hérna liggur fyrir af hálfu minni hlutans, ég kem að því seinna — langar mig til að rifja upp og vitna til forustugreinar Morgunblaðsins frá 1. nóvember 2005 einmitt þegar frumvarpið var lagt fram og sýnir kannski örlítið í hnotskurn sjónarmið þess blaðs, a.m.k. á þeim tíma, í þeim skrifum varðandi málið.

Með leyfi forseta, yfirskriftin er Rétturinn til vatns:

„Það kann að virðast lítil þörf fyrir því að ræða sérstaklega um aðgang að vatni á Íslandi.“ — Ég er að vitna í forustugrein Morgunblaðsins, frú forseti. — „Staðreyndin er hins vegar sú að um þriðjungur mannkyns býr um þessar mundir við vatnsskort og nýtur því samkvæmt skilgreiningu ekki grundvallarmannréttinda. Um helgina var haldin ráðstefna undir yfirskriftinni Vatn fyrir alla. Samhliða ráðstefnunni gáfu samtökin BSRB, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar, Kennarasamband Íslands og SÍB út sameiginlega yfirlýsingu til að vekja athygli á mikilvægi vatns og sérstöðu. „Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum,“ segir í yfirlýsingunni. „Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þvílíkan búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar.““

Takið eftir, þarna er lögð áhersla á að vatnsverndin komi á undan vatnsnýtingunni, ég vek athygli á því. Hérna er verið að vitna í leiðara Morgunblaðsins:

„Leggja samtökin til að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings, sem taki til réttinda, verndunar og nýtingu vatns.

Sagði Nigel Dower, kennari í þróunarsiðfræði við Háskólann á Akureyri, á ráðstefnunni að aðgangurinn að vatni væri lykilatriði í réttinum til lífs. Rétturinn til vatns tæki til þess, sem þyrfti til að tryggja heilbrigt líf og mannlega reisn.“

Í þessu frumvarpi til vatnalaga er iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins ekki aldeilis að ganga inn á þessar brautir heldur er lagt til að vatnið verði einkavætt svo hægt verði að selja það og taka vatnið úr almannaumsjá.

Áfram segir í forustugrein Morgunblaðsins um málið, með leyfi forseta:

„Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlaði árið 2002 að 1,7 milljarða manna skorti aðgang að hreinu vatni og um 2,3 milljarðar manna þjáðust af sjúkdómum, sem rekja mátti annars vegar til óhreins vatns og hins vegar hárrar verðlagningar á vatni. Seinna vandamálið hefur farið vaxandi, ekki síst vegna einkavæðingar á vatnsveitum í löndum á borð við Indland. Páll H. Hannesson, alþjóðafulltrúi BSRB, sagði í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni um helgina að rannsóknir sýndu að reynslan af einkavæðingu vatns í þróunarlöndunum hefði yfirleitt verið slæm. Skort hefði á samkeppni og fyrirtæki hefðu ekki fjárfest eins mikið og búist hefði verið við í nývirkjum og viðhaldi auk þess sem verð á vatni hefði hækkað.

„Tvö ríki, Úrúgvæ og Holland, eru nú í þann mund að banna einkavæðingu vatns með lögum.“ — Ég held að við ættum að senda iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins til Úrúgvæ til að kynna sér hvað þeir eru að gera þar. Þeir ætla að banna einkavæðingu vatns með lögum. Hvað erum við að gera hér samkvæmt frumvarpi iðnaðarráðherra? Hér á að fara að einkavæða vatn með lögum. — „Í báðum tilfellum er ekki aðeins kveðið á um að ekki megi einkavæða vatnsveitur, heldur einnig að ekki megi fela einkaaðilum rekstur vatnsbóla.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst 2005 til 2015 áratug alþjóðlegra aðgerða til að tryggja vatn til lífsviðurværis. Í ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 2004 er það markmið sett að fækka þeim um helming, sem ekki hafa aðgang að eða efni á öruggu drykkjarvatni.“

Frú forseti. Þó að við teljum okkur hafa nóg af vatni á þessu augnabliki erum við samt aðilar að alþjóðlegu starfi, við erum aðilar að Sameinuðu þjóðunum og þar af leiðandi erum við líka aðilar að baráttunni fyrir því að tryggja öllum jafnan rétt til vatns og við erum þá líka aðilar að þeirri ákvörðun Sameinuðu þjóðanna að lýsa ár 2005 til 2015 áratug alþjóðlegra aðgerða til að tryggja vatn til lífsviðurværis. Hvað erum við að gera hér? Þveröfugt. Þetta frumvarp iðnaðarráðherra gengur í þveröfuga átt við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Hér á að fara að einkavæða vatn, taka það úr almannaforsjá sem gengur þvert á það sem Sameinuðu þjóðirnar leggja til.

Frú forseti. Stundum koma nú góðir sprettir í Morgunblaðinu þó að það geti að öðru leyti litið út undan sér og haldið fram sjónarmiðum sem ekki eru til að hæla. Í þessu tilfelli er það svo, en í leiðara Morgunblaðsins frá 1. nóv. 2005 segir áfram, með leyfi forseta:

„Tilgangur einkavæðingar er fyrst og fremst að tryggja neytendum betri þjónustu og kjör með tilstuðlan samkeppni, ekki að færa einokun frá einni hendi yfir á aðra. En það hlýtur einnig að vera mikið álitamál hvort hægt sé að einkavæða auðlind á borð við vatn og má yfirfæra þá umræðu yfir á umræðuna um auðlindir hafsins og spyrja hvort ekki sé rétt að líta á vatn sem þjóðareign. Nú stendur yfir nefndarstarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rétt er að við þá endurskoðun verði áskorunin sem kemur fram í yfirlýsingu félagasamtakanna fyrir helgi um vatn fyrir alla tekin til alvarlegrar skoðunar. Þótt á Íslandi sé gnægð vatns verða Íslendingar að sýna að þeir kunni að umgangast þessa mikilvægu auðlind af virðingu og alúð.“

Þetta segir í forustugrein Morgunblaðsins frá 1. nóv. 2005. Ég get ekki séð að það frumvarp til vatnalaga sem við erum að fjalla um sé í þeim anda sem hér er verið að skrifa og segja og leggja áherslu á og ég tek heils hugar undir að á að skoða nú þegar í gangi er nefndarstarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar kemur einmitt sterklega til álita, og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt það afdráttarlaust til, rétturinn á vatni fyrir alla og að vatn sé í rauninni þjóðareign, ekki þjóðarinnar á hverjum tíma heldur sé vatnið í rauninni eign lífsins á jörðinni og ætti þess vegna að vera bundið í stjórnarskrá að enginn einn fari með einkaeignarrétt á vatni, en þetta frumvarp stangast einmitt á við það.

Hví ekki að ljúka þessari vinnu við stjórnarskrána áður en slíkt frumvarp er lagt fram? Ég skora hér á Morgunblaðið, sem oft hefur einmitt eins og hér haft mótandi áhrif á umræðuna og jafnvel líka á þá niðurstöðu sem orðið getur af umræðunni, að fylgja þessum skoðunum sínum eftir og taka þátt í þeirri baráttu sem við stöndum fyrir, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og einnig Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, um að stöðva þetta frumvarp uns búið er að ljúka stjórnarskrárvinnunni, eins og lagt er til hér í leiðara Morgunblaðsins, og leggja fram og afgreiða frumvarp um vatnsvernd sem réttilega er bent á í forustugreininni að eigi að koma á undan nýtingarlögunum. Ég mátti því til með, frú forseti, að grípa þennan leiðara Morgunblaðsins til stuðnings þeirri kröfu sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum lagt hér til, að þessu máli verði vísað frá, og er einmitt í fullu samræmi við þessa forustugrein Morgunblaðsins sem ég var að vitna til.

