132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[14:49]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir góða yfirferð og hina fróðlegu skýrslu um starf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á síðasta ári. Fjölmörg atriði í þessari skýrslu eru áhugaverð og augljóst að um er að ræða áhugaverðan vettvang fyrir okkur að starfa á.

Í inngangi skýrslunnar kemur fram að á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs sé fjallað um framkomnar tillögur og þingið sendi frá sér tilmæli til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Fjallað er um þau tilmæli á ýmsum stöðum í skýrslunni. Nú hlýtur, og það hefur komið fram í umræðum um málið sem var á dagskrá hér á undan, aðild Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands að Evrópusambandinu að einhverju leyti að hafa áhrif á starfið innan Norðurlandaráðs. Nú gjörþekkir hv. þm. Jónína Bjartmarz þetta samstarf. Ég hef því áhuga á að heyra frá henni hvaða áhrif slík tilmæli hafa í raun og veru. Er einhver munur hvað það varðar á þeim ríkjum sem eru í Evrópusambandinu og hinum sem eru utan þess, Íslands og Noregs?

Ég veit nefnilega, og ég sé það hér í skýrslunni, að þessum tilmælum hefur verið komið í ákveðinn formlegan farveg hér á landi fyrir tilstuðlan hv. þm. Jónínu Bjartmarz og hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Því hef ég áhuga á að heyra hvernig því er fyrir komið í öðrum þjóðþingum og hvort hv. þingmaður metur það svo að þar sé munur á.