132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[12:01]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Dagurinn í dag er lagður undir umræður um skýrslur alþjóðanefnda og á vaðið ríður hæstv. samstarfsráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, með skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Að þessu sinni á ég það erindi upp í þennan ræðustól að þakka samstarfsráðherra kærlega fyrir mjög góða skýrslu sem hún hefur lagt hér fram um störf Norrænu ráðherranefndarinnar og fyrir ágæta ræðu hennar þar sem hún dró fram helstu áherslur í norræna samstarfinu og jafnframt þær breytingar sem standa fyrir dyrum innan nefndarinnar.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er verið að fækka ráðherranefndum. Það er verið að gera töluvert miklar breytingar þar á. Hún nefndi líka aukna aðkomu Norðurlandaráðs að fjárlagagerðinni og ég ætla að taka undir það með ráðherranum að áherslurnar í þessu öllu saman, af því að menn tala stundum neikvætt um norrænt samstarf, Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina, eru á því að einfalda þetta kerfi, auka sveigjanleikann, nýta fjármagn betur, enn betur en menn hafa þó gert, og eins nýta tíma þátttakenda. Auðvitað hafa þessar breytingar ekki verið sársaukalausar. Við þekkjum það vel þegar svona skipulagsbreytingar eru gerðar, hvort sem það er á norrænum vettvangi eða bara hér innan lands, að það eru alltaf einhver átök um það. En almennt vil ég halda því fram að mikil ánægja sé með þessar breytingar og innan Norðurlandaráðs er stuðningur við þær þó að í einstökum málaflokkum hafi menn, eins og hvað varðar neytendamálin og núna varðandi menningarsamstarfið, kannski fleiri spurningar en svör.

Það sem vakti sérstaklega áhuga minn og athygli í þessari umræðu — af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson beindi mörgum spurningum til hæstv. samstarfsráðherra, Sigríðar Önnu Þórðardóttur, um framtíð norræna samstarfsins með tilliti til aðildar hinna norrænu þjóðanna að Evrópusambandinu, varpaði þeirri spurningu fram hvort norræna samstarfinu stæði ógn af því hve þungamiðjan væri orðin mikil í Brussel og spurði í rauninni hvert stefndi. Það sem gladdi mig var að finna þennan mikla áhuga hér í þingsal hjá málsmetandi forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna á þessu samstarfi. Það ber þess glöggt merki að þeir hv. þingmenn, forustumenn allra stjórnarandstöðuflokkanna, hafa sýnt norrænu samstarfi mikinn áhuga og borið umhyggju fyrir því. Það er sérstakt gleðiefni og gefur okkur ástæðu til að ætla að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af norrænu samstarfi til lengri tíma litið.

Þá finnst mér ástæða til að geta þess líka að uppi eru ýmsar hugmyndir um breytingar á starfinu hjá Norðurlandaráði og meðal annars sú að mikil áhersla er nú lögð á að fá á næsta Norðurlandaráðsþingi sem flesta formenn eða aðra forustumenn stjórnarandstöðuflokka á Norðurlöndunum, ekki bara til að taka þátt í þinginu heldur líka til að taka virkan þátt í umræðunni sem þar fer fram. Ég ætla að þeim hafi þá þegar verið boðið til þessa fundar tímanlega til að tryggja að þeir forgangsraði dagskrá sinni þannig.

Mig langaði að nefna annað í þessu samhengi en það er það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, minnir mig, vakti máls á, það var sjálfstæðari staða Færeyinga eða sjálfstjórnarsvæðanna að Norðurlandaráði. Nú háttar svo til að við í Íslandsdeildinni erum sjö en öll hin Norðurlöndin eiga 20 fulltrúa á Norðurlandaráðsþingi og Færeyingar og Grænlendingar eiga tvo fulltrúa hvor af 20 manna sendinefnd Dana. Sama er með Álandseyjarnar. Þeir eiga þar sína tvo fulltrúa af þeirri stóru sendinefnd. Færeyingar hafa óskað eftir sjálfstæðari stöðu og ef ég svara af hálfu okkar sem sitjum í Íslandsdeild Norðurlandaráðsins þá höfum við stutt það mjög að það verði skoðað gaumgæfilega. En það háttar svo til að áður en menn fara að taka pólitískar ákvarðanir um þetta verður að horfa til þess að í byrjun er fyrst og fremst um lagalegt úrlausnarefni að ræða því þarna þarf annars vegar að skoða dönsku stjórnarskrána og svo hins vegar Helsinki-sáttmálann. Sú vinna er nú í höndum lögspekinga í ágætu samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Þegar niðurstaða er komin í það mál setjast menn niður þar sem Danir eru náttúrlega prímus mótor og taka þá ákvarðanir og hafa skoðanir á því hvernig styrkja megi sjálfstæða aðild sjálfstjórnarsvæðanna, hugsanlega allra, að Norðurlandaráði og auka vægi þeirra í samstarfinu.