Það er mjög fróðlegt að vitna í það sem verið er að skrifa um þessi mál. Hér er grein sem birtist í Blaðinu 19. nóv. 2005 og fjallar einmitt um vatn. Hún er í fréttaskýringadálki sem Þórður S. Júlíusson skrifar þar sem fyrirsögnin er „Evrópa næsti markaður vatnsfyrirtækja“. Þar segir:

„Einkavæðing er umdeilanleg og sitt sýnist hverjum um kosti þeirrar aðferðafræði. Hér á Íslandi hefur hún verið talin vel heppnuð að mörgu leyti og búið er að einkavæða nánast allt sem hægt er utan hornsteina almannaþjónustunnar. Þjónustuliðir eins og rafmagns- og vatnsveitur hafa þó verið einkavæddir víða um heim með afar misjöfnum árangri. Blaðið kynnti sér árangurinn, ástæður þess að farið hefur verið út í slíkar rekstrarbreytingar og hvað mundi gerast á Íslandi ef þær verða að veruleika hér á landi.“

Frú forseti. Ég vek athygli á því að markaðsvæðing rafmagns er komin á fullt og við höfum rætt ítarlega í vetur afleiðingar markaðsvæðingar rafmagnsins, nýju raforkulögin sem iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins keyrði í gegn og hafa leitt til mikillar heildarhækkunar á rafmagni þrátt fyrir að allt öðru væri lofað. Næsta skrefið er að einkavæða orkuveiturnar, Rarik. Vafalaust kemur bráðlega inn í þingið til 2. umr. frumvarp til laga um einkavæðingu á Rarik og að undirbúa Rarik til sölu. En þegar raforkulögin voru til umræðu á Alþingi fyrir rúmum tveimur árum var þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eini stjórnmálaflokkurinn sem benti á allar þessar hættur við einkavæðingu og markaðsvæðingu rafmagnsins, sem hefur síðan allt komið á daginn.

Í þessari ágætu grein, sem ég ætla að leyfa mér að vitna til áfram, frú forseti, segir:

„Alþjóðabankinn hefur alltaf staðhæft“ — Alþjóðabankinn er nefnilega gríðarlegt veldi í heiminum, skipar þjóðum og ríkisstjórnum fyrir, þetta byrjar nú allt eitthvað á Al, var það ekki Alcan eða eitthvert svoleiðis fyrirtæki sem var að skipa forsætisráðherra Íslands fyrir? Það skyldu þó ekki vera tengsl milli Alcan og Alþjóðabankans? Alla vega geta þeir skipað fyrir — „að hann neyði ekki einkavæðingu upp á þau lönd sem hjá honum hljóta lán. Rannsóknir ICI (International Consortium of Investigative Journalists)“ — þetta er stofnun sem rannsakar alþjóðlegar fjárfestingar — „sem gerðar voru í samstarfi við bankann sýna þó að einkavæðing er að verða stærri og stærri hluti af skilyrtri lánastefnu bankans. Gögn frá Alþjóðabankanum sýndu að frá árunum 1990 til loka árs 2002 hafi bankinn veitt 276 lán undir heitinu „Water Supply Loans“, — eða lán til að koma á vatnsveitum — „og fólu í sér breytingar eða einhvers konar áhrif á vatnsaðgengi viðkomandi landa. Í einu af hverjum þremur lánum sem bankinn veitti undir þessum formerkjum þá var þess krafist að viðkomandi land mundi einkavæða vatnsveitur sínar að einhverju eða öllu leyti áður en að lánin voru veitt. Þessi lán falla undir hatt svokallaðra fjárfestingarlána, en það eru langtímalán sem bankinn veitir til 5–10 ára í senn.“ — Bíðum við, er hér kannski eitthvað svoleiðis á ferðinni? Er það þess vegna sem ríkisstjórnin liggur hundflöt fyrir einkavæðingaráætlunum eins og þeim að einkavæða vatnið? Eru það kannski kröfur frá einhverjum stofnunum sem byrja á Al, annaðhvort Alþjóðabanki eða eitthvað annað? — „Því virðist augljóst að Alþjóðabankinn hafi vissulega lagt sín lóð á vogarskálar einkavæðingar á opinberri þjónustu. Þótt öll lán bankans séu ekki bundin slíkum einkavæðingarskilyrðum þá er stór hluti þeirra það klárlega.“

Áfram segir í þessari grein:

„David Hall er prófessor og forstöðumaður deildar við háskólann í Greenwich sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á mismunandi rekstrarformum innan almannaþjónustu. Hann hélt erindi á Íslandi í gær þar sem hann talaði um afleiðingar einkavæðingar vatns. Í máli hans kom fram að þau fyrirtæki sem hafa tekið yfir rekstur vatnsveitna í þróunarlöndum sem hafa gengist undir einkavæðingarskuldbindingar vegna lána og annars konar þrýstings alþjóðastofnana vilji flestöll losna út úr þessum rekstri.

Auk þess standa þau mörg hver í dómsmálum vegna þess að þau hafa ekki getað grætt eins mikið og þau bjuggust við.“ — Bíðum við, er sú frumþörf mannkynsins, vatn, eitthvað sem á að vera gróðavegur? Jú, Alþjóðabankinn lítur svo á. — „Í Argentínu einni saman eru t.d. 42 slík mál í gangi þar sem alþjóðleg einkafyrirtæki eru að krefja ríkisstjórnir um skaðabætur fyrir skort á gróða. Þessum málum hefur nú verið vísað til alþjóðlegra gerðardóma og verður niðurstaða þeirra án efa athyglisverð og fordæmisgefandi.“

Frú forseti. Svo erum við hér eða réttara sagt Framsóknarflokkurinn að fara hér fram á eða krefjast þess að við einkavæðum líka vatnsveiturnar og vatnsauðlindirnar okkar sem margar aðrar þjóðir eru núna að reyna að komast út úr.

Hér stendur áfram:

„Áhugaverðasta dæmið um einkavæðingu sem er farin að súrna sem David Hall talaði um er líklega staða Jakarta, höfuðborgar Indónesíu. Þar voru vatnsveiturnar einkavæddar og seldar tveimur alþjóðlegum vatnsrisum, franska fyrirtækinu Suez og Thames Water Utilities sem er upprunnið í Bretlandi.

Í dag vilja bæði þessi fyrirtæki komast undan skuldbindingum sínum og skila vatnsveitum til stjórnvalda vegna þess að þær eru ekki nægilega arðbærar. Fyrirtækin vilja hins vegar að stjórnvöld segi upp samningum við þau svo þau geti síðan krafist skaðabóta vegna uppsagnarinnar. Stjórnvöld vilja á sama tíma þjóðnýta vatnið að nýju en telja sig ekki geta sagt upp samningum við einkafyrirtækin vegna þess að þau hafa ekki efni á því að borga þeim skaðabæturnar sem þau mundu þá sækja. Báðir aðilar eru því sammála um að þjóðnýta eigi vatnið að nýju en það er samt ekki hægt vegna mögulegra skaðabótakrafna. Þarna hefur því skapast algjört sjálfskaparvíti.“

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins hefur kynnt sér þetta. Þarna í Indónesíu vilja menn þjóðnýta vatnsauðlindina aftur, taka hana aftur til baka úr einkavæðingunni. Hér er iðnaðarráðherra að flytja frumvarp um einkavæðingu vatnsins þegar aðrar þjóðir, sem hafa brennt sig svo illilega, eru að reyna að þjóðnýta það á ný. En vegna þess að þau voru búin að einkavæða það og framselja réttinn þá telja þau sig ekki hafa almennilega efni á því að þjóðnýta það og standa undir þeim skaðabótakröfum sem gætu verið lagðar fram.

