132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[15:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér hafa verið fluttar athyglisverðar ræður um samstarf okkar á vettvangi Norðurlandaráðs. Eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir og Jónína Bjartmarz hafa gert grein fyrir þá er ánægjulegt hve mikil endurnýjun virðist hafa orðið í hinu norræna samstarfi. Áhuginn er mikill. Það er talsvert af nýjum þingmönnum að koma til liðs við Norðurlandaráð og líkt og að menn hafi endurnýjað ákveðin grundvallaratriði. Fólk gengur í endurnýjun lífdaga, merkir maður, sem styrkir stólpana undir þetta norræna samstarf. Fólk er t.d. að átta sig á því á hvern hátt norrænu félögin og grasrótin þarf að koma til liðs.

Ég átti kost á að sitja sem varamaður Steingríms J. Sigfússonar á síðasta fundi nefndanna í Ósló fyrir skemmstu. Ég varð vör við að fólk er að átta sig betur á því hve marga þarf til að halda þessu samstarfi úti og hve mikilvægt það er. Af orðum forsætisráðherra Noregs, sem ávarpaði okkur á þessum fundum í Ósló, mátti skilja að hann er sama sinnis og við Íslendingar. En við Íslendingar höfum oft haft áhyggjur af því að stærri þjóðirnar í Norðurlandasamstarfinu hafi ekki áttað sig jafn vel á því og við hve þýðingarmikið þetta er eða ekki lagt jafnmikið í að sinna samstarfinu eins og við hefðum gjarnan viljað.

Þótt ég sé ný í þessu samstarfi hef ég tekið eftir aukinni orku sem ég held að sé til þess fallin að endurnýja stoðirnar, efla þær og tryggja að við náum til framtíðar að styrkja þetta samstarf jafnvel þótt Evrópusamstarfið sé til staðar og annað samstarf þessara þjóða við önnur ríki.

Eins og ég gat um hef ég komið inn í þetta starf á undanförnum vikum sem varamaður Steingríms J. Sigfússonar. Mig langaði að gera grein fyrir þeirri sérstöðu sem mér hefur fundist vinstriflokkagrúppan í Norðurlandaráði hafa, vinstri sósíalíska og græna grúppan.

Mig langar t.d. að geta þess að þegar við hittumst á Norðurlandaráðsþinginu, sem haldið var í Reykjavík 25. til 27. október síðastliðinn, þá voru nokkuð margir málaflokkar teknir til skoðunar og umræðu. Þá fluttu forsætisráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Anders Fogh Rasmussen fluttu sínar skýrslur. Norski samstarfsráðherrann gerði síðan grein fyrir formennskuáætlun Norðmanna í Norrænu ráðherranefndinni fyrir þetta ár, 2006.

Kynningin á áætluninni fór ekki þegjandi og hljóðalaust fram. Þó ég hafi þá trú að þjóðirnar hafi í auknum mæli áttað sig á að endurnýja þurfi kraftinn í þessu samstarfi þá töluðu mínir kollegar í samstarfinu milli vinstri sósíalista og grænna um að megináherslurnar í áætlun Norðmanna mættu vera metnaðarfyllri að sumu leyti. Að hluta má nefna að framlögin til norræna samstarfsins hefðu mátt aukast meira en raun ber vitni. Þau hafa ekki aukist í samræmi við verðlagsbreytingar og aukningu þjóðarframleiðslu á Norðurlöndunum undanfarin 10–15 ár. Þó má segja, í því sambandi, að það varð ákveðinn sparnaður og hagræði af flutningi skrifstofunnar á sínum tíma. En ég held samt að stjórnmálamenn á Norðurlöndum verði að átta sig á því að þetta öfluga samstarf þarf ákveðið eldsneyti og aukna fjármuni. Við þurfum alltaf að endurskoða fjárhagsáætlanir okkar. En það hefur viljað brenna við að menn standi á bremsunni hvað varðar fjárveitingarnar. Ég held að við þurfum að horfa til þess á jákvæðan hátt. En þótt ákveðinn sparnaður hafi orðið og hagræði í starfseminni á undanförnum árum þá verðum við að passa okkur á að hefta ekki svo fjárstreymið inn í samstarfið að það gjaldi þess.

