132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[13:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það voru örfá atriði sem ég kom ekki að tímans vegna í fyrri ræðu minni um skýrslu Sigríðar Önnu Þórðardóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda, um störf Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2005. Það er í fyrsta lagi í framhaldi af því sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom hér inn á um rannsóknir á norðurslóðum þar sem hann minntist á umræður og hugmyndir sem hafa verið uppi og komið fram um sérstakt hlutverk rannsóknaseturs á sviði norðurslóðarannsókna á Ísafirði. Hann vakti þá einmitt máls á því að um Grænlandssundið fer jú Golfstraumurinn, fara þeir hafstraumar fyrir norðan land sem í rauninni stýra að stórum hluta veður- og hitafari og lífríki sjávar á norðurslóðum.

Það er einmitt á þessum sviðum sem alvarlegir atburðir gætu verið að gerast. Vegna hlýnunar loftsins, vegna bráðnunar jöklanna, vegna bráðnunar Grænlandsjökuls — er talin hætta á að þær miklu breytingar sem eru að verða á loftslagshita og hitastigi sjávar og bráðnun íss geti haft áhrif á hafstraumana.

Við erum í rauninni afar illa í stakk búin til að takast á við að rannsaka þetta og fylgjast með því hvað þarna er að gerast. Það er alveg upplagt að slíkt verkefni verði á Ísafirði og það gæti orðið góður grunnur sem rannsóknarverkefni sjálfstæðs háskóla og rannsóknaseturs á Ísafirði.

Í því sambandi vil ég einmitt spyrja hæstv. ráðherra um stöðu Norðurslóðaáætlunarinnar, eða Northern Periphery, sem Ísland er aðili að, en á bls. 35 undir 5. lið, Starfsnefndir, í þessari ágætu skýrslu er vikið að þeim þætti, með leyfi forseta:

„Nokkrar tímabundnar starfsnefndir voru að störfum á árinu. Fyrst er að geta nefndar um framtíð INTERREG-áætlana ESB. Núverandi áætlanatímabili lýkur um áramót 2006/2007. Þær hugmyndir sem uppi eru og snerta okkur Íslendinga mest snúast um að sameina í eina INTERREG-áætlun Norðurslóðaáætlunina, Northern Periphery, sem Ísland er aðili að, og Eystrasaltsáætlunina sem nær til svæðisins umhverfis Eystrasaltið. Öll norrænu löndin eru andvíg þessari hugmynd og hafa komið þeim sjónarmiðum á framfæri við ráðherraráðið í Brussel. Hefur nefndin um framtíð INTERREG fylgst gaumgæfilega með þróun mála og hafa fulltrúar þeirra landa sem aðild eiga að ESB upplýst fulltrúa þeirra landa sem utan standa, jafnframt því sem afstaða til tillagna ESB hefur verið samræmd eftir því sem kostur er.

Nefnd sem fylgjast á með endurskoðun á ríkisstyrkjum hjá ESB hefur sömuleiðis haldið starfi sínu áfram en nú stendur yfir endurskoðun á reglum sambandsins um slíka styrki. Hefur nefndin gert athugasemdir og komið ábendingum á framfæri við ráðherraráðið í Brussel, til dæmis varðandi skilgreiningu á hvað teljist til heimskautasvæða, en hugmyndir voru uppi um að einungis þau svæði sem eru norðan heimskautsbaugs teljist til heimskautasvæða. Hefur að því best er vitað verið horfið frá slíkum skilgreiningum innan ESB.“

Ég hefði gjarnan viljað heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig þessi mál standa. Því þótt við séum blessunarlega ekki aðilar að Evrópusambandinu, og verðum vonandi aldrei, þá erum við, því miður, í gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu bundin af ákveðnum samningum sem lúta að skilgreiningum á þessum svæðum, heimskautasvæðunum, t.d. hvað varðar opinbera þátttöku í stuðningi við atvinnulíf, búsetu o.s.frv. Innan Evrópska efnahagssvæðisins hafa verið skilgreindar heimildir til slíkra inngripa á búsetusvæðum sem flokkast undir heimskautasvæði eða svæði sem eru norðan ákveðinnar breiddargráðu. Þess vegna skiptir máli hvort hér sé eitthvað á ferðinni varðandi þær skilgreiningar, hvort þetta hafi áhrif á sértækt samstarf og sértækar áherslur varðandi rannsóknir á norðurskautssvæðinu, sem að mínu viti, og eins og kemur fram í þessum texta, er lögð áhersla á að fái að njóta algerrar sérstöðu og því ekki tengdar eða blandað saman við einhverjar rannsóknaráætlanir eða sérstakar áætlanir á Eystrasaltssvæðinu. Það er mikilvægt að þessu sé haldið algerlega aðskildu.

