132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[11:46]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu um störf Norrænu ráðherranefndarinnar á síðasta ári, 2005. Þetta er sú fyrsta af mörgum skýrslum sem við ætlum að taka til umfjöllunar á hinu háa Alþingi í dag. Sumar af skýrslunum sem við munum ræða seinna í dag koma kannski á vissan hátt inn á hluta af því efni sem er í þeirri skýrslu sem við tölum um núna. En nóg um það að sinni.

Skýrslan sem hér liggur fyrir er allítarleg og ágætisplagg. Þetta er náttúrlega útlistun á því sem hefur verið gert og lítið í raun um það að hér sé að finna einhvers konar pólitískar stefnumótanir eða annað þess háttar. Þó getur maður reynt að lesa hana og skoða á milli línanna og að sjálfsögðu er komið inn á marga þætti sem vekja mann til nánari umhugsunar er varða norrænt samstarf. Ég hef t.d. rekið augun í kaflann um byggðamál, sem er á síðu 33, þar sem kemur fram að gerðar hafi verið ákveðnar breytingar frá síðustu áramótum. Byggðamálin eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg fyrir Norðurlöndin öll, kannski ekki síst fyrir lönd eins og Ísland, Noreg, Svíþjóð og Finnland, sem eru víðfeðm lönd, stór lönd miðað við mannfjölda og eiga það öll sameiginlegt að þurfa að glíma við vandamál ef svo má segja á landsbyggðinni, þurfa að glíma við það að reyna að viðhalda byggð á stöðum sem eiga kannski af mörgum ástæðum undir högg að sækja.

Ég tek eftir því, virðulegi forseti, að þær breytingar sem voru gerðar í upphafi þessa árs eru þær að sérstök ráðherranefnd um byggðamál hefur núna hætt sem slík sem sjálfstæð ráðherranefnd og búið að færa þann málaflokk ásamt atvinnumálum og orkumálum undir eina ráðherranefnd. Mér datt í hug hvort það gæti verið að þetta væri að undirlagi okkar Íslendinga því að eins og kunnugt er heyra byggðamál undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Íslandi, atvinnumál gera það að sjálfsögðu hér á landi líka og orkumál einnig. Þetta er svolítið keimlíkt. Mér fannst þetta svolítið áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að við á Íslandi, a.m.k. stjórnarandstaðan, höfum fengið okkur fullsödd af því að byggðamálin séu undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og viljum færa þau aftur undir embætti forsætisráðuneytisins. Það væri áhugavert að fá að heyra svör við því hjá hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda hvort það hafi verið að undirlagi okkar Íslendinga að gera þessar breytingar.

Ég sé þó að norræna embættismannanefndin mun starfa áfram um byggðamál og er kannski ekki nema gott eitt um það að segja. Varðandi byggðamál vekur það athygli mína að hér er einmitt rætt um svæðasamstarf, Vestur-Norðurlönd og hlutverk Norðurlanda í ESB. Hvað varðar svæðasamstarf hef ég oft reynt, þegar ég hef verið að skoða og hugleiða byggðamál á Íslandi, að horfa til nágrannalandanna og skoða hvernig nágrannar okkar haga byggðastefnu sinni, byggðapólitík sinni, til að mynda þeir sem kannski næst okkur standa af þeim löndum sem ég nefndi áðan, Noreg, Svíþjóð og Finnland, þ.e. Norðmenn. Ég hygg að við Íslendingar ættum að leggja meiri áherslu á að fylgjast með því sem þessi lönd eru að gera og þá sérstaklega Norðmenn, hvernig þeir haga pólitík sinni og útfærslu á henni. Ég sakna þess oft í umræðunni á Íslandi, kannski einmitt í upplýsingagjöf til Íslendinga um hvað nágrannar okkar annars staðar á Norðurlöndunum eru að gera, hvaða aðferðum þeir beita.