Frú forseti. Orð varaformanns Samfylkingarinnar, að mig minnir, um Eystrasaltsþjóðirnar og aukna aðkomu þeirra að starfi Norðurlandaráðs vöktu líka athygli mína. Fyrir ekki svo löngu höfðu sumir jafnvel hugmyndir í þá veru að Eystrasaltsþjóðirnar yrðu aðilar að Norðurlandaráði og stæðu þar jafnfætis Norðurlandaþjóðunum fimm. Ákveðið skref var stigið og þeir eru núna aðilar að Norræna fjárfestingarbankanum. Mikil ánægja er með það og það hefur eflt bankann og starfsemi hans. En ég er ekki viss um að Eystrasaltsþjóðirnar hafi svo mikinn áhuga á því að koma nánar inn í starf Norðurlandaráðs þó þær hafi vænti ég áfram mikinn áhuga á nánu samstarfi við norrænu þjóðirnar. Nýjar þjóðir í Evrópusambandinu þurfa að einbeita sér að því að byggja upp stjórnsýslu sína, flokkakerfi sitt og ýmislegt fleira. En ég held að það sé ríkur vilji innan Norðurlandaráðs, eins og innan Norrænu ráðherranefndarinnar, til að hafa mjög gott samstarf og öflugt einmitt við þessar þjóðir. En þar sem tíu ár og rúmlega það eru nú liðin frá því að þær fengu sjálfstæði og þær eru orðnar aðili að Evrópusamstarfinu þá er líka vaxandi áhugi og samstaða um að færa áherslur í norrænu samstarfi meira til Rússlands frá Eystrasaltsþjóðunum og þess sjást glögglega merki í starfsáætlun Norðurlandaráðs.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vék sérstaklega að vestnorræna samstarfinu. Ég vil árétta að við Íslendingar og Norðmenn höfum sérstaklega reynt að draga þann vagn innan norræna samstarfsins sem ákveðið mótvægi gegn þeim áherslum sem hafa verið hjá Svíum og Finnum á samstarfi við Eystrasaltsþjóðirnar. Það er sérstök áætlun um samstarf í vestur sem upphaflega var hleypt af stað fyrir tilstilli miðjuhópsins í Norðurlandaráði og hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason var sá sem mest og best dró þann vagn í upphafi. En við reynum að halda þessu jafnvægi milli samstarfsins í austur og vestur. Íslenskir fulltrúar í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, ekki síst sem forseti á síðasta ári, hafa sérstaklega lagt áherslu á að draga þessa tvo vagna, annars vegar að halda á lofti gildi og áherslum samstarfsins í vestur og hins vegar höfum við stutt að sjálfsstjórnarsvæðin séu skoðuð sérstaklega og aukin aðild þeirra að Norðurlandaráði.

En eins og ég, frú forseti, sagði og segi aftur: Hann gleður mig alveg sérstaklega hinn mikli áhugi forustumanna stjórnarandstöðuflokkanna á norrænu samstarfi, og það veit á gott. Þær skipulagsbreytingar sem hæstv. ráðherra greindi okkur frá hér áðan eru ætlaðar til að tryggja aukna dýnamík í starfi Norðurlandaráðs. Það sýnir okkur að það er alls ekki rétt, sem haldið hefur verið fram, að stöðnun sé í þeirri starfsemi, hvorki hjá Norrænu ráðherranefndinni né innan Norðurlandaráðs. Ég held að augu fleiri og fleiri séu að opnast fyrir því að þetta skiptir okkur óskaplega miklu máli í okkar alþjóðastarfi yfirleitt, ekki síst með tilliti til starfsins innan Evrópusambandsins.

Þar vil ég taka undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að mig minnir, ég eigna honum þau orð að minnsta kosti, að það skiptir afskaplega miklu máli fyrir smáþjóðir að starfa saman innan Evrópusamstarfsins og innan stærri heildar í það heila.