Ég tek undir orð hv. þm. Jónínu Bjartmarz sem ræddi um óskir varðandi Færeyinga, að þeir fái fulla aðild að Norðurlandaráði. Við þá kröfu hefur ævinlega verið lýst stuðningi og talsvert frumkvæði verið haft í þeim efnum úr flokkahópi vinstri sósíalista og grænna. Ég vil bara undirstrika að við erum því fylgjandi að Færeyingar fái fullgilda aðild að Norðurlandaráði. Ég held að það gæti jafnvel breytt ýmsu í samstarfinu og gert samstarf okkar á norðurslóðum enn öflugra en raun ber vitni. Er það þó öflugt fyrir.

Átökin sem átt hafa sér stað varðandi form- og skipulagsbreytingar á norræna samstarfinu hafa vakið talsverðar spurningar. Breytingarnar hafa vakið alvarlegar spurningar sem ég held að við komust ekki hjá að svara, spurningarnar um hvort fækka í ráðherra- og embættismannanefndunum og varðandi tilfærslu á norrænum stofnunum yfir til einstakra ríkja þá er eðlilegt að við setjum spurningarmerki við ákveðna þætti í þessum breytingum.

Ég held að það sé full ástæða til að nefna að hugmyndir um aukið samstarf við Skotland og Kanada, milli Norðurlandanna, Skotlands og Kanada. Þeim hefur verið haldið frammi á þessum vettvangi. Það er auðvitað umhugsunarvert að í Kanada búa fleiri en í öllum norrænu ríkjunum samanlagt. En þar býr fólk engu að síður við aðstæður sem minna um margt á Norðurlönd. Kannski má segja að vest-norræna samstarfið hafi í auknum mæli opnað okkur á norðurslóðum innsýn í lífið í Kanada, sem á vissulega marga snertifleti við Norðurlöndin.

Mér hefur líka fundist afar athyglisvert að skoða, í umræðunum á Norðurlandaráðsþinginu sem ég sat í Reykjavík og fundi í Ósló fyrir skemmstu, þættir og tillögur er varða þá viðleitni okkar að reyna að sporna gegn ólöglegu vinnuafli. Við í vinstri sósíalista og græna flokkahópnum höfum flutt um það tillögur á vettvangi Norðurlandaráðs að bregðast þurfi við því ólöglega vinnuafli sem kemur til Norðurlandanna og nýtur alls ekki sömu launa og réttinda og innlent vinnuafl. Í borgara- og neytendanefndinni hefur talsverð umræða farið fram um þessi mál. Nefndin hefur til sérstakrar umfjöllunar hugmynd eða tillögu frá vinstri flokka hópnum sem lýtur að þessum málum. Ég held að það skipti verulegu máli að þessi atriði séu tekin föstum tökum. Eins og við á Íslandi þekkjum er þessi straumur vinnuafls úr Austur-Evrópu ekkert að stöðvast. Þvert á móti. Ég held að það sér veruleg þörf á að norrænir þingmenn standi saman í að finna leiðir til að tryggja að verkamenn sem koma til okkar landa til starfa njóti þar a.m.k. fullra réttinda. Annað er auðvitað ekki forsvaranlegt.

Mig langar líka að geta hér í nokkru, virðulegi forseti, þeirrar vinnu sem á sér stað á vettvangi Norðurlandaráðsins sem lýtur að baráttunni gegn mansali. Í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz kom fram að á dagskrá nefndanna í Norðurlandaráði sé samræming aðgerða í baráttunni gegn mansali á Norðurlöndunum og ályktun frá síðasta Norðurlandaráðsþingi sem krefur ríkisstjórnir norrænu landanna um að utanríkisráðherrar gefi út skýrslu á næsta þingi Norðurlandaráðs árið 2006 um þátttöku í starfshópnum sem stofnað var til á sínum tíma um baráttu gegn mansali á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Hún er auðvitað sjálfsögð. En við hefðum viljað sjá í vinstri sósíalíska og græna flokkahópnum heldur lengra gengið í þessum efnum.