Í þessari ágætu grein, sem birtist í Blaðinu, undir liðnum Fréttaskýring, og höfundur er Þórður S. Júlíusson, segir áfram:

„David segir að þessi vatnsfyrirtæki séu í síauknum mæli að horfa til Evrópu í seinni tíð“ — þá ættu þau nú að vita hvað iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins er að gera hér — „eftir að hafa að stærstum hluta mistekist í þróunarlöndunum. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að það þrífst mun meiri pólitískur stöðugleiki hér en í þróunarheiminum og efnahagslegar forsendur eru allt aðrar. „Þau hafa enn fulla trú á því að einkavæðing vatns geti verið arðbær iðnaður,“ segir David.“ — Þess vegna vilja þau snúa sér til Evrópu.

„David nefnir þreifingar sem hafa átt sér stað í Rússlandi því til stuðnings. Hann segir það klárt mál að þessi fyrirtæki horfi hýrum augum til hinnar stöðugu Evrópu velsældar og allsnægta þegar þau eru að skoða viðskiptatækifæri framtíðarinnar. „Öll pólitískt stöðug ríki í Evrópu sem eru efnahagslega farsæl eru þess vegna skotmörk þessarar einkavæðingar.““ — Einkavæðingar á vatni.

Það er kannski þess vegna sem Ísland er nú komið í skotlínuna varðandi einkavæðingu á vatni að þessi stórfyrirtæki sjái að hér sé hægt að komast yfir vatnsauðlindirnar og hafa út úr þeim nægilegan arð eins og þeir kalla það.

Áfram segir hér:

„David segir að þetta sé helst vegna þess að lagakerfi Evrópulanda mundi án efa viðurkenna rétt fyrirtækjanna til skaðabóta því að eignarréttur er nánast án undantekninga gífurlega vel varinn innan lagabálka þeirra.“

Það sé þess vegna lítil áhætta í því að koma og fjárfesta í einkavæddum vatnsauðlindum í Evrópu vegna þess hve eignarrétturinn er vel varinn eftir að búið er að skilgreina auðlindina sem slíka. En aukinn kostnaður lendir á þegnunum.

Áfram segir í þessari ágætu grein í Blaðinu frá 19. nóv. 2005, með leyfi forseta:

„Sem pólitískt stöðugt og efnahagslega farsælt land hlýtur Ísland að vera eitt þessara ríkja. Hér á landi er eignarréttur landeigenda líka niðurnegldur í auðlindalögunum, hér ríkir því algjör eignarréttur á vatni. Það þýðir að aðgengi að vatni hér er ekki tryggt heldur er vatn eign einstaklinga eða stofnana. Vissulega eru vatnsveitur enn sem komið er í eigu sveitarfélaga á Íslandi en það er ekkert því til fyrirstöðu að þær verði seldar einkaaðilum í framtíðinni. Reyndar virðist það vera yfirlýst stefna núverandi stjórnvalda að halda áfram með það einkavæðingarferli sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og ef heilbrigðis- og menntamál eru undanskilin virðist fátt vera eftir til að einkavæða utan þeirrar almannaþjónustu sem sér landanum fyrir rafmagni, hita og auðvitað vatni.“

Áfram segir í þessari góðu grein, sem ég ætla að vitna áfram til, með leyfi forseta:

„Raunar sagði Geir H. Haarde í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í síðasta mánuði að honum þætti „mikilvægt að gefa einkarekstrinum tækifæri til að koma víðar að þeirri þjónustu sem er fjármögnuð af hinu opinbera,“ og kom þar fram að hann hafi einna helst horft í átt til Landsvirkjunar í þeim efnum.“ — Reyndar alveg eins og iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sem hefur einmitt lýst yfir sama áhuga á að einkavæða og selja Landsvirkjun. „Ef Landsvirkjun er gjaldgeng til einkavæðingar virðist fátt því til fyrirstöðu að hægt sé líka að einkavæða vatnið,“ segir í þessari grein.

Og áfram segir:

„Iðnaðarráðherra hefur vissulega leyfi samkvæmt auðlindalögum til að nýta auðlindir hvar sem þær finnast og eftir hentugleika samkvæmt auðlindalögum frá 1998. Þessi nýting er hins vegar háð því að ríkið nái samkomulagi við jarðeigendur um greiðslu fyrir ómakið eða sérstakri skaðabótagreiðslu til hans ef slíkir samningar nást ekki. Það er því ljóst að það fylgir því aukinn kostnaður fyrir ríkið að tryggja aðgengi þegna sinna að vatni ef það getur mögulega verið skilgreint sem markaðsvara og einkavæðingarhugsjónir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Það mætti ætla að sá kostnaður mundi aukast eftir því sem vatn verður mikilvægara sem verslunarvara. Þar sem þegnarnir eru þeir sem standa straum af kostnaði við ríkisreksturinn er ljóst að sá aukni kostnaður mundi lenda á okkur. Því er krafa BSRB og annarra félagasamtaka um að eignaraðild á neysluvatni til almennings verði gert félagslegt í stað þess að vera sértækt og réttur þegnanna til aðgengis að því verði settur í stjórnarskrá afar skiljanleg. Ef svo verður ekki er alltaf vafamál hvort þjóðinni verði tryggt nægilegt framboð, öryggi og aðgengi að vatni á hóflegu verði.“

Frú forseti. Í þessari grein, sem ég hef vitnað í, hafa verið raktar tilvitnanir frá öðrum löndum sem hafa lent í einkavæðingu á vatnsauðlindinni og eru núna að reyna að ná henni aftur til baka. Hér er einnig bent á þann þrýsting sem Alþjóðabankinn hefur beitt þjóðir til að einkavæða grunnþjónustu sína, til að einkavæða auðlindina, sem eru náttúrlega alveg forkastanleg vinnubrögð af þeirri stofnun. Einhvern veginn, eins og hér er ýjað að, virðist einhver slíkur þrýstingur vera kominn á stjórnvöld hér að einkavæða vatn og að vatn verði gert að markaðsvöru þannig að þessi alþjóðlegu fyrirtæki sem hafa áhuga á að græða á vatnsauðlindinni sem slíkri komist hér inn.

Á ráðstefnu, sem haldin var nú í haust, um aðgang að vatni — það eru fleiri sem hafa fjallað um hana. Mig langar hér að vitna í nokkur erindi sem voru haldin þar. Hér hefur áður verið lesin yfirlýsingin sem þessi samtök birtu.