Ég vildi því spyrja ráðherrann hvort í gangi séu einhverjar breytingar á skilgreiningum á þessum svæðum hvað varðar innra samstarf og framlag til rannsókna, til búsetumála, til opinberra inngripa í atvinnulíf o.s.frv.

Ég vil líka koma hér að einu atriði til. Á bls. 53 er minnst á Norræna lýðheilsuháskólann, það er mjög jákvæður og góður texti um hann en ég hefði viljað heyra ráðherrann geta aðeins nákvæmar um aðild okkar að þessum Norræna lýðheilsuháskóla. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Norræni lýðheilsuháskólinn er samnorræn menntastofnun fyrir æðri menntun og rannsóknir í heilbrigðisfræði. Háskólinn er staðsettur í Gautaborg í Svíþjóð og starfar samkvæmt sérstökum samningi við Norrænu ráðherranefndina sem gerður er til þriggja ára í senn. Megináherslan er á nám til meistara- eða doktorsgráðu í lýðheilsufræðum en einnig er hægt að sækja þar einstök námskeið.

Námskrá skólans er í sífelldri endurskoðun og eru alltaf fleiri umsækjendur frá Íslandi sem sækja um að komast í nám við skólann en komast þar að. Ísland hefur þar sérstöðu því heldur dregur úr umsóknum frá öðrum norrænum löndum. Meginskýringin er trúlega sú að ekki er hægt að stunda sambærilegt nám hér á landi.

Ísland forgangsraðar sjálft umsóknum svo námsplássin nýtist heilbrigðisþjónustunni á Íslandi sem best.“

Það er svo sem ágætt sem þarna er sagt, að Íslendingar sæki þennan skóla. Ég hefði gjarnan viljað heyra það í tölum hve margir Íslendingar sækja um nám þarna og hverjum er hafnað inngöngu í hann, hverjar séu fjárhagslegar skuldbindingar af hálfu íslenska ríkisins í þessu sambandi, hvaða fríðinda íslenskir nemendur njóti í þessum skóla og hvernig unnið sé af hálfu ráðuneytisins að forgangsröðun þeirra sem sækja um inngöngu í þennan skóla. Mér finnst þetta bæði forvitnilegt og áhugavert og væri þess vegna fróðlegt að heyra aðeins um ytri ramma þessa starfs.

Frú forseti. Það er aðeins einn þáttur enn sem ég á eftir að minnast á frekar og ég kom inn á áðan en átti eftir að ljúka. Það var um aðkomu Norræna fjárfestingarbankans að Kárahnjúkavirkjun, lánveitingar til hennar, sem flokkuð er undir sérstök verkefni í umhverfismálum af hálfu Norræna fjárfestingarbankans og sem kemur líka fram að hafi sett sér sérstaklega og mjög ströng umhverfisviðmið og þá veltir maður fyrir sér hvernig þau eru unnin.

Ég vil leyfa mér að vitna hér aðeins í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem hann hélt á Alþingi, 26. febrúar 2003, í umræðunni um fjármögnun á fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun. Með leyfi forseta, segir í þeirri ræðu:

„… sem Landsvirkjun hefur áður verið að leita til um stór fjárútboð, eins og Merill Lynch,“ — sem núna er í fréttum hér fyrir að gefa umsögn um íslensku bankana — eins og Ambro, eins og Sumitomo Mitsui Banking Corporation“— og hann tilgreinir síðan ýmsa fleiri banka — „Segjum nú að þetta sé ekki ólíkleg tilgáta, að það eigi að leita ekki síst kannski hófanna hjá NIB, sem oft hefur lánað til svipaðra verkefna hér, og Evrópska fjárfestingarbankans.

Og þá vil ég spyrja:“ — spyr Steingrímur og ég vitna áfram í ræðu hans, frú forseti — „Er búið að fara yfir það að þessir bankar fáist til að lána út á svona verkefni vegna umhverfisáhrifanna? Hvernig er það með þessa banka? Hafa þeir ekki einhver viðmið og einhvern standard í þessum efnum? Jú. Það vill svo til a.m.k. að ég veit að Norræni fjárfestingarbankinn hefur það og stærir sig nú ekki lítið af því stundum hversu umhverfisvænn hann sé orðinn, og það er vel. Því er mjög haldið fram að Norræni fjárfestingarbankinn sé að fjármagna verkefni á sviði umhverfismála í t.d. Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi, og það er vel.“

Áfram segir í ræðu Steingríms J. Sigfússonar:

„En Norræni fjárfestingarbankinn er auðvitað líka að fjármagna ýmiss konar uppbyggingu og mannvirkjagerð og framkvæmdir. Og þá setur hann ákveðnar kröfur og hefur reglur um mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda og það er ekki veitt lán nema þar séu tilteknir hlutir uppfylltir og í lagi. Norræni fjárfestingarbankinn hefur sett sér strangar vinnureglur í þessum efnum, það eru sem sagt umhverfisreglur eða umhverfisvinnureglur, ,,miljörutiner“ heitir það á sænsku, hjá Norræna fjárfestingarbankanum. Framkvæmdirnar eru flokkaðar eftir umhverfisáhrifum, hversu mikil þau verði, í A-, B- og C-flokk. Í A-flokknum eru þá þær framkvæmdir sem hafa umtalsverð umhverfisáhrif eða framkvæmdir þeirrar tegundar sem ætla má að stærðar sinnar vegna eða eðlis hafi umtalsverð umhverfisáhrif. Flokkur A er þá sem sagt sá sem mest áhrifin hefur að þessu leyti, hefur ,,omfattande potentiella miljökonsekvenser“, ef ég má sletta því, með leyfi forseta, sem sagt umfangsmikil möguleg eða ,,potentiell“ umhverfisáhrif. Og hvers konar framkvæmdir eru það nú sem þar eru taldar upp efst á listanum? Jú, það eru orkuver sem byggja á kolum, olíu, torfi eða gasi, og það eru vatnsaflsvirkjanir ,,vattenkraftverk“. Reyndar eru líka stíflubyggingar, skurðir, stór jarðgöng, olíuhreinsunarstöðvar og ýmislegt fleira talið þarna upp. Það er sem sagt bara þannig að sjálfkrafa fara stór vatnsaflsorkuver í þennan fyrsta flokk hjá NIB. Og þá skal fara fram mat á umhverfisáhrifum. Gögnin eru tekin, þeim er safnað saman hjá bankanum sjálfum og þau eru lögð fyrir stjórn og þau eru hluti af grundvelli afgreiðslu lána.“

Svo segir áfram og ég er alveg að ljúka tilvitnun í ræðu Steingríms:

„Er alveg öruggt að Norræni fjárfestingarbankinn eða Evrópski fjárfestingarbankinn hafi áhuga á því að lána í framkvæmd sem féll í umhverfismati? Gleymum því ekki að hún féll í umhverfismati. Úrskurður Skipulagsstofnunar var sá að þessi framkvæmd hefði svo umfangsmikil neikvæð og óafturkræf umhverfisáhrif í för með sér að ekki væri hægt að réttlæta hana. Ég er ekkert viss um að þessir bankar taki það endilega sem gilt að svo komi pólitískur svokallaður umhverfisráðherra og snúi því við með handafli, vegna þess að það er yfirleitt ekki þannig sem hlutirnir ganga fyrir sig í þessum löndum. Það er séríslenskt fyrirbæri að hægt sé að fara þannig með málin. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum mjög víða hefði úrskurður skipulagsstjóra verið endanlegur.

Ég leyfi mér að efast um að það verði almenn gleði t.d. í hópi sænskra, norskra og finnskra stjórnarmanna í Norræna fjárfestingarbankanum með að fjármagna þetta umdeilda verkefni. Það gæti gerst líka með evrópska bankann. Þeir kunna að hafa frétt af því t.d. að sænsk verktakafyrirtæki flúðu af hólmi vegna þess að þau höfðu ekki áhuga á því að láta draga sig inn í umhverfissóðaskap af því tagi sem hér um ræðir.“ — Segir í ræðu Steingríms.

Síðan stendur hér að það sé eitt af stærstu viðfangsefnum Norræna fjárfestingarbankans að lána til framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og það sé hluti af umhverfisvænum verkefnum á vegum bankans. (Gripið fram í: Hvaða Steingrímur er þetta?) Ég hef getið þess þrisvar í ræðu minni en nafns Steingríms J. Sigfússonar, hv. þingmanns og formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er aldrei of oft getið en hann flutti hér afbragðs góða ræðu (Forseti hringir.) og einmitt varðandi þátttöku Norræna fjárfestingarbankans sem (Forseti hringir.) ég geri hér að umtalsefni og spyr ráðherra út í.