Ég hef verið að lesa skýrslur og kynna mér efni um það hver reynsla þeirra hefur til að mynda verið af því að flytja opinberar stofnanir út á land. Það verður að segjast eins og er að t.d. Norðmenn eru komnir miklu lengra en við í því og ég var síðast fyrir tveim vikum að lesa norska skýrslu þar sem var tekin saman reynsla Norðmanna af því að færa opinber störf út á land. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að sú skýrsla var fyrir margt mjög áhugaverð því að hún bæði útlistaði reynsluna af því að gera þetta en benti líka á ýmis vandkvæði sem hefðu skapast við það að fara út í svona aðgerðir. Ég hygg að við Íslendingar gætum mikið lært af því að skoða reynslu nágranna okkar í þessum efnum til að forðast að lenda í sömu vandamálum, gera sömu mistök ef svo má segja og þeir hafa verið að gera þegar þetta hefur verið til umfjöllunar. Ég veit svo sem ekki hvort íslenskir embættismenn sem starfa innan Norðurlanda hafa skoðað þetta svo mjög en það væri gaman og áhugavert að fá að heyra eitthvað um það frá hæstv. ráðherra, ekki bara varðandi flutning á opinberum störfum heldur ýmsa aðra þætti varðandi byggðastefnu, byggðaáætlanir og útfærslu á þeim í nágrannalöndunum. Þetta væri kannski meira að segja efni í einhvers konar ráðstefnu eða semínar dagpart eða einn dag, að fjalla um þessa hluti á Íslandi þar sem við Íslendingar fengjum að heyra það á íslensku hvernig nágrannar okkar hafa farið í að leysa þessi mál. Ég tel að byggðamálin séu í raun eitt stærsta pólitíska viðfangsefni á Íslandi og er mikill áhugamaður um að við reynum að viðhalda sem best byggð í landinu okkar til framtíðar.

Ég hef rekið augun í fleiri þætti í skýrslunni. Ég sé að Danir hafa farið með formennsku í byggðamálunum á árinu 2005 og eins og ég sagði áðan hafa þeir lagt áherslu á Vestur-Norðurlönd. Ég ætla svo sem ekki að koma svo mikið inn á það hér og nú, við munum síðar í dag ræða um skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og ég ætla að geyma það sem ég hef um það að segja og vestnorræna samvinnu, sem ég tel mjög mikilvæga, ekki síst eftir að þrjár af Norðurlandaþjóðunum eru nú komnar inn í Evrópusambandið, að meiri áhersla verði lögð á samstarf Vestur-Norðurlanda, en meira um það síðar, virðulegi forseti. Einnig getum við skoðað þá hlutverk Norðurlanda í Evrópusambandinu.

Við skulum líta á annan þátt — ég sé að tíminn líður hratt — sem eru málefni er varða norðursvæðin. Norræna ráðherranefndin er með ágæta heimasíðu þar sem má finna oft og tíðum athyglisverðar fréttir af stjórnmálum Norðurlanda og því sem er að gerast innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Nú er það svo að Norðmenn hafa formennsku í þessum efnum. Ég tók eftir því um daginn að fundur hafi verið haldinn í Kaupmannahöfn þar sem norrænu samstarfsráðherrarnir funduðu í fyrsta sinn og ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, hafi þá verið á þeim fundi. Það barst einmitt frétt af þeim fundi að Heidi Grande Røys, sá norski ráðherra sem nú er formaður, hefði komið inn á hvað Norðmenn legðu áherslu á að ætti að verða hlutverk Norðurlanda á norðursvæðum Evrópu. Þar kemur fram að Norðmenn leggja áherslu á að horfa til norðurs, ef svo má segja, líta til norðursvæðanna. Þá erum við í rauninni að tala um svæðin norður af Íslandi, norður af Noregi, ég vil a.m.k. túlka það þannig. Þarna eru nefnilega mjög stór pólitísk úrlausnarefni sem bíða okkar, úrlausnarefni sem gætu hugsanlega ógnað norrænu samstarfi í framtíðinni. Hér er ég að sjálfsögðu að tala um Svalbarðasvæðið og auðlindanýtingu á Svalbarðasvæðinu. Þarna er óleyst deila.

Mér sýnist að Norðmenn séu nú markvisst að reyna að ganga frá lausum endum í þessu máli eins vel og þeir geta, sennilega til að búa í haginn undir það að leggja þessi svæði undir sig. Í síðasta mánuði komust Norðmenn að samkomulagi við Dani um að skipta á milli sín hafsvæðinu milli Svalbarða og Grænlands. Íslendingar hafa ekki átt neina aðkomu að því máli þó að þarna sé um að ræða hafsvæði norður af Íslandi. Norðmenn og Danir eru núna búnir að skipta á milli sín mjög stóru svæði sem nær yfir 150 þúsund ferkílómetra, hvorki meira né minna, landgrunn og hafsvæði á milli Svalbarða og Grænlands. Þetta er að mér sýnist eins konar miðlínusamkomulag sem þeir hafa þarna gengið frá.

