132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[11:20]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það tengist nú ekki því efni sem ég ætla að ræða hér. En spurningin sem ég varpaði fram til hv. þm. Ögmundar Jónassonar þegar hann greindi frá því glaður í bragði að hann og félagar hans sætu í ríkisstjórn í Noregi var þessi: Voruð þið ekki að senda þotur til Afganistans? Muni ég rétt var það einmitt ríkisstjórn sem VG á aðild að í Noregi sem hefur tekið ákvörðun um að senda eina af þremur þotuherdeildum Norðmanna til Afganistans? Það hlýtur þá að vera með samþykki ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Noregi.

En það er nú ekki efni málsins sem ég ætlaði að ræða hér en get þess jafnframt að það hefur verið mér mikil ánægja að taka þátt í starfi þingmannsambands NATO. Þar sitja líka málvinir hv. þingmanns, Rússar og fleiri góðir menn. Fátt sem ég hef tekið þátt í í alþjóðlegu samstarfi á vegum þingsins hefur verið jafnupplýsandi og fróðlegt og einmitt það.

Frú forseti. Þetta var nú fyrir utan það sem ég ætlaði að ræða. Fyrir nokkrum missirum tók ég hér upp í þinginu hvaða möguleika Íslendingar ættu til að styðja óskir að minnsta kosti sumra Færeyinga til aukinna áhrifa í norrænu samstarfi. Það gladdi mig þess vegna þegar hæstv. ráðherra sagði hérna áðan að skýrslu væri að vænta um það mál síðar á þessu ári. Ég vissi ekki að slík vinna væri í gangi og hafði svo sem ekkert lagt mig frekar eftir því. En þetta vekur eftirtekt mína og forvitni. Ég er þeirrar skoðunar að þau svæði sem hæstv. ráðherra kallaði sjálfsstjórnarsvæðin á Norðurlöndum eigi að hefja mjög til vegs og virðingar. Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri sem gamalli sjálfstæðisbaráttuþjóð að ýta með öllum hætti eða aðstoða eftir megni Færeyinga til að fá aukna stjórn fyrir sínum málum. Við getum það með margvíslegum hætti, t.d. með því að efla samstarf við þá og með því að veita þeim ráðgjöf og líka þiggja af þeim ráðgjöf á ýmsum sviðum.

Ég er t.d. þeirrar skoðunar að ákaflega miklu máli skipti fyrir okkur Íslendinga að hafa gott samstarf við Færeyinga varðandi þróun fiskveiða á næstu árum. Þá er ég sérstaklega að hugsa til þess að norsk-íslenski síldarstofninn er að stóraukast. Stærsti árgangur er að koma þar fram sem sést hefur, stærri en árgangurinn 1953 sem var uppistaðan að hinu mikla síldarævintýri sem var á 7. áratugnum. En mig fýsir að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún gæti greint okkur frá því með hvaða hætti menn sjá fyrir sér framtíð eða stöðu Færeyinga í norrænu samstarfi og hvort séu komnar einhverjar handtækar tillögur þar að lútandi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það ekki þannig að Íslendingar styðja þær óskir sem Færeyingar sjálfir hafa flutt fyrir auknum áhrifum sínum innan hins norræna samstarfs?

Ég vil svo segja það alveg skýrt að ég tel, hvað sem mönnum finnst annars staðar á Norðurlöndum, tek svo til orða, frú forseti, vegna þess að ég hjó eftir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson leiddi getum að því að á Norðurlöndum væri dvínandi áhugi á norrænu samstarfi. Nú er það svo, þó að ég hafi tekið drjúgan þátt í alþjóðlegu samstarfi fyrir Alþingi, hef ég aldrei verið á norrænum vettvangi nema sem umhverfisráðherra einu sinni. Ég get ekki dæmt um þessa þróun. Ég kemst hins vegar ekki hjá því að finna sem einn af forustumönnum í Samfylkingunni og í nokkrum tengslum við norræna kollega okkar jafnaðarmanna, þann mikla áhuga sem þeir hafa á Íslandi og þann mikla vilja sem þeir hafa greinilega til að skapa okkur stöðu. Við þurfum á því að halda.

