132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[14:51]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spyr svo stórt að ég veit ekki hvort mér vinnst tími til að svara henni í þessu stutta andsvari. Hvað varðar þá breytingu sem við gerðum á starfstilhögun Íslandsdeildar Norðurlandaráðsins þá ákváðum við að taka þátt í því að samhæfa betur starfið sem fer fram á vettvangi Norðurlandaráðs og starfið í þjóðþingunum. Liður í því er að senda tilmælin, sem samþykkt eru á Norðurlandaráðsþingi, til viðkomandi fastanefnda. Það gerðum við eitt árið. Síðan uppgötvuðum við að það væri óeðlilegt að senda þau á öðru máli en íslensku svo að næsta ár var ráðist í að þýða tilmælin og senda þau viðkomandi fagnefndum hér í þinginu. Síðan er það eftir atvikum hvort þeir sem sitja í Íslandsdeildinni sitja í fagnefndum hér í þinginu.

Á fundi Íslandsdeildarinnar í janúar ákváðum við að leitast við að taka þetta í fóstur, eftir því sem við átti og eftir því í hvaða fagnefndum menn sitja hér á Alþingi. Við erum svona á fósturstiginu núna að skoða hvernig við getum fylgt þessu eftir.

En áhugi hv. þingmanns á norræna samstarfinu gleður mig mikið. Hún lét þess ekki getið tímans vegna að hún hefur m.a. verið varamaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Þess vegna gleður áhugi hennar mig enn meira og einnig vegna þess hve hv. þingmaður er ung, bæði hér á þingi og í aldri. Ég hef svolitlar áhyggjur af norrænu samstarfi gagnvart yngra fólki en er orðin vonbetri en áður.

Ég get upplýst hv. þingmann um að tilmælunum er ýmist beint til Norrænu ráðherranefndarinnar til úrvinnslu á vettvangi hennar eða til viðkomandi ríkisstjórna. En það er enginn munur á því hvernig með þau tilmæli er farið í ríkjunum þremur innan Evrópusambandsins eða í ríkjunum tveimur sem standa utan þess, Íslandi og Noregi. Ég hef ekki fundið nokkurn mun á því hvernig farið er með þessi tilmæli eða hvernig þeim er tekið á milli þessara ríkja.

Þegar lesið er í gegnum tilmælin sést að þau eru mjög margbreytileg á mjög mismunandi málefnasviði. Sumum er beint til ráðherranefndarinnar og síðan er gert grein fyrir þeim á næsta Norðurlandaráðsþingi. Önnur fara hér inn í vinnslu og þingmenn hafa það í sumum tilvikum í hendi sér að fylgja þeim eftir.