Í umfjöllun Morgunblaðsins 31. október árið 2005, í fréttayfirliti eftir Svavar Knút Kristinsson, undir fyrirsögninni: Aðgangur að vatni eru grundvallarmannréttindi, segir svo, með leyfi forseta:

„Rannsóknir sýna að reynslan af einkavæðingu vatns í þróunarlöndum hefur yfirleitt verið slæm. Skortur hefur verið á samkeppni, bæði sökum þess að um vatn gildir svokölluð „náttúruleg einokun“ og einnig vegna þess að stórfyrirtæki á markaðinum eru mjög fá. Þá hafa fyrirtæki ekki fjárfest eins mikið og við var búist í nývirkjum og viðhaldi og vatnsverð hefur farið hækkandi í takt við auknar arðsemiskröfur fyrirtækja.“

„Á ráðstefnu sem haldin var á Grand Hóteli síðasta laugardag“ — þetta er mánudaginn 31. október — „komu fram fulltrúar kirkjunnar, vísindasamfélagsins, hins opinbera og almennings, auk þess sem Nigel Dower, kennari í þróunarsiðfræði við Háskólann á Akureyri, flutti erindi um þá siðfræði sem snýr að aðgangi almennings að hreinu neysluvatni. Sneru erindin að hinum ólíkustu hliðum vatns, allt frá vatninu í náttúru Íslands til brunnabygginga Hjálparstofnunar kirkjunnar í Afríku og þýðingu þess fyrir konur og börn í álfunni.“

Áfram er vitnað í þessari frétt Morgunblaðsins, og kemur næsta millifyrirsögn: Mótstaða við einkavæðingu:

„Í máli Páls“ — Hannessonar, alþjóðafulltrúa BSRB — „kom enn fremur fram að verðið á vatni í Manilla á Filippseyjum hefur hækkað um 600% í höndum einkafyrirtækja frá árinu 2001. Segir Páll áherslur Alþjóðabankans“ — ég ætlaði að fara að segja Alcan, en þetta er Alþjóðabankans, allt sem byrjar á Al getur haft þrýsting á stjórnvöld — „og annarra alþjóðastofnana á markaðsvæðingu vatnsveitna nú mæta vaxandi andstöðu fólks í þróunarlöndum og einnig á Vesturlöndum.“

Já, hér er líka andstaða gagnvart einkavæðingu vatns. Það er þess vegna sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þingmenn Samfylkingarinnar og þingmenn Frjálslynda flokksins sameinast hér um og gera þá kröfu að það frumvarp sem hér liggur fyrir, um einkavæðingu auðlindarinnar vatns, sem keyrt er áfram af iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, verði stöðvað einmitt af þeim ástæðum sem ég hef hér rakið.

Í umfjöllun Morgunblaðsins segir áfram, með leyfi forseta:

„Þá sé það athugavert að Alþjóðabankinn sem og aðrir þróunarbankar og styrkveitendur séu hins vegar tregir til að veita vatnsfyrirtækjum í opinberri eigu nokkurn stuðning, þrátt fyrir að opinber fyrirtæki beri ábyrgð á meira en 90% af vatnsveitum og skólplögnum í heiminum.“

Ja, hugsið þið ykkur. Að alþjóðabankar og þróunarbankar, sem þykjast standa fyrir því, og er falinn sá trúnaður, að byggja upp og veita stuðning til uppbyggingar á almannaþjónustu, uppbyggingar á atvinnulífi í þróunarríkjunum, skuli þverskallast eða veigra sér við því að veita opinberum aðilum lán til þess að koma upp vatnsfyrirtækjum í opinberri eigu. Nei, einkavæðingin er það sem rekur það lið áfram.

„Í erindi sínu sagði Páll það kröfu PSI, alþjóðasamtaka starfsmanna í almannaþjónustu, sem BSRB er aðili að, að leggja áherslu á hágæða almannaþjónustu sem lið í bættri velferð. Kvað Páll einnig GATS-samninginn, almennt samkomulag um viðskipti með þjónustu, fela í sér hættur, enda snerti hann stjórnvaldsaðgerðir allra stjórnvalda á öllum stigum. Þá séu þær skuldbindingar sem hvert ríki undirgengst við undirritun GATS-samningsins og þegar það fellir einstaka geira þjónustu undir hann, nánast óafturkræfar.“

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins er áfram fjallað um þessi sjónarmið og Páll segir, með leyfi forseta:

„Ef engir fyrirvarar eru gerðir, t.d. á sviði umhverfisþjónustu, þá má túlka samninginn þannig að hið opinbera megi ekki lengur veita fé í opinbera þjónustu á því sviði, vilji erlendur aðili hefja þar samkeppnisrekstur.“

Já, ef við gerumst aðilar að þessu samkomulagi og búin að einkavæða vatnið, ef við gerumst aðilar að þessu ferli öllu sem iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins er að keyra út í þá getur hið opinbera ekki heldur komið að því að leggja í fjárfestingar í opinberri þjónustu á vatni vegna þess að þeir eru búnir að framselja það frá sér með því að skrifa undir slíka samninga og samþykkja lög um einkavæðingu á vatni. Á hvers konar vegferð erum við? Maður fer að halda að því fólki sem stendur að þessum hermdarverkum einkavæðingar á vatni sé ekki sjálfrátt, enda eru þetta kannski kröfur frá einhverjum aðila eins og Alþjóðabanka eða einhverju sem heitir Al- um að komast yfir vatnsréttindin. Ég kem að því seinna í ræðu minni, frú forseti. Kannski er það einmitt þetta Al sem stendur á bak við þetta, hvort það heitir Alcan, Alcoa eða hvað. Eða Alþjóðabankinn. Ætli skeggið sé ekki skylt hökunni í þeim efnum?

Með einkavæðingu á vatnsauðlindinni og vatninu er það um leið orðin markaðsvara og þá getur sá keypt sem hefur kannski bæði pólitíska stöðu og fjármagn til þess. Gæti það ekki verið þægilegt fyrir fyrirtæki eins og Alcan? Sem hótaði blessuðum forætisráðherra okkar og hæstv. forsætisráðherra vitnaði til hér á dögunum að hefði verið beittur hótunum um að ef þeir fengju ekki að stækka álverið sitt í Straumsvík mundu þeir fara. Kannski væri það ekki svo slæmt fyrir Alcan að kaupa eitt stykki fljót, eitt stykki virkjun, eitt stykki vatnsauðlind í einu héraði, því að allt verður þetta orðin markaðsvara ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Þetta er ekki hægt í dag.

Frú forseti. Hægt er að kaupa virkjunarréttinn, það er rétt, en auðlindina sjálfa, vatn sem þar er, er ekki enn hægt að kaupa, ekki auðlindina sjálfa. Það er hægt að fá með sérstökum ákvæðum nýtingarrétt til ákveðinna þátta. (BJJ: Það fylgir fasteignarréttinum.) Það fylgir fasteignarréttinum nýtingarréttur, já, en ekki auðlindin sjálf. Þar er nefnilega hugsanafeillinn eða viljandi feill, því að eins og núna er verður að skilgreina nýtingarformið. En með þessum lögum verður eignarrétturinn skilgreindur og hann verður sjálfstæð verslunarvara á auðlindinni sem slíkri. Kannski kristallaðist í frammíkalli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þarna einmitt kannski viljandi misskilningur (KolH: Eða leiða þjóðina í gildru.) Eða leiða þjóðina í gildru. Og kannski er það Alþjóðabankinn sem er að krefjast þess. Kannski eru það kröfur frá einhverjum slíkum alþjóðastofnunum sem kalla sig alþjóðastofnanir sem eru að bera fram slíkar kröfur.

Ég ætla aðeins frekar að fjalla um vatnið af því að við erum að takast á um grunnatriði. Við erum að takast á um hvort vatnið sé auðlind, hvort hægt sé fyrir einhverja tímabundna kynslóð að slá eign sinni á það eða hvort vatnið er í rauninni bara eign lífsins, lífsdýnamíkurinnar á jörðinni og það megi enginn í raun slá eign sinni á það sem slíkt.

Eitt ágætt erindi var flutt á ráðstefnunni Vatn fyrir alla sem mig langar til að vitna til. Það var erindi sem Ingibjörg Björnsdóttir umhverfisfræðingur flutti. Ég held að það sé þarft fyrir einmitt hv. þm. Birki Jón Jónsson, sem er formaður iðnaðarnefndar og virðist í rauninni ekki enn hafa skilið í hverju málið er fólgið og hvað er verið að takast á um. Við erum að takast á um grunnatriði. Ég vitnaði áðan í ræðu minni til hvernig t.d. Jakarta í Indónesíu hafði einkavætt vatnsauðlindina og vill núna þjóðnýta hana til baka en stendur þá frammi fyrir skaðabótakröfum.

