132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[14:23]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það mál sem hv. þingmaður kýs að gera að umtalsefni er auðvitað hápólitískt og um það geta líka verið skiptar skoðanir innan stjórnmálaflokkanna. Það er ekki eins og það sé svo að eining sé innan stjórnmálaflokkanna, hvorki innan hans flokks, hv. þingmanns sem spurði, né innan míns flokks, þar sem skoðanir eru skiptar í Sjálfstæðisflokknum.

Ákveðinn hópur í Sjálfstæðisflokknum hefur kannski lýst því að hann telji að við ættum að ganga í Evrópusambandið en það var nú sérstaklega hér á árum áður. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og skoðanir manna hafa að mörgu leyti breyst. Ég tel að það sé miklu meiri eining um það í dag að okkur vegni ágætlega með samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og það sé ekkert sem knýr okkur til að sækja um aðild. Ef við lítum á þau tvö Norðurlönd sem eru utan Evrópusambandsins, Noreg og Ísland, þá sjáum við auðvitað að þau tróna á toppnum í öllum alþjóðlegum samanburði. Það má eiginlega segja hvert sem litið er, ekki síst í efnahagsmálum. Það er þess vegna sem þau hafa kosið að standa utan við sambandið og hvað snertir myntbandalagið og evruna þá hefur það ekkert breyst, ekki svo ég viti til. Til þess að þjóð geti orðið aðili að myntbandalaginu þarf hún jafnframt að vera aðili að Evrópusambandinu.