Eins og hæstv. ráðherra gat réttilega um í máli sínu áðan hefur norrænt samstarf að töluverðu leyti þróast í átt að því að verða samræmingarmiðstöð fyrir stefnu Norðurlandanna gagnvart Evrópusambandinu. Við erum í vaxandi mæli háð Evrópusambandinu og það kom fram hjá hæstv. ráðherra að norrænu ráðherrarnir leggja sín ráð bæði fyrir og eftir mikilvæga fundi innan Evrópusambandsins. Ég hef orðið þess áskynja í starfi mínu að þessi farvegur inn í höfuðstöðvar sambandsins eru mjög mikilvægur. Hann er reyndar eitt af því sem gerir það að verkum að okkur tekst enn að lifa með EES-samninginn þrátt fyrir heldur óhagstæða þróun og innra gangvirki Evrópusambandsins varðandi möguleika okkar til að hafa áhrif á ákvarðanir. Íslendingar eru snillingar að finna leiðir fram hjá vandamálum og finna leiðir sem eru óhefðbundnar og kannski ekki klappaðar í stein laganna. En við höfum t.d. með ýmsum óformlegum hætti getað haft töluvert rík áhrif á þróun ýmissa mála er varða beinlínis þrönga hagsmuni Íslendinga í gegnum þetta. Það ber að þakka.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hins vegar eftir því hvort hún telji ekki að þróunin sé með þeim hætti að hugsanlega þyrftum við frekar að slá tjöldum okkar innan Evrópusambandsins en utan. Ég spyr nú að gefnu tilefni. Fram hefur komið hér á allra síðustu dögum að einstakir ráðherrar í ríkisstjórninni tala um það opinskátt og á merkum heimasíðum sínum að íslenska myntin sé svo veikburða og hún sé svo flöktandi og sveiflukennd að við hana verði hugsanlega ekki búið til frambúðar. Þess vegna komi til greina að taka upp hinn sameiginlega gjaldmiðil evruna eða gerast aðili að myntbandalaginu án þess að ganga í Evrópusambandið. Ég hef ekki enn þá hitt nokkurn einasta hagfræðing sem telur þetta mögulegt. En ég ætla ekki að deila við hæstv. ráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, sem ekki er hér stödd, sem lét þetta út úr sér.

En mig langar af þessu tilefni að spyrja hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna um afstöðu hennar til þessa. Telur hún að það sé hugsanlega mögulegt að efla samstarf Norðurlandanna um að Íslendingar færu þá leið sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur talað um? Að við gerðumst aðilar að myntbandalaginu og færðumst þar með enn nær Norðurlöndunum og hefðum sameiginlega þá enn meiri slagkraft inn í þessa sameiginlegu ákvarðanamótun innan sambandsins sem fer fram m.a. fyrir okkar hönd.

Þriðja atriðið sem mig langar til að drepa á er samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Ég átti fyrir hönd íslenska þingsins töluverð samskipti við þau lönd í gegnum EFTA-nefndina þegar ég sat þar og fór m.a. með þáverandi formanni EFTA-nefndarinnar, hv. þm. Gunnari Birgissyni, í ferð um öll þau lönd og ræddi við utanríkismálanefndir þeirra þriggja þinga sem þar eru. Það var eftirtektarvert að í öllum þessum löndum virtist vera mjög ríkur vilji til að flétta sig enn frekar saman við Norðurlöndin heldur en hingað til hefur verið. Í samtölum okkar við utanríkismálanefndir og viðskiptanefndir allra þessara þriggja þinga kom fram ákveðinn vilji til þess að Eystrasaltslöndin yrðu með formlegum hætti hluti af Norðurlöndunum. Þau tækju með öðrum orðum þátt í starfi Norðurlandaráðs, ég ætti frekar að orða það þannig, að þau yrðu formlegur hluti af Norðurlandaráði. Mér finnst þetta vera jákvæð og framsýn hugsun.

Ég horfi til þess að Íslendingar munu einhvern tíma í framtíðinni ganga í Evrópusambandið. Ég veit að þetta gleður ekki hv. þm. Ögmund Jónasson, sem af einhvers konar guðfræðilegri innlifun er á móti Evrópusambandinu. En ég er nú þeirrar skoðunar, hvort sem það verður innan skamms tíma eða langs tíma, að Íslendingar muni ganga í Evrópusambandið. Í öllu falli er rétt af íslenskum stjórnvöldum að gera ráð fyrir að af því geti orðið. Við þurfum þess vegna að treysta stöðu okkar eins og hægt er með tilliti til þess, ef af því yrði.

Í rannsóknum, m.a. íslenskra fræðimanna, hefur komið glöggt fram að smáríki sem vinna saman og hjálpa hvert öðru eru ansi ötul og árangursrík í að verja og ná fram hagsmunum hvers annars. Norðurlöndin öll má væntanlega flokka sem smáríki. Saman eru við hins vegar giska stór. En þegar við mundi bætast náin tengsl við Eystrasaltsríkin líka, þegar þessi lönd eru þar með orðin átta samtals, ef þau væru öll saman innan Evrópusambandsins yrðu þau farin að slaga að atkvæðatölu við það borð þar sem ákvörðunum er ráðið til lykta upp í stærstu ríki Evrópusambandsins, þá er það alveg ljóst að við munum hafa mikið afl.

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda hvernig umræður eiga sér stað meðal ráðherranna varðandi þessar óskir sem að minnsta kosti með óformlegum hætti koma títt fram frá Eystrasaltsríkjunum gagnvart okkur þingmönnum. Í öðru lagi, hvert er viðhorf hennar til þess? Í þriðja lagi, þó að ég geri mér algjörlega grein fyrir að hæstv. ráðherra er mér ósammála um Evrópusambandið, hvort hún teldi ekki að það fælist í því ákveðinn undirbúningur að inngöngu Íslands ef af henni yrði að treysta böndin við Eystrasaltið með þeim hætti að ríkin þrjú sem þar yrðu mundu í framtíðinni verða partur af hinu formlega Norðurlandaráði.