Ég vitna í erindi sem Ingibjörg Björnsdóttir flutti á ráðstefnunni Vatn fyrir alla sem haldin var á Grand Hóteli 29. október sl. Í þessu ágæta erindi Ingibjargar, sem ég held að sé mjög þarft að fá hér inn í umræðuna segir svo, með leyfi forseta:

„Vatn er auðlind á hverfanda hveli. Aðeins 0,5 prósent af vatnsforða jarðar er ferskvatn og nú þegar búa mörg lönd eins og t.d. Ísrael og Egyptaland við viðvarandi vatnsskort. Vatnsskortur er skilgreindur þegar minna en 1000 rúmmetrar af vatni eru til ráðstöfunar á hvern íbúa á ári.

Vatn er ekki auðlind í venjulegum skilningi þess orðs. Allt líf á jörðinni er háð vatni. Við notum vatn til ræktunar, til orkuframleiðslu og til þess að framleiða vörur og afurðir. Samfélög komast af án rafmagns og hita en ekkert samfélag getur lifað án vatns. Vatnið er því órjúfanlegur hluti af menningu okkar, hugarheimi og trúarbrögðum.

Aðgangur að vatni telst til grundvallarmannréttinda samkvæmt samþykkt Sameinuðu þjóðanna.“

Grundvallarmannaréttinda. Já, frú forseti. Á að einkavæða þau, grundvallarmannréttindi samkvæmt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna? Jú, það er það sem hér er verið að leggja til.

Áfram segir í erindi Ingibjargar, með leyfi forseta:

„Sérhver maður skal eiga rétt á drykkjarvatni á hóflegu verði. Ríkjum ber þannig að tryggja að dreifing vatns og fjárfestingar í vatni tryggi öllum þegnum þjóðfélagsins aðgang að drykkjarvatni án tillits til stöðu eða efnahags.

Ónægar vatnsbirgðir eru bæði orsök og afleiðing fátæktar. Þeir sem ekki hafa aðgang að hreinu vatni eru jafnframt fátækustu íbúar jarðar. Þeir hafa ekki efni á því að kaupa vatn á frjálsum markaði. Það að tryggja þessum hópi nauðsynlegt drykkjarvatn verður að teljast til grundvallarmannréttinda.

Mörgum virðist sem samfélög nútímans séu ekki í tengslum við hið náttúrulega umhverfi. Flestir halda að vatn flæði bara úr krananum og hugsa lítið út í það hvaðan vatnið kemur eða hvert vatnið fer.

Spyrja má hvort að við séum í þessu tengslaleysi okkar búin að glata virðingunni fyrir hinum villtu fossum og vatnsföllum landsins sem áður voru hluti af þjóðararfi okkar og þjóðtrú. Höfum við gleymt að bera virðingu fyrir hinum tæru næringarsnauðu íslensku vötnum og því sérstaka lífríki sem þar lifir? Hvernig mun því lífríki farnast ef andrúmsloftið hlýnar enn meira en nú er? Í hugum flestra er vatn bara dauð auðlind“ — að minnsta kosti í augum hæstv. iðnaðarráðherra — „sem hægt er að stífla, veita eða nota til mannlegrar neyslu. Þetta er mikill misskilningur því að vatn er það sem ég vil kalla lifandi auðlind.

Vatnið er lifandi á margan hátt. Það flæðir fram, skapar fossa og flúðir. Það nærir allt líf á jörðinni og er í stöðugri hringrás. Þegar við hugsum um vatnið þurfum við að læra að hugsa í hring í stað þess að hugsa áfram í beinni línu tækniþróunar.

Við gleymum því oft í pólitískri umræðu að samfélög okkar eru ekki lokaðar samfélagslegar einingar heldur háðar þjónustu náttúrunnar eða því sem kallað er á enska tungu „environmental services“.

Við gerum alltaf ráð fyrir því að náttúran veiti okkur gnægtir af ókeypis vatni. Vatn fellur jú af himnum ofan og í hugum flestra er nóg til af því.

Heimspeki ráðamanna og viðhorf þeirra til vatnsauðlindarinnar hefur fram að þessu einkennst af botnlausri nytjahyggju.

Við höfum verið fljót að ákveða að vatn sé auðlind sem við eigum að nota til hins ýtrasta en við höfum verið seinni til að átta okkur á að vatn og vatnakerfi eru auðlindir sem þarf að vernda til framtíðar. Vatnið er grundvöllur lífsins og hvernig við förum með vatnsauðlindir okkar mun ákvarða lífsgæði okkar íslenska samfélags í framtíðinni.

Það er ekki rétt að nálgast vatnsauðlindina einungis frá nytjasjónarmiði.“ — Eins og hér er verið að gera, frú forseti, í þessu vatnalagafrumvarpi sem við erum hér að fjalla um. — „Líta verður svo á að bæði fólk og vatn séu hluti af hinu stóra vistkerfi náttúrunnar. Við þurfum að spyrja þeirrar spurningar hvernig við getum mætt vatnsþörfum manna án þess að eyðileggja umhverfið og ganga nærri vatnsföllum og vatnakerfum. Heimspekingurinn Arne Naess hefur margoft bent á að náttúran á rétt á því að vera til í sjálfu sér, þ.e. vatnið og fossarnir eiga sinn eigin tilvistarrétt án tillits til mannlegra þarfa.“

Ég vil undirstrika að lífið á sinn eigin rétt og vatnið er undirstaða lífs á jörðinni og hins síkvika endurnýjunarkrafts náttúru heimsins og á þess vegna sinn eigin tilvistarrétt. Við, hin tímabundna kynslóð sem gistum bara eina nótt á Hótel Jörð, höfum þess vegna engan rétt til þess að fara að slá eign okkar á vatn sem framseljanlegrar auðlindar. Þetta voru mín innskot.

Áfram segir í ágætri ræðu Ingibjargar:

„Verðmæti og gildi miðast þannig ekki einvörðungu við mannlegar þarfir — maðurinn er ekki miðpunktur sköpunarverksins heldur verkamaðurinn í víngarðinum sem á að passa upp á uppskeruna. Í mínum huga er enginn efi um að verndun vatnsauðlindarinnar, verndun grunnvatns, fossa og vatnsfalla er eitt það hagkvæmasta og skynsamlegasta sem við getum gert í dag.

Innan fáeinna ára munu þjóðir jarðar keppa á efnahagslegum forsendum um aðgang að hreinu drykkjarvatni, einkum í Afríku og Asíu. Nefna má að Boudros Boudros Ghali, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði eitthvert sinn að ef Egyptar færu einhvern tímann í stríð þá yrði það vegna deilna um vatnið í Níl. Reikna má með því að gerðir verði samningar milli þjóða um vatnsauðlindir m.a. til þess að afstýra átökum.

Andspænis þessum nýja veruleika vaxandi vatnsskorts í heiminum má búast við því að vatnið á Íslandi verði verðmætara og eftirsóknarverðara en áður.

Ef vatnsauðlindir Íslands verða hins vegar einkavæddar skapast sú hætta að þær verði seldar erlendum aðilum sem búa kannski við vaxandi vatnsskort í sínum heimalöndum. Þannig gætu t.d. Egyptar freistast til þess að kaupa Gvendarbrunna eða Hollendingar óskað eftir því að eignast hlut í íslenskum vatnsfyrirtækjum. Hvað gerum við þá?

