132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Framtíð Listdansskóla Íslands.

[10:58]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það eru oft æðiskondnar umræður sem verða hér og ég vil taka það fram að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var mjög „loyal“ í sinni umræðu áðan gagnvart ráðherra. En síðan komu hér aðrir þingmenn og hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, fór hörðum orðum um hæstv. menntamálaráðherra sem hefur þó sannarlega sýnt að hún er að vinna að mörgum góðum verkefnum í sínu ráðuneyti. Hæstv. menntamálaráðherra hefur aldrei nokkurn tíma skorast undan því að koma í umræðu á hv. Alþingi þegar beðið hefur verið um það. Það náðist ekki í hana í morgun og hún er örugglega löglega forfölluð.

Að heyra í hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, hvernig hann gasprar hér úr þessum ræðustól hvern einasta dag talandi um lögfræðinám á Íslandi. Er það ekki lögmálið um framboð og eftirspurn sem skýrir fjölgun í lögfræðinámi? (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn stýrir því ekki. Sjálfstæðisflokkurinn styður við þá menntun sem fólk vill. (Gripið fram í: … framboð …) Það er mikið framboð. Hvar í heiminum haldið þið í 300 þúsund manna þjóðfélagi sé eins mikið framboð af námi og hér á Íslandi? (Gripið fram í.) Hvergi nokkurs staðar. Hv. þingmaður getur stofnað sinn eigin fiskvinnsluskóla og reynt að ná sér í nemendur. Ég hvet hann til þess og ég held að hann væri ágætur í því. (SigurjÞ: ... Sjálfstæðisflokkurinn á að gera það.) Sjálfstæðisflokkurinn gerir það ekki, hann skapar umhverfið, lagaumhverfið og eðlilegt umhverfi í þjóðfélaginu fyrir verslun og viðskipti og ekki síst fyrir skólana. Ég vil benda hv. þingmanni á að það er nýbúið að stofna glæsilegan skóla, landbúnaðarháskóla. Það eru glæsilegir skólar um allt land og ekki síst Háskólinn á Akureyri sem hefur gert þann bæ miklu betri en hann var áður.