Eftir liggur, virðulegi forseti, stóra málið sem er deilan um yfirráðin yfir Svalbarðasvæðinu og Svalbarða í raun og veru í heild sinni. Þarna held ég, og hef sagt það margoft í þessum ræðustól, að liggi kannski eitt stærsta utanríkispólitíska úrlausnarefni fyrir ekki bara Norðmenn og Íslendinga heldur Norðurlandaþjóðirnar í heild sinni og þá væri ef til vill hægt að nota þennan vettvang, norrænt samstarf til að reyna að finna einhverja lausn á því máli. Norðmenn hafa undanfarið verið með yfirlýsingar um að réttast sé að taka allt hafsvæðið út að miðlínum eða 200 sjómílum út frá eyjaklasanum Svalbarða og vilja lýsa því yfir að það sé í raun og veru ekkert annað en norsk efnahagslögsaga. Þetta er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál, stórmál þjóðréttarlegs og hafréttarlegs eðlis og mjög alvarlegt mál ef Norðmenn eiga að komast upp með að gera þetta.

Við Íslendingar höfum margoft lýst því yfir að við séum ósammála þeirri túlkun Norðmanna að þeir hafi rétt til þess að lýsa yfir svokölluðu fiskverndarsvæði umhverfis Svalbarða. Sú deila er nú í skoðun. Ég veit ekki alveg hvar það mál er statt núna hjá íslenskum stjórnvöldum, þau voru að láta kanna það hver væri réttarlega staða okkar í þessum efnum. Ég er með fyrirspurn til munnlegs svars fyrirliggjandi núna til hæstv. utanríkisráðherra sem ég vænti að hann geti svarað á næstunni. Þó virðist sú vinna vera komin þó nokkuð langt á veg, a.m.k. svo langt á veg að ekki var annað að sjá í norskum fjölmiðlum fyrir ekki svo mörgum dögum en að Landssamband íslenskra útvegsmanna væri búið að lesa einhverja skýrslu sem sérfræðingur hefði verið að vinna fyrir íslensk stjórnvöld, sem mér skilst að sé nánast ríkisleyndarmál, a.m.k. hefur mér heyrst það á ræðum utanríkisráðherra þegar ég hef verið að spyrja eftir þessari skýrslu þegar við höfum verið að ræða skýrslu utanríkisráðherra hér í þinginu tvö undanfarin ár. En þá virðist það þó vera að Landssamband íslenskra útvegsmanna hafi komist í þessa skýrslu ef marka má yfirlýsingar framkvæmdastjóra LÍÚ í Fiskaren nýverið þar sem hann lýsti því yfir að staða Íslendinga í þessu máli væri mjög sterk og ekki annað að sjá en að hann hefði komist yfir þessi gögn. Það er í sjálfu sér ámælisvert ef rétt er að hagsmunasamtök úti í bæ skuli komast yfir svona upplýsingar, ég tala nú ekki um áður en sjálft þingið hefur fengið að vita hvar fiskur liggur þarna undir steini, ef svo má segja.

Virðulegi forseti. Það mun að sjálfsögðu gefast tækifæri til að ræða þetta við hæstv. utanríkisráðherra þegar hann svarar fyrirspurn minni. Ég sé að tími minn er á þrotum. Ég reikna með að ég þurfi að koma hér aftur upp öðru sinni til að halda áfram að ræða hafréttarmálin, til að ræða um Svalbarðamálið og einnig til að ræða um sjávarútvegsmálin sem er kafli á blaðsíðu 45.

Ég verð að segja norrænu samstarfi til hróss að einmitt í sjávarútvegsmálum hefur Norræna ráðherranefndin staðið fyrir að mörgu leyti mjög góðu og lofsverðu starfi sem ég hygg að hafi skilað okkur Íslendingum miklu, ekki bara Íslendingum heldur öðrum Norðurlandaþjóðum. Ég mun ræða frekar um það í seinni ræðu minni, virðulegi forseti.