Ríkisstjórnir heimsins og Heimsbankinn (World Bank) þurfa að fara að líta á vatn sem takmarkaða auðlind sem þarf að vernda og skipta jafnt á milli íbúa jarðar. Það er siðferðilega óásættanlegt að 1,2 milljarðar manna geti ekki drukkið vatn án þess að eiga á hættu að fá alvarlega, jafnvel banvæna sjúkdóma. Ástæða þessa er því miður ekki skortur á hreinu vatni heldur vöntun á pólitískum vilja og vilja alþjóðasamfélagsins til að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að einungis þarf 4% af þeim peningum sem fara í hergagnaframleiðslu heimsins á ári hverju til þess að gefa öllu mannkyni það sem það mest vantar — aðgang að hreinu drykkjarvatni og fullnægjandi fráveitukerfi.

Af því að rigningin fellur af himnum höfum við lengi staðið í þeirri barnslegu trú að vatnsauðlindin væri endalaus. En núna vitum við að þessi auðlind er viðkvæm og þarfnast verndar. Við þurfum að læra að hugsa í hring og koma á jafnvægi á milli samfélaga okkar og náttúrunnar. Við þurfum að tryggja aðgang allra íbúa jarðar að hreinu drykkjarvatni. Og við þurfum einnig að gæta þess að vatnsauðlindir Íslands komist ekki á fárra hendur.

Á 13. öld helgaði Guðmundur Arason Hólabiskup vatnsuppsprettur um land allt. Hann hafði fullan skilning á mikilvægi þessarar auðlindar. Við skulum taka hann okkur til fyrirmyndar.“

Þetta voru lokaorð Ingibjargar Björnsdóttur. Við skulum helga lífinu vatnsauðlindirnar.

Ég rifjaði upp við 1. umr. um vatnalög heimsókn mína og nokkurra fleiri Íslendinga til Palestínu fyrir um ári. Það var mjög lærdómsríkt og eftirminnilegt. Ég ætla að rifja það aftur upp en maður áttaði sig á hinni gríðarlegu þýðingu vatnsins og þeim átökum sem standa um vatn þegar við ferðuðumst um Palestínu, ég og hæstv. forseti sem nú stýrir fundi. Við komum m.a. til Jórsalaborgar og höfum stundum kallað okkur Jórsalafara af því tilefni, án þess að við viljum bera okkur saman við Björn Jórsalafara. En þetta var mjög eftirminnileg ferð og góður hópur þar á ferð.

Í Palestínu var okkur bent á að stríðið hefði staðið um vatn. Ísraelsmenn, sem hertóku það land, hertóku fyrst og fremst svæðin þar sem vatnið féll. Þar sem rigningin féll og vatn safnaðist fyrir. Ísraelsmenn lögðu kapp á að hernema þau svæði. Með því að ná yfirráðum yfir vatninu náðu þeir tökum á þjóðinni. Síðan gátu þeir sem herraþjóð deilt og drottnað. Þeir gátu ráðið hvenær Palestínumenn fengu vatn. Þeirra herbragð var, ef þeir vildu refsa íbúum Palestínu, að taka af þeim neysluvatnið. Þess vegna sáum við uppi á húsþökum palestínsku fjölskyldnanna tanka til að safna regnvatni.

Þegar við komum upp í Gólanhæðir þá gilti hið sama. Þar er afar þurrt. Þar var vatnið skammtað af hálfu Ísraelsmanna til palestínskra íbúa á Gólanhæðum. Þeir fóru einnig að safna regnvatni til að geta notað til heimilisnota og til vökvunar á görðum sínum. Þá komu Ísraelsmenn og sögðu: Nei, við eigum líka rigninguna. Ef þið safnið regnvatni þá safnið þið rigningunni okkar. Ef hún hefði fallið á jörðina hefði hún runnið ofan í þetta vatn og þá hefðum við átt það. Þeir vildu því líka skattleggja rigningarvatnið hjá þessu fólki. (BJJ: Þetta er ekki hægt hér.) Með þessu frumvarpi er þetta einmitt hægt.

Hvað stendur í þessu frumvarpi? Jú. Frumvarpið nær til vatns í öllum þess formum, í föstu, fljótandi og loftkenndu formi. Þannig er ekki einungis lögð til að einkavæðing á vatni í föstu eða fljótandi formi. Nei, líka í loftkenndu formi. Ég er hissa á að hv. formaður iðnaðarnefndar skuli ekki hafa lesið frumvarpið.

En þegar maður stendur frammi fyrir slíkum átökum um vatn sem ég hef lýst þá áttar maður sig á hversu gríðarlega þýðingu vatn hefur fyrir fólkið á jörðinni. Þá skilur maður það að mörg þjóðlönd sem knúin hafa verið til að einkavæða vatnsauðlindir sínar skuli reyna að ná þeim til baka. Hvers vegna skyldum við þá fara þá götu að einkavæða vatnsauðlindina, þvert gegn yfirlýsingu og vilja Sameinuðu þjóðanna, þvert gegn því átaki sem heimsbyggðin er nú að takast á við? Heimsbyggðin er að hverfa frá einkavæðingu á vatni, hverfa frá því að hægt sé að slá eign sinni á vatn og gera það að framseljanlegri verslunarvöru. (BJJ: Hvað með þjóðlendur, hv. þingmaður?)

Hv. þingmaður veltir fyrir sér þjóðlendum. Án þess að draga það með inn í umræðuna finnst mér að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn ættu að ræða svolítið um framkvæmd þjóðlendulaganna. Það eru þeir sem fara með ráðin. Fjármálaráðherra fer um með lagatæknilegum atriðum, flokkar land sem þjóðlendur en aðrir berjast á móti. Stefnuleysi þessarar ríkisstjórnar í þjóðlendumálum er bara hneisa og skandall út af fyrir sig. (Gripið fram í.) En það er annað mál.

Þetta frumvarp hér, sem lýtur að einkavæðingu á vatni, er liður í þessari einkavæðingarferð ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem dreginn er af ráðherrum Framsóknarflokksins, flokki sem einu sinni kenndi sig við félagshyggju. Flokkur sem einu sinni bar umhyggju fyrir auðlindum landsins og menningarverðmætum keyrir nú hvað harðast fram í alþjóðahyggju einkavæðingar náttúruauðlinda.

Ég ætla, frú forseti, að leyfa mér, undir lok fyrri ræðu minnar, að árétta þá kröfu stjórnarandstöðuflokkanna og krefjast þess að frumvarpinu verði öllu saman vísað frá.

Hví skyldum við fara þá leið sem aðrir reyna að hverfa frá? Mér er spurn. Getur kannski formaður hv. iðnaðarnefndar, sem fær það erfiða hlutverk að bera þetta mál fram fyrir hönd iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, skýrt fyrir mér hvers vegna slíkt ofurkapp er lagt á að einkavæða vatnsauðlindina, vatn í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi? Hvers vegna er lagt slíkt ofurkapp á þetta nú? Hvað rekur þar á eftir?

Sé farið yfir nefndarálitið sem hér er eru einmitt mjög ákveðnar athugasemdir við þetta framferði. Ég vil t.d. að við lítum á umsögn Umhverfisstofnunar, frá 131. löggjafarþingi, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vísað til erindis iðnaðarnefndar, dags. 10. febrúar sl., þar sem óskað er umsagnar Umhverfisstofnunar um frumvarp til vatnalaga, 413. mál.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að vatnalög, nr. 15 frá 1923, hafi um árabil verið helsta réttarheimildin hér á landi, og tiltölulega fáar breytingar hafi verið gerðar á lögunum á þeim tíma sem liðinn er frá setningu þeirra. Þá er sú skoðun sett fram í greinargerðinni að tímabært hafi verið að endurskoða lögin vegna þess að miklar tækniframfarir hafi orðið frá því að þau voru sett samhliða miklum samfélagsbreytingum. Tekið er dæmi um að vægi umhverfisverndar hafi aukist til muna frá því að lögin voru sett. Enn fremur er bent á að setja þurfi skýrar niður í löggjöf vægi einkaréttar, almannaréttar og opinberra hagsmuna með það í huga hve miklir hagsmunir eru af hagkvæmri nýtingu vatns og skynsamlegri stjórnun þessarar auðlindar.

