132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[15:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram mjög fróðleg umræða sem endurspeglar áhuga Alþingis á málefnum Norðurlandaráðs. Við ræddum fyrst skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar þar sem farið var yfir ýmsa þætti Norðurlandasamstarfsins. Hér er til umfjöllunar skýrsla Íslandsdeildar Norðurlandaráðs þar sem tíunduð hefur verið aðkoma íslenskra þingmanna að þessu starfi.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur komið að norrænu samstarfi eins og ég gat um í ræðu minni um skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar. Innan okkar raða er mikill áhugi á að efla norrænt samstarf í hvívetna. Það er staðreynd að uppi eru mismunandi sjónarmið hvað það snertir en þessar skýrslur bera þess vott að í Norðurlandasamstarfinu er tekið á mörgum þeim málum sem brenna á okkar samtíð.

Hér hefur verið farið yfir ýmsa þætti starfsins. Ég ætla að staðnæmast örlítið við starf efnahags- og viðskiptanefndar sem hefur lotið formennsku hv. þm. Drífu Hjartardóttur, en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gegndi varaformennsku í þeirri nefnd.

Í skýrslunni kemur fram að nefndin hafi látið til sín taka á ýmsum sviðum enda annast hún málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni. Í umræðum í þinginu hefur komið fram á hvern hátt Norðurlöndin auka á samskipti við Eystrasaltsþjóðirnar.

Í skýrslunni sem hér er til umræðu er að því vikið að nefndin hafi beint sjónum að afnámi landamærahindrana í atvinnulífi Norðurlanda og fjallað um málefni sem varða opinn hugbúnað og opna hugbúnaðarstaðla, vinnumarkaðssamstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna, útvistun og vestnorræna samgöngu- og byggðastefnu. Þá vann vinnuhópur, sem Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í, tillögu um tilhögun evrópsks hugbúnaðareinkaleyfis.

Eitt af þeim málefnum sem nefndin lét til sín taka var aukin útvistun norrænna fyrirtækja á framleiðslu sinni til landa eins og Kína og Indlands þar sem framleiðslukostnaður er mun lægri en á Norðurlöndum. Rætt var um hvernig það styrkti samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á heimsmarkaði. Þetta er nokkuð sem ríki í okkar heimshluta þekkja vel, að starfsemin er flutt til landa og svæða þar sem skilyrði eru hagstæðari. Við þekkjum þetta hér á landi. Fyrirtæki í hátækniiðnaði flýja land vegna þess að ytri skilyrði fara versnandi. Við höfum rakið það til stefnu ríkisstjórnarinnar, ekki síst hinnar öfgafullu stefnu sem Framsóknarflokkurinn fylgir í stóriðjumálum. Hann vill að stóriðja verði þriðjungur af efnahagsstarfsemi á Ísland og að ál nemi allt að 40% af útflutningi frá Íslandi þegar upp verði staðið eftir fáein ár.

Allt þetta hefur orðið þess valdandi, þær framkvæmdir sem nú eru í gangi og ekki síður yfirlýsingar um hvað er á döfinni, að gjaldmiðillinn hefur styrkst. Ríkisstjórnin hefur í reynd gefið út yfirlýsingu um að það verði mikil eftirspurn eftir íslensku krónunni á komandi árum. Áhættufjárfestar, sem hafa pumpað inn sennilega um 200 milljörðum kr. til að hagnast á vaxtamun í bankakerfinu, vita að nái þetta fram að ganga, verði þessari stefnu fylgt, sé einskis að óttast af þeirra hálfu. Sú áhætta sem þeir taka er að gjaldmiðillinn taki dýfu og peningar þeirra rýrni meðan þeir staðnæmast í íslensku hagkerfi. Þarna er samhengi á milli, stefnu ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum og efnahagsmálum annars vegar og flótta hátæknifyrirtækja úr landi hins vegar.

Það var athyglisvert að heyra seðlabankastjórann Davíð Oddsson ræða um þessi mál í gær í fjölmiðlum. Hann sagði að stjórnin mætti passa sig og ætti að sýna varkárni í efnahagsmálum. Hann líkti henni saman við það þegar hann á unga aldri hefði farið í afmælisveislu og lagst í mikið kökuát og orðið illt af. Þarna var augljós samlíking á milli óþroskaðs barns sem langaði í stóra köku og mikla og borða hana alla í hvelli og ríkisstjórnar Íslands sem vill gera okkur að einu allsherjarálframleiðsluríki innan skamms.

Þetta datt mér í hug þegar ég sá í skýrslu efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs fjallað um útvistun norrænna fyrirtækja á framleiðslu sinni til landa þar sem framleiðslukostnaður lægri en hér er. Hér eru það stjórnvaldsaðgerðir sem þessu valda, hár vaxtakostnaður sem einnig tengist að hluta stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og síðan gengi krónunnar sem nánast öllum ber saman um að endurspegli ekki framleiðslugetu íslensks efnahags- og atvinnulífs.

Einnig er fjallað um það í skýrslunni að það sé ekki einvörðungu hinn ódýri vinnukraftur sem þróunarríkin bjóði upp á, þ.e. ómenntað og ósérhæft starfsfólk, heldur einnig háskólamennað fólk og langskólagengið fólk. Þar er talað um hönnuði, hugbúnaðarfólk, verkfræðinga o.s.frv. og hvatt til þess jafnframt að Norðurlandaþjóðirnar leggi meira af mörkum til rannsókna og mennta til að treysta samkeppnisstöðu sína gagnvart öðrum hlutum heimsins. Inn í þetta koma að sjálfsögðu önnur álitamál. Ég sá að á ráðstefnu sem haldin var í gær var ályktað í þá veru að við virtum þau próf og réttindi sem langskólagengið fólk og sérmenntað fólk hefði aflað sér í sínu heimalandi, að við virtum þessi réttindi þegar hingað væri komið. Þar er vísað til hjúkrunarmenntunar og annarrar menntunar af því tagi.

Á þessu eru vissulega fleiri hliðar en ein. Auðvitað skilur maður það út frá sjónarhóli einstaklingsins, sem hefur aflað sér starfsréttinda og menntunar, að hann vilji að sér sé vel tekið alls staðar í heiminum. Það er nokkuð sem við hljótum að hafa skilning á. En hitt sem þessu fylgir er að þróunarríkin mennta fólk til heilbrigðisþjónustu og annarrar sérhæfðrar vinnu en að námi fólksins loknu fer það úr landi. Það er umhugsunarefni að á sjúkrahúsum í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar í Evrópu er mjög stór hluti vinnuaflsins af erlendu bergi brotinn og þá iðulega kominn frá þessum fátæku ríkjum heimsins sem eru síðan sjálf með tómar heilbrigðisstofnanir.

Það eru því margar hliðar á þessum málum. En það er athyglisvert að í efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs hafa menn verið að fara í saumana á þessari umræðu allri og hvetja til þess að Norðurlöndin stefni að því að halda sessi sínum sem háþróuð þekkingarsamfélög í fremstu röð, eins og segir í skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri um þessa skýrslu. Ég ítreka það sjónarmið sem hér hefur komið fram af minni hálfu og annarra sem tekið hafa þátt í umræðunni að það er mjög mikilvægt að við hlúum að norrænu samstarfi og eflum það í hvívetna. Ég er alveg sannfærður um að það eru hagsmunir Íslands að svo verði gert.