Í því sambandi má nefna að við fluttum um það tillögu á sínum tíma á 57. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík að Norðurlandaráð beindi tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að taka ákveðið frumkvæði í rannsókn á því hvaða áhrif framlenging á dvalarleyfi fórnarlamba mansals í móttökulandinu hefði á frekari rannsóknir á þeirri glæpastarfsemi sem að baki liggur. Ástæðan fyrir því að við höfum viljað að þetta yrði skoðað sérstaklega á vettvangi Norðurlandaráðs er fyrst og fremst sú að við teljum að fórnarlömb mansals sem uppgötvast ólögleg í viðkomandi löndum, þ.e. í okkar löndum, að þau þurfi á mikilli hjálp að halda, bæði félagslegri hjálp, fjárhagslegri og lögfræðilegri og ekki kannski bara eins og hefur verið gert núna, einblínt á að þessi fórnarlömb geti leitt okkur að uppsprettu glæpastarfseminnar, þ.e. til glæpamannanna sjálfra sem stunda að selja konur og börn á milli landanna okkar til kynlífsþrælkunar og annars konar þrælkunar, heldur teljum við að það sé meginatriði og aðalatriðið og eigi að vera forgangsmál, að endurreisa líf þessara fórnarlamba. Það er ekki fyrr en hægt er að segja að því marki sé náð að fórnarlömbin geti í sjálfu sér hugsanlega verið í stakk búin til að vitna gegn þeim glæpamönnum sem unnið hafa þeim mein í gegnum þessa glæpastarfsemi.

Hingað til hefur fókusinn ævinlega verið á það að fá fórnarlömbin til að vitna og hjálpin hefur ekki staðið þeim til boða nema að þau séu fús til slíks samstarfs við lögreglu. En við höfum viljað, eins og raunar hefur komið fram í þingmálum okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á löggjafarþinginu, breyta fókusnum í þessum efnum.

Vinstri græna flokkagrúppan í Norðurlandaráði telur líka að beina þurfi sjónum að ákveðnum þáttum í þessari baráttu við mansalið sem ekki hefur verið nægilega vel hugað að. Þá erum við að tala um miðlun upplýsinga á milli landanna og miðlun reynslu um hvaða aðferðir hafi reynst best í viðleitninni við að hafa uppi á fórnarlömbum mansals. Sömuleiðis höfum við viljað leggja áherslu á að við þurfum að þróa aðferðir til að bera kennsl á og meta hvernig þau tilboð um vernd sem standa fórnarlömbunum til boða hafa reynst, þar með talið möguleika fórnarlambanna á vernd óháð landamærum.

Eins og vinstri flokka grúppan skilaði hugmyndum sínum upphaflega til 57. þings Norðurlandaráðs má segja að hún fór ekki óbreytt í gegn. En hún vakti fólk til umhugsunar um þessa þætti. Ég tel að þetta sé dæmi um mál sem fær áframhaldandi umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs og komi á endanum til með að ná í gegn þó svo það hafi ekki komist alla leið í fyrstu tilraun.

En það er verulega mikilvægt, virðulegi forseti, að öll sú umræða sem á sér stað á vettvangi Norðurlandaráðs um mannréttindamál og jafnréttismálin almennt hefur verið þeirrar náttúru að þar er verið að brydda upp á nýjum hugmyndum og ég er full bjartsýni á að þingmenn á vettvangi Norðurlandaráðs eigi að geta tekið forustu í ýmsum málum sem Norðurlandaráð hefur verið að fjalla um hreinlega á heimsvísu. Þar vil ég nefna mannréttindamál sérstaklega. Mér sýnist full þörf á að þessi sterki þjóðahópur taki sig saman og tali einni röddu og röddin sem komi þá sameinuð úr norðri verði rödd hinnar meðvituðu mannréttindastefnu sem tryggi að það séu raunhæfar aðferðir notaðar í löndum okkar til að vinna gegn þeim mannréttindabrotum sem við horfum upp á.