Umhverfisstofnun telur að framlagt frumvarp til vatnalaga sé háð verulegum annmörkum þar sem það lýtur aðeins að hluta þeirra sjónarmiða sem sett eru fram í tilvísaðri greinargerð … Umhverfisstofnun bendir á, að frumvarpinu virðist að grunni til vera ætlað að líta á orkunýtingu vatns sem er mjög afmarkaður þáttur þessa málaflokks sem lýtur að vatni, vatnabúskap, nýtingu og verndun vatns.

Umhverfisstofnun telur á hinn bóginn að frumvarpið taki nánast ekkert til umhverfismála, „vatnafars og vatnabúskapar í víðasta skilningi þar sem lögð er áhersla á umhverfið og verndun þess“ eins og segir í greinargerðinni og er þar rakin sem ein meginástæða fyrir því að ráðist er í endurskoðun laganna.“

Þetta er umsögn um frumvarpið eins og það var lagt fram á síðasta þingi en það hefur í sjálfu sér ekki breytt um eðli síðan.

„Umhverfisstofnun telur að framlag frumvarps stangist á við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar Íslands og leiði til réttaróvissu á fjölmörgum sviðum umhverfismála, almannaréttar og vatnsnýtingar.“

Þessar athugasemdir gerir Umhverfisstofnun. Ég spyr aftur: Hvers vegna er ekki fyrst komið hér fram með frumvarp um vatnsvernd? Hvers vegna er alltaf farið aftan að hlutunum, og fyrst sett fram frumvarp um nýtingu á vatni sem er samkvæmt skilgreiningu núverandi iðnaðarráðherra nánast alfarið til virkjunar? Við upplifðum það t.d. í umræðunni fyrr í vetur varðandi frumvarp um virkjana- og rannsóknaleyfi að nýtingin ætti að hafa forgang í rannsóknum á vötnum umfram allt annað. Enn hefur engu verið svarað til um hvers vegna ekki er fyrst lagt fram vatnsverndarfrumvarp á þinginu.

Umsögn Umhverfisstofnunar frá 21. mars 2005 er um margt ágæt. Þar segir áfram:

„Að meginefni gerir Umhverfisstofnun athugasemdir við þrjá höfuðþætti frumvarpsins: ákvæði um einkaeignarrétt á vatni, eyðingu mikilvægra ákvæða um rétt og hagsmuni almennings sem er að finna í núgildandi lögum og um fyrirhugaða stöðu Orkustofnunar sem yfirstjórnar vatnsmála út fyrir skilgreint hlutverk stofnunarinnar …“

Megináherslur Umhverfisstofnunar lúta að því að ekki skuli tekið á raunverulegum umhverfisþáttum áður en farið væri að tala um nýtingu.

Það er líka fróðlegt að skoða umsögn frá Náttúrufræðistofnun varðandi frumvarpið. Bæði umsögn sem kom um frumvarpið í fyrra og aftur í ár. En í umsögn frá Náttúrufræðistofnun um þetta frumvarp, frá 2. mars 2005, segir með leyfi forseta:

„Vísað er til bréfs iðnaðarnefndar Alþingis dags. 10. febrúar 2005 þar sem óskað er umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands um frumvarp til vatnalaga sem iðnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi. Einnig er vísað til bréfs Náttúrufræðistofnunar til iðnaðarnefndar dags. 31. janúar sl. með umsögn stofnunarinnar um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, en þar er að finna atriði sem málið varða.

Í 2. gr. frumvarpsins er gildissvið fyrirhugaðra laga skilgreint sem „allt rennandi eða kyrrstætt vatn í hvaða formi sem er á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi“. Í 3. gr., 9. tölulið, frumvarps til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum er þessi víðtæka skilgreining á vatni felld undir hugtakið „jarðræn auðlind“. Þess vegna þarf að skoða þessi tvö frumvörp í samhengi.“ — Hér er bent á það.

„Í umsögn um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum lagðist Náttúrufræðistofnun eindregið gegn þeirri fyrirætlun að skilgreina vatn (í hvaða formi sem er) sem jarðræna auðlind og fela umsjón þess iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun. Vatn er í grundvallaratriðum frábrugðið öðrum jarðefnum að því leyti að það finnst náttúrulega í þrenns konar formi, þ.e. í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn. Stofnunin lagði áherslu á að þótt vatn geti verið orkugjafi, og þar með verslunarvara, þá sé það fyrst og fremst lífsnauðsynlegt efni öllum mönnum og öllum lífverum. Forgangsröðin varðandi umsjón með og vöktun vatns er þess vegna hollustuhættir, umhverfi og orkunýting en ekki öfugt.“

Áfram segir í umsögn Náttúrufræðistofnunar frá því í fyrravetur:

„Vatn er lífsnauðsynleg auðlind og arfleifð alls mannkyns og alls lífríkis á jörðinni.“ — Í þessu frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra er þessu sýnd fullkomin vanvirðing, þessu mikla hlutverki vatns, grundvallarhlutverki. — „Þessi hugsun er ráðandi í lagabálkum í nágrannalöndum okkar og kemur vel fram í vatnatilskipun ESB frá 2000 (2000/60/EC) sem segir efnislega að vatn sé ekki söluvara heldur sameiginlegur arfur mannkyns sem beri að varðveita, vernda og umgangast í samræmi við það. Nú er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar ESB hér á landi í heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu vatns. Náttúrufræðistofnun leggst gegn því að sértæk lög um eignarhald og umsýslu með vatni séu lögfest áður en fyrir liggur hvernig vatnatilskipunin verður innleidd.

Eignarrétti yfir vatni og öðrum jarðrænum auðlindum er gert hátt undir höfði í nefndum lagafrumvörpum. Nær væri, að mati Náttúrufræðistofnunar, að styrkja almannarétt gagnvart auðlindum landsins og þá sérstaklega gagnvart vatni í öllum þess formum (samanber t.d. ofangreint ákvæði í vatnatilskipun ESB og ákvæði 1. gr. laga 38/1990, um stjórn fiskveiða, um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar).“ — Þessi umsögn Náttúrufræðistofnunar er reyndar um frumvarpið eins og það var lagt fram í fyrra en á því hefur ekki orðið nein efnisleg breyting.

Hér segir áfram:

„Verði frumvarpið að lögum fær Orkustofnun umfangsmikið stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk með vatni sem eðlilegra væri að Umhverfisstofnun færi með samkvæmt áðurnefndri forgangsröð. Hlutverk Orkustofnunar er fyrst og fremst að hafa umsjón með orkulindum landsins og öflun vatnsorku og jarðhitaorku til iðnaðar- og heimilisnota. Orkustofnun hefur að mati Náttúrufræðistofnunar ekki nægilega þekkingu til að gæta réttmætra hollustu- og umhverfissjónarmiða við stjórnsýslu varðandi vernd og nýtingu vatns. Grunnvatn hefur verið umkomulaust í stjórnkerfinu fram að þessu og nauðsynlegt að setja lög um verndun þess og vöktun. Þar væri eðlilegt að fela Umhverfisstofnun stjórnsýsluhlutverkið en Náttúrufræðistofnun Íslands að annast nauðsynlega vöktun og rannsóknir á þessari mikilvægustu auðlind landsins.

Náttúrufræðistofnun Íslands leggur til að frumvarp þetta verði dregið til baka og að beðið verði með sértæka löggjöf um eignarhald og nýtingu vatns þar til fyrir liggur heildstæð rammalöggjöf um verndun og vöktun vatn í anda vatnatilskipunarinnar.“

Ég vek athygli á því að þetta er umsögn sem barst í fyrra um frumvarpið þá og hér er lagt til að fyrst liggi fyrir lög um verndun vatns, rammalöggjöf um verndun vatns. Það var líka til umtals í fyrra að það yrði gert en hvað er svo gert? Nú kemur aftur fram frumvarp til vatnalaga og enn bólar ekkert á verndunarfrumvarpinu.

Þegar við lesum, frú forseti, þessar umsagnir og síðan 1. gr. þessa lagafrumvarps þar sem stendur eins og ég vitnaði til áðan:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Dettur einhverjum í hug að forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar og hæstv. iðnaðarráðherra leggi sama skilning í það hvað sé skynsamleg vatnsnýting? Nei, það þarf enginn að láta sér detta það hug. Þessi orðanotkun í 1. gr. frumvarpsins er því að mínu viti bara fullkomlega ótæk. (Gripið fram í: Það er búið að breyta henni.) Hvernig er búið að breyta henni? (Gripið fram í: … í 2. mgr.) Þetta er í 1. mgr. (Gripið fram í: Þú ert að tala um markmiðsgreinina.) Ég er að tala um fyrsta markmiðið hér. Ég er með frumvarpið, er einhver breytingartillaga við þetta hjá þér? (Gripið fram í.) Nei, en liggja fyrir einhverjar breytingartillögur við 2. umr.? (Gripið fram í: Þetta breyttist á nýju þingi.) Ég er að vitna til frumvarpsins. (Gripið fram í: … umsagnirnar.) (Gripið fram í: Náttúrufræðistofnun lýsti því yfir að umsögnin frá í fyrra gilti, væri í fullu gildi.) En ég er hér að vitna til frumvarpsins og mér kemur á óvart ef hv. þingmaður hefur ekki lesið 1. gr. þess þar sem stendur þetta matskennda orðalag „skynsamleg vatnsnýting“. Hvaða lagatæknilega orðskýring er það? Og hér stendur áfram:

„Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“

Hvers konar lagatexti er þetta? Ef við berum þetta saman við umsagnir þessara stofnana og annarra sem eru að reyna að túlka markmið og tilgang þessara laga þá er himinn og haf á milli sjónarmiða þeirra og þess skilnings sem iðnaðarráðherra leggur í hvað sé skynsamlegt eða hvað sé ekki umfram það sem nauðsynlegt er.

Við vitum að sjónarmið iðnaðarráðherra er spurningin um hvernig hægt sé að virkja þetta. Eins og ég sagði áðan, frú forseti, þá ég er handviss um að ef ég væri iðnaðarráðherra legði ég allt annan skilning í hvað væri skynsamlegt og hvað mætti ekki gera umfram það sem nauðsynlegt væri heldur en núverandi iðnaðarráðherra. Í höndum þess ráðherra er þetta frumvarp algert geðþóttamál, sem mér finnst lagatæknilega ófært. Væri því fróðlegt að heyra hjá einhverjum lögspekingum sem hafa próf í lögfræði hvað þeim finnst um slíkt orðalag, að þetta sé fullkomið matsatriði. Þetta væri eins og ef einhver gerðist þjófur og það væri bara matskennt, hann ætlaði nú ekki að stela, greyið, eða: hann stal nú ekki umfram það sem nauðsynlegt var. Við gætum sett það hérna inn í textann: Hann stal ekki umfram það sem nauðsynlegt var. (Gripið fram í: Og með skynsamlegum hætti.) Og með skynsamlegum hætti, já. Svo ættum við að dæma hann eftir því. Ja, þetta var tiltölulega skynsamlegur þjófnaður og hann stal ekki miklu umfram það sem nauðsynlegt var. Hvernig væri hægt að dæma mann fyrir þjófnað á slíkum lagaforsendum? En þetta er nákvæmlega það sem stendur í þessum texta. Iðnaðarráðherra getur framið þjófnað gagnvart náttúrunni á þessum forsendum, farið fram með yfirgang gagnvart náttúrunni á þeim forsendum að hún steli ekki, taki ekki, rústi ekki eða raski ekki vatni og farvegi þess, lífríki eða vistkerfum, umfram það sem að hennar mati er nauðsynlegt. Það er það sem stendur í þessu frumvarpi. Hvers konar lagatæknileg orð eru þetta, frú forseti?

Eins og þetta frumvarp liggur fyrir mega menn bara þakka fyrir að geta kallað það til baka til að verða sér ekki lagatæknilega til skammar ef frumvarpið yrði að lögum. Ég vildi heyra hvernig dómari færi að því að dæma brot á þessum lögum, að dæma ráðherra fyrir brot á þessum lögum, því að sá ráðherra mundi auðvitað segja: Nei, nei, ég gerði ekkert umfram það sem nauðsynlegt var. Hvernig færu menn að því að sækja rétt sinn gagnvart lögum sem hafa slíka orðatúlkun? Mér þætti fróðlegt að heyra um það frá einhverjum lögspekingum. (Gripið fram í.) Hann stal ekki meiru en nauðsynlegt var, hann stal bara því sem skynsamlegt var. Við hljótum að taka það til greina í þjófnaði eða yfirgangi gagnvart náttúrunni.

Frú forseti. Ég hlýt þess vegna undir lok ræðu minnar að taka undir þau orð sem ég vitnaði til áður í leiðara Morgunblaðsins frá 1. nóvember sl. þar sem eftirfarandi er afdráttarlaust lagt til:

„Nú stendur yfir nefndarstarf um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rétt er að við þá endurskoðun verði áskorunin, sem kemur fram í yfirlýsingu félagasamtakanna fyrir helgi um vatn fyrir alla, tekin til alvarlegrar skoðunar. Þótt á Íslandi sé gnægð vatns verða Íslendingar að sýna að þeir kunni að umgangast þessa mikilvægu auðlind af virðingu og alúð.“

Áður sagði í leiðara þessum:

„En það hlýtur einnig að vera mikið álitamál hvort hægt sé að einkavæða auðlind á borð við vatn og má yfirfæra þá umræðu yfir á umræðuna um auðlindir hafsins og spyrja hvort ekki sé rétt að líta á vatn sem þjóðareign.“

Þessi áskorun er í leiðara Morgunblaðsins. Og þrátt fyrir að Morgunblaðið hafi ekki alltaf rétt fyrir sér, eins og ég hef áður sagt, þá eru Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Morgunblaðið sammála hér um að þessu máli eigi að fresta og taka inn í umræðuna um stjórnarskrána hver verði réttur til vatns og setja þar inn. Þess vegna leggjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og raunar öll stjórnarandstaðan, til að þessu máli verði vísað frá. Ég held að það væri sannarlega öllum fyrir bestu og ekki síst upphafsmönnum þessa frumvarps, iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og öðrum framsóknarþingmönnum og ráðherrum sem hér ganga svo þvert gegn uppruna síns flokks sem var félagshyggja, samhygð og umhyggja fyrir náttúrunni. En nú skal böðlast á henni.

Við skulum vísa þessu máli frá, frú forseti, og ef nauðsyn krefur kem ég hér með aðra ræðu til að fylgja þeirri kröfu eftir.