132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[14:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég á erfitt með að setja mig inn í persónulegar hræringar hv. þingmanns. Hann þarf að eiga þær við sjálfan sig. Tíminn er mjög afstætt hugtak, þúsund ár sem dagur o.s.frv. Það má velta því fyrir sér hvort þetta sé umræðuefnið. Það má vel vera að hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda finnist málefnið vert til að fjalla um. Þá kemur ráðherra af því.

Ég hef hins vegar spurt út í mál er lúta að þessari skýrslu og ákveðnum atriðum sem eru mjög fróðleg. Þetta er mikilvægur þáttur í starfi þjóðanna, þ.e. norrænt samstarf. Ég tel mjög mikilvægt að vera sem best upplýstur um hvað þar er á ferðinni. Ég held mig a.m.k. við þau málefni, frú forseti, en læt hv. þingmanni eftir aðrar lífsspekilegar vangaveltur. Hv. þingmaður verður að leysa þær með sjálfum sér.