132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[14:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þá ágætu ræðu sem hún flutti. Hún svaraði öllum þeim spurningum sem fyrir hana voru lagðar nokkuð skilmerkilega. Sömuleiðis á hún lof skilið fyrir það að hafa tekist að skýra það nokkuð vel hvernig menn eru að breyta Norðurlandasamstarfinu með þeim hætti að það verði skilvirkara og hnitmiðaðra.

Ég spurði hæstv. ráðherra um afstöðu hennar til Evrópusambandsins með svona tiltölulega breiðri spurningu. Hæstv. ráðherra svaraði og kom ekki á óvart að það væri ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Mig langar þá að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórninni að Ísland tæki upp hinn sameiginlega evrópska gjaldmiðil, annaðhvort með því að ganga í myntbandalagið eða einhliða. Tilefni spurningarinnar er auðvitað skýrt. Þetta teygir anga sína inn í norrænt samstarf. Við erum í miklu samstarfi við þjóðir sem eru í þessu bandalagi. Og einn hæstv. ráðherra hefur nú reifað þann möguleika að við ráðumst í þetta. Það kom sömuleiðis fram í hádegisfréttum í dag að nú væri beðið svars frá höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel um hvort slíkt sé mögulegt.

Því spyr ég: Hefur þetta verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar, formlega eða óformlega?