132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[14:58]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er afskaplega ánægjulegt hve mikil umræða hefur verið hér í allan dag um norrænt samstarf og er það vel. Það er ekki alltaf sem svo er þegar verið er að fara yfir skýrslur á þessum vettvangi svo það er mjög ánægjulegt hve margir taka þátt í þessari umræðu og ég vil fagna því sérstaklega.

En sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs vil ég koma inn í umræðuna og hafa nokkur orð um starf nefndarinnar á síðasta ári.

Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni. Umfang þeirra verkefna sem nefndin hefur á sinni könnu er mikið og það er afskaplega skemmtilegt að fá það tækifæri að vera formaður í þessari nefnd.

Á starfsárinu 2005 beindi nefndin sjónum að afnámi landamærahindrana í atvinnulífi Norðurlanda og fjallaði um málefni sem varða opinn hugbúnað og opna hugbúnaðarstaðla, vinnumarkaðssamstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna, útvistun og vestnorræna samgöngu- og byggðastefnu. Þá vann vinnuhópur, sem Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í, tillögu um tilhögun evrópsks hugbúnaðareinkaleyfis.

Efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs gekkst í maí fyrir ráðstefnu um útvistun og innvistun í Kaupmannahöfn í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina og Norrænu nýsköpunarmiðstöðina. Rætt var um aukna útvistun norrænna fyrirtækja á framleiðslu sinni til landa eins og Eystrasaltsríkjanna, Kína og Indlands. Eins og allir vita er launakostnaður þar lægri en á Norðurlöndum. Rætt var um hvernig það styrkti samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á heimsmarkaði. Jafnframt var rætt um hvernig Norðurlönd gætu laðað til sín auknar fjárfestingar og möguleika þess að þær stofnanir sem vinna að því að laða að fjárfestingar í einstökum löndum gætu unnið saman að því að markaðssetja Norðurlönd sem fjárfestingarsvæði. Áhersla var lögð á að samkeppnin nú snerist ekki lengur einungis um ódýrara vinnuafl heldur í vaxandi mæli um háskólamenntað fólk sem Asíuríki væru sérstaklega dugleg að mennta, t.d. hönnuði, hugbúnaðarfólk, verkfræðinga o.s.frv. Þess vegna yrði að leggja ofuráherslu á rannsóknir og menntun á Norðurlöndum því samkeppnisstaða þeirra stæði og félli með því að löndin haldi sessi sínum sem háþróuð þekkingarsamfélög í fremstu röð.

Í samræmi við áherslur Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar á málefni Vestur-Norðurlanda árið 2004 hóf efnahags- og viðskiptanefnd að kynna sér vestnorræn samgöngu- og byggðamál.

Mig langar að geta þess að árið áður hóf nefndin starf sitt á sumarfundi í Færeyjum. Þar hittum við færeyska þingmenn, áttum viðtöl við ýmsar stofnanir í Færeyjum og síðan tókum við Norrænu til Seyðisfjarðar og fórum um allt Norðurland. Við fórum með nefndina á Kárahnjúkasvæðið og skoðuðum allar þær miklu framkvæmdir sem voru í fullum gangi. Haldnir voru fundir á Akureyri, bæði með háskólanum þar og fleiri aðilum.

Á síðasta ári var sumarfundur nefndarinnar einnig helgaður sömu málefnum. Fyrst var fundað í Reykjavík og síðan farið til Grænlands. Sumarferðin var farin dagana 15.–19. ágúst. Átti nefndin fundi með rekstrarfélagi ferjunnar Norrænu, Flugfélagi Íslands, Grænlandsflugi og óháðum sérfræðingum. Á Grænlandi kynnti nefndin sér stöðu ferðaþjónustu og framtíðarhorfur í greininni, m.a. möguleika á nánari samvinnu ferðaþjónustuaðila á Íslandi og Grænlandi á þeim stöðum þar sem boðið er upp á beint flug á milli landanna. Þá heimsótti nefndin bóndabæi. Það var afskaplega skemmtilegt að hitta þá bændur því að þeir höfðu numið sín fræði á Íslandi. Það er til marks um hve miklu máli það skiptir, hið góða samstarf milli Grænlands, Íslands og Færeyja.

Við ræddum við fulltrúa landbúnaðarstofnunar heimastjórnarinnar um stöðu landbúnaðar á Grænlandi. Í Qaqortoq, stærsta bæ Suður-Grænlands, átti nefndin fund með bæjaryfirvöldum og heimsótti fiskmarkað, fiskvinnslu og verslunarskóla bæjarins auk skinnavinnslu Great Greenland.

Við áttum þess einnig kost að hitta hreindýrabóndann stóra, sem er stór í orðsins fyllstu merkingu og einnig með stóran hreindýrabúgarð. Með honum fórum við í siglingu. Það er ánægjulegt að hitta Íslendinga sem gera það gott. Eins hittum við íslenska konu sem rekur veitingahús í Qaqortoq, þar sem er framreiddur skemmtilegur grænlenskur matur og sagðar skemmtilegar sögur meðan á borðhaldi stendur.

Á árinu 2005 sótti ég ásamt Steingrími J. Sigfússyni nokkrar ráðstefnur fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar. Við fórum, sem formaður og varaformaður nefndarinnar, fyrir sendinefnd í vinnuheimsókn til Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, í París og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, í Genf í mars. Þá sótti ég ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um veikindafjarveru frá vinnustöðum, í Kaupmannahöfn í apríl, 14. Eystrasaltsráðstefnuna í Vilníus í ágúst, og fund WTO í Hong Kong í desember.

Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir starfi efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs á síðasta ári. Hið góða starf sem þar er unnið stuðlar að samkeppnishæfni og góðri efnahagsstöðu Norðurlanda og glæðir útflutning þaðan.

Ég vil nota tækifærið til að þakka varaformanni nefndarinnar, Steingrími J. Sigfússyni, fyrir afskaplega gott samstarf. Eins vil ég nota tækifærið og þakka ritara okkar, hinum danska Jesper Schwarz og Stíg Stefánssyni fyrir frábært samstarf og góða vinnu